Þessi síða notar kökur (e. cookies) til að auðvelda þér að vafra um vefinn.

Íslenska

kevin og randverÁrið 1926 skrifaði Sigurður Nordal : „Tungan hefur ekki einungis verið undirstaða menningar vorrar, heldur líka sjálfstæðið út á við og inn á við.” [1]. Íslenska er eitthvað sem allir Íslendingar eru stoltir af og viljum við nota íslenskuna í allt sem hægt er og viðhalda henni eins og hægt er. