Þessi síða notar kökur (e. cookies) til að auðvelda þér að vafra um vefinn.

02.12.2015

Tónlistaveitur og Spotify

steindogheidarTónlistarveitur nútímans eru afar vinsælt umfjöllunarefni þessa dagana. Fólk virðist hafa margar misjafnar skoðanir á tónlistarveitum og því hvernig neytendur ættu að nálgast tónlist. Í yfir 100 ár, eða allt frá því grammafónninn fór að sjást á heimilum, hefur tónlist verið gríðarlega stór markaðsvara í hinum vestræna heimi.  Undanfarin fimm til tíu ár hefur hins vegar sala á afurðum tónlistarmanna gjörbreyst. Í stað þess að neytendur verði sér út um tónlist á „föstu“ formi (geisladiskar, hljómplötur, kassettur o.s.frv.) hefur Internetið tekið yfir sem stærsti dreifingaraðili tónlistar. Margir hala tónlist niður á ólöglegan hátt, t.d. af heimasíðum á borð við Piratebay og KickAssTorrents, og fylla þannig minnissvæði tölva sinna af „stolinni“ tónlist. Svo eru það líka þeir sem kjósa að nýta sér tónlistarveitur til að streyma úr þeim í viðtæki sín, þ.e. tölvur, fartölvur, snjallsímar og spjaldtölvur.

Í þessari grein verða tónlistarveitur samtímans skoðaðar nánar og farið yfir markaðsstöðu þeirra samanborið við aðrar leiðir neytenda til að verða sér út um tónlist. Tónlist er nefnilega frekar sérstæð neysluvara þar sem hún er algjörlega óhlutbundin í sjálfu sér, en allt í kringum hana er það sem er selt. Með komu geisladiska á níunda áratug síðust aldar varð tónlist til á stafrænu formi og síðustu 10-15 ár með tilkomu internetsins hefur stafrænt form gagna orðið aðgengilegt þannig að hægt er að nálgast nánast hvað tónlist sem er, hvar sem er og hvenær sem er, á stafrænu formi. Þessi þróun hefur orðið tónlistarsölu, og þ.a.l. öllum þeim sem koma að sölu tónlistar, í óhag. Því er hægt að segja að þær breytingar sem eru að verða á sölu og markaðssetningu tónlistar séu gríðarlegar.

Tónlistarveitur.
Árið 1888 gaf maður að nafni Edward Bellamy út skáldsögu sem hét Looking Backward. Í bókinni sofnar aðal sögupersónan árið 1887 og vaknar upp árið 2000. Sögupersónan skráir hjá sér allar þær breytingar sem orðið hafa á samfélaginu og eitt af því áhugaverðasta sem hún sér er svokallað tónlistarherbergi, en þar ganga áheyrnarlistar svokallaðir. Þar geta notendur sest niður og hlustað á tónlist eins lengi og þeim sýnist. Það sem merkilegast er að listarnir eru sendir í gegnum símalínu viðkomandi og tekið er fram að hlustunargæðin eru fullkomin.  

Tónlistarveitur sem slíkar hafa sem sagt verið partur af ímyndunarafli fólks síðan á 19. öld. Snemma á 20. öldinni varð útvarpið að almenningseign og einhverju síðar komu glymskrattar til sögunnar. Þessu tvennu má að hluta til líkja við nokkurs konar tónlistarveitu. Útvarpið er að sjálfsögðu orðið hluti af menningu okkar og hafa margir notast við það sem ein af sínum aðal tónlistarveitum í yfir 100 ár. Í upphafi voru tónlistarútgefendur reyndar ósáttir við útvarpið og vildu ekki að vörur þeirra væru „gefnar“ með því að tónlist væri leikin í útvarpinu. Svokölluð STEF-gjöld löguðu þessar deilur og nú greiða útvarpsstöðvar tónlistarmönnum eða útgefendum fyrir að leika tónlist þeirra.

Árið 1999 var hins vegar fyrsta stafræna tónlistarveitan opnuð, mörgum til gleði og öðrum til ógleði. Hún hét Napster og á enn þann dag í dag met í að vera ein örasta stækkun fyrirtækis í sögunni. Það sem Napster gerði var að auðvelda aðgang netverja til muna að tónlist og hlustun tónlistar, en auðvitað litu flestir er komu að tónlistarbransanum á þessum tíma á þetta sem hreinan og kláran þjófnað á vöru þeirra. Með komu Napster var hugmyndin af tónlistarveitu á netinu hins vegar komin út til fjöldans og það var ekki aftur snúið. Þó svo að flestar tónlistarútgáfur myndu draga sig út úr verkefninu, þar sem þær sáu ekki hvernig hægt væri að fá þetta viðskiptamódel til þess að skila sér hagnaði, var ljóst að markaðurinn yrði aldrei sá sami. Tónlistarmenn skiptust í tvær fylkingar með eða á móti, en þó endaði Napster vegferð sína aðeins tveimur árum eftir opnun, og voru það ýmis málaferli sem drógu Napster niður. Þó mátti öllum vera ljóst að þróun í átt til tónlistarneyslu á netinu var óumflýjanleg og það var einungis spurning hvenær hún yrði svo að segja allsráðandi.

