Þessi síða notar kökur (e. cookies) til að auðvelda þér að vafra um vefinn.

25.10.2016

Íslenska og tækni

ra1Ég hef oft farið út í umræðu um íslenskuna og enskuslettur, en ég fæ oft verki í heilann við að hlusta á fólk tala. ,,Meikar sens”, ,,beisiklí”, ,,axjúlí” ,,frústrerandi”, og svo heyri ég fólk segja stundum heilu setningarnar á ensku. Ég þarf gjörsamlega að bíta í tunguna þegar ég heyri samræður af þessu tagi og ekki hjálpar það að þessi ósiður er farinn að smitast í ríkissjónvarpið okkar sem við öll borgum fyrir.

Hingað til hefur mér fundist gott að hafa námsefni bæði á ensku og íslensku. Mér finnst gott að lesa glærur á íslensku en svo finnst mér líka oft flóknir hlutir útskýrðir betur á ensku og því leita ég reglulega á YouTube að myndböndum um efni sem að ég er kannski ekki alveg að ná í byrjun.

Þegar ég byrjaði í tölvunarfræði þá kom ég oftar en ekki öskrandi ill heim og fór að röfla yfir því að kennarar og fræðimenn í náminu væru að skemma fallegu íslenskuna okkar með hræðilegum orðum á ensku úr tækniheiminum. Ég jafnaði mig fljótt og fór að skilja kennarana og efnið smám saman. Það er erfitt að þýða mörg hugtök úr tölvunarfræðinni yfir á íslensku og oft er útkoman bara hræðileg á íslensku og er ekkert að hjálpa manni að skilja neitt betur. Eftir þetta nám þá er ég búin að sjá það að það er jú hægt að íslenska flest allt en það er ekkert betra í öllum tilfellum.
    
Í dag vinn ég sem hugbúnaðarfræðingur og stend ég mig að því að segja vissa hluti á ensku sem pirruðu mig óstjórnlega áður þegar aðrir sögðu það sama. Ég reyndi að halda í íslenskuna eins og ég gat en það er bara oft auðveldara að tala og útskýra með nokkrum enskum orðum inn á milli. Orð eins og ,,build-a”, ,,deploy-a”, ,,submit-a”, ,,fail-a”, ,,server” og fl. eru daglega á mínum vörum og ef ég reyni að segja þetta á hreinni íslensku þá hljóma ég eins og asni og enginn í fyrirtækinu veit um hvað ég er að tala.

Ég er hrædd um framtíð íslenskunnar miðað við hvernig mín kynslóð talar í dag og hvernig líklegt er að næsta kynslóð tali. Nafn mitt gefur kannski til kynna að ég sé af erlendu bergi brotin en staðreyndin er sú að ég er uppalin í litlu sjávarþorpi hér á Íslandi þar sem mér var kennt að meta og virða móðurmál mitt og vil ég að börnin mín læri það sama. Ég leiðrétti oft 11 ára son minn og vil ég leggja mikið upp úr því að hann og litli bróðir hans haldi vel í móðurmálið og tali skýrt og fallega. Ég er stolt af íslenskunni og vona ég að stoltið berist áfram til komandi kynslóða.

Höfundur: Raquelita Rós Aguilar nemandi við Háskólann í Reykjavík

Lesið 1910 sinnum