Þessi síða notar kökur (e. cookies) til að auðvelda þér að vafra um vefinn.

03.11.2016

Tæknin og íslenskan

MagnusKristinsson myndÉg kem að þessu máli frá öfugum enda miðað við marga aðra.  Er búinn að vinna í tölvubransanum í mörg ár og ákvað á seinni árum að mennta mig. Hugbúnaðurinn sem ég vinn mikið við heitir í dag Dynamics AX, og er hann til í mörgum tungumálum.  Flestir forritarar sem vinna með mér nota bæði kerfið og þróunarumhverfið á íslensku, enda eru flestir okkar viðskiptavinir með kerfið á íslensku (sem betur fer).

Mér finnst of mikið af erlendum orðum notað í almennri umræðu á íslandi, þá er ég ekki að tala um tölvumál sérstaklega.  Bæta mætti gæði þeirrar íslensku sem við tölum almennt okkar á milli, með því að fækka slettum.

En þegar kemur að tölvumálum, þá finnst mér persónulega mjög erfitt að vinna með kerfin á íslensku.  Helstu ástæður fyrir því eru þessar:
  • Dynamics AX kennsluefni frá Microsoft er allt á ensku.
  • Dynamics AX próf eru öll á ensku.
  • Auðvelt er að stilla tungumál hvers notanda í kerfinu (ég stilli mitt alltaf á ensku)

Annað sem skiptir mig líka miklu máli er að stýrikerfin, vefþjónar, gagnagrunnar o.fl. þjónustur sem ég nýti mér líka eru allar á ensku (ekki til á íslensku).  Mitt hlutverk er að setja upp og bilanagreina Dynamics AX.  Til að geta leitað á netinu að sambærilegum vandamálum, verð ég að hafa allt á ensku – annars finn ég ekkert.  Og trúið mér það kemur upp nóg af skemmtilegum áskorunum, þó verið sé að vinna með hugbúnað frá einum aðila – Microsoft.  Einnig ef ég þarf að leita mér aðstoðar hjá Microsoft, þá verður allt að sama skapi að vera á ensku.

Ég sé vel kosti þess og nauðsyn að hafa kerfin á íslensku fyrir venjulega notendur.  Eitt sem hefur þó truflað mig með Dynamics AX er; það er eins og að kerfið sé þýtt frá grunni við hverja nýja stóra útgáfu, og þá skipta sum atriði um nafn – t.d. varð „Þjónustureikningar kerfis“ að „Kerfisþjónustulyklar“ milli útgáfa.  Svona smáatriði trufla og pirra notendur.

Niðurstaða mín er að við eigum að ýta undir notkun réttrar íslensku í almennum samskiptum, og sætta okkur við notkun ensku á þeim sviðum þar sem hún á frekar við.

Höfundur: Magnús H. Kristinsson nemandi við Háskólann í Reykjavík

Lesið 1470 sinnum