MusicNet var næsta stóra tónlistarveitan en hún var nokkurs konar svar tónlistarútgefanda við Napster. Þar borguðu neytendur áskriftagjald fyrir að hafa aðgang að milljónum laga. Áskriftargjaldið varð samt helsta hindrunin í því að MusicNet næði að festa sig í sessi, auk þess voru tónlistarmenn mjög ósáttir þar sem útgefendur hirtu 91% af ágóða MusicNet.

Árið 2007 gerði hljómsveitin Radiohead skemmtilega tilraun í tónlistarniðurhali en þar var neytendum boðið að borga það sem þeir vildu fyrir nýjustu plötu Radiohead, In Rainbows. Hefur þetta viðskiptamódel verið notað við ýmis tækifæri fyrir dreifingu tónlistar og heimasíðan Bandcamp er m.a. rekin með frjálsum framlögum.

Pandora Radio kom á markaðinn árið 2004 og bauð upp á svokallaða „playlista“ þar sem fólk gat hlustað nokkurn veginn á hvað sem er með því að hlusta á auglýsingar á milli. 5% notenda Pandora voru áskrifendur.

Árið 2005 kom YouTube á markað. en það er heimasíða þar sem fólk getur upphalað nánast hverju sem er, o.þ.m.t. tónlist, og margir hafa notað YouTube sem sína aðal tónlistarveitu síðan. YouTube náði ótrúlegri útbreiðslu á stuttum tíma og er einn vinsælasti vefur samtímans.

Svo var röðin komin að Spotify og munum við gera því betur skil hér fyrir neðan.

Spotify
Spotify er sænskt tónlistarforrit sem leyfir þér að hlusta á tónlist hvar sem er og hvenær sem er. Spotify er frítt en hægt er að borga lágt gjald til að losna við mikið magn auglýsinga sem fylgja forritinu og fá ýmis fleiri fríðindi.
Fyrirtækið var stofnað árið 2006 af Daniel Ek og Martin Lorentzon í Stokkhólmi, Svíþjóð.  Spotify forritið varð síðan til í október 2008, og strax tveimur árum síðar var forritið orðið verulega vinsælt með um það bil tíu milljón notendur og 2,5 milljón notendur sem borguðu áskrift. Höfuðstöðvar Spotify eru í London, en í Stokkhólmi fer öll þróunarvinnan fram.

Árið 2008 kom Spotify fyrst út í nokkrum löndum í Evrópu, en með hverju árinu sem hefur liðið bætast fleiri Evrópulönd við, en það var ekki fyrr en 2011 sem Bandaríkin fengu loks að njóta Spotify.

Árið 2009 var útgáfa af Spotify gefin út á Android og IOS sem var virkilega stórt skref til að fá fleiri notendur. Að gefa forritið út á snjallsíma gerði það að verkum að fólk gat hlustað á tónlist á Spotify hvar sem er og hvenær sem er.

Ekki eru allir ánægðir með Spotify, og þá aðallega tónlistarfólkið sjálft þar sem Spotify borgar þeim aðeins klink fyrir að dreifa tónlist þeirra frítt í gegnum forritið. Þar má helst nefna Taylor Swift og Thom Yorke sem eru mótfallin þessari iðju. Taylor Swift lét t.d. taka alla sína tónlist út af Spotify þar sem hún var ekki tilbúin að láta alla hennar vinnu fara í einhverja prufustarfsemi sem hún fær eiginlega ekkert borgað fyrir. Spotify reyndi að fá hana til að skipta um skoðun með því að setja á netið hvað hún væri vinsæl, nefndu til dæmis að yfir 16 milljón notenda af 40 milljón notendum hefðu hlustað á tónlist hennar á 30 daga tímabili. Það sama má segja um Yorke og hans hljómsveit Atoms for Peace, er að þeir tóku alla sína tónlist út af Spotify og settu af stað herferð gegn Spotify, þar sem þeir vildu hreinlega leggja tónlistarveituna niður. Þeir töluðu einnig um að nýir tónlistarmenn sem finnast á Spotify fá hreinlega engan pening frá tónlistarveitunni.

Spotify hefur gengið vel að koma sér á framfæri og farið í samstarf við allskonar fyrirtæki eins og  Facebook, Uber og Playstation. Á Facebook er hægt að deila því sem hlustað er á. Einnig eins og mörg önnur forrit er hægt að skrá sig inn á Spotify í gegnum Facebook. Umdeilda leigubílaþjónustan Uber fór í samstarf við Spotify árið 2014 og geta notendur Uber hlustað á Spotify meðan þeir bíða eða í bílnum á leiðinni á áfangastað.

Á þessu ári opnaði Spotify fyrir nýjan möguleika í forritinu sem tengir hlaup og Spotify saman. Forritið notar skynjara í snjallsímum  til að finna út á hvaða hraða er hlaupið og spilar þá Spotify ákveðna tónlist sem hentar þeim hraða. Ef hraðinn er aukinn þá spilar Spotify lög í takt við þann hraða.

Spotify hefur tekist að draga verulega úr ólöglegu niðurhali á tónlist síðastliðin ár. Áður en Spotify varð til þá var tónlist niðurhöluð u.þ.b. 1,2 milljarða sinnum, en árið 2012 hafði þessi tala minnkað verulega mikið og var tónlist niðurhöluð 210 milljón sinnum. Þegar Spotify hafði verið á markaðnum í 5 ár var talan komin í 120 milljón sinnum.

Með auknum vinsældum Spotify um heim allan hefur samkeppnin milli tónlistarveita á netinu aukist til muna. Allir vilja gera forrit sem fólk vill nota og má þar nefna nokkur eins og Apple Music, Deezer og Qobuz. Öll þessi forrit þarf að borga um það bil tíu dollara fyrir, en ekkert af þeim gerir eins vel og Spotify, og ekkert býður uppá frían aðgang. Apple Music er líklega stærst af þessum samkeppnisaðilum og hafa þeir t.d. gefið forritið út á android síma sem og fyrir Windows notendur. Öll eiga þessi forrit langt í land með að ná Spotify, þar sem það er hægt að ná frítt í það forrit. Nema þú viljir losna við allar auglýsingarnar.

Hér fyrir neðan er stutt tímalína þar sem þróun Spotify er skoðuð ár fyrir ár.

- 2005 Daniel ek og Martin Lorenzon  hittast heima hjá Martin og finna upp nafnið Spotify.
- 2006 Spotify formlega stofnað.
- 2007 Spotify gefur út sína fyrstu Beta útgáfu.
- 2008 Spotify gefið út í Evrópu
- 2009 Spotify gefið út á snjallsíma
- 2011 Bandaríkin fá aðgang að Spotify
- 2011 Spotify og Facebook fara í samstarf
- 2013 24 milljón notenda hlustuðu á 4,5 milljarða klukkutíma af tónlist
- 2014 Spotify og Uber fara í samstarf
- 2015 Spotify og Playstation fara í samstarf
- 2015 Spotify verður hlaupafélagi þinn
- 2015 Spotify fær samkeppni frá Apple music
- 2015 75 milljón notendur þar af 20 milljón notendur með borgaða áskrift

Framtíðarhorfur og lokaorð.
Það er næst víst að á þeirri öld sem við lifum nú og er nýhafin mun neysla almennings á tónlist breytast mikið. Þegar litið er til alls tónlistariðnaðarins er augljóst mál að hann mun breytast gríðarlega, og hefur reyndar nú þegar tekið miklum stakkaskiptum.

Þó svo að enn seljist eitthvað magn af geisladiskum, auk þess sem vínilplötusala hafi aukist lítillega, er ljóst að sá mikli peningamarkaður sem verið hefur í kringum tónlist er ekki til staðar lengur. Seinni part síðustu aldar voru hljómplötur og geisladiskar að seljast í mjög miklu magni, en nú hafa flestir losað sig við gömlu diskana eða plöturnar og eiga annað hvort safn af tónlist á harða disknum sínum eða nýta sér þjónustu tónlistarveita. Fólk hlýtur í framhaldinu að hugsa: og hvað með alla tónlistarmennina? Munu tónlistarmenn hætta að gera tónlist af því hún selst ekki lengur? Hvernig ætla tónlistarmenn að lifa af þessa svakalegu breytingu?

Það er nú reyndar einu sinni þannig að það eru langt í frá allir tónlistarmenn sem lifa af plötusölu, og stór hluti tónlistarmanna hefur eingöngu sitt lifibrauð af að flytja tónlist, burtséð frá allri útgáfu. Undanfarin ár hafa líka margir stigið fram og sagt að loksins verður tónlist laus við blóðsugurnar (myndlíking fyrir útgefendur sem vilja eingöngu græða á tónlist og tónlistarmönnum) sem hafa arðrænt tónlistarmenn í áratugi. Auðvitað hættir fólk ekki að búa til tónlist og því síður hættir fólk að hlusta á tónlist. Það má hins vegar gera ráð fyrir því að það verði ekki jafn mikið upp úr því að hafa að vera tónlistarmaður, og e.t.v. er hin staðlaða ímynd milljón dollara rokkstjörnunnar að líða undir lok.

Höfundar Steindór Ingi Snorrason og Heiðar Bergmann Sigurjónsson nemendur í Háskólanum í Reykjavík

Heimildaskrá
Andrew Evren. (2015). Tracing the History of Music Streaming, and Why It‘s More Important Now Than Ever. Bit of news. Sótt 31. okt. 15 af http://news.bitofnews.com/tracing-the-history-of-music-streaming-and-why-its-more-important-now-than-ever/  

Jordan Crook, Fitz Tepper. (2015, 29. júlí). Spotify. Techcrunch. Sótt 31. október af http://techcrunch.com/gallery/a-brief-history-of-spotify/slide/34/

Spotify. (e.d.). Wikipedia. Sótt 31. október af
https://en.wikipedia.org/wiki/Spotify

 
 

Lesið 2184 sinnum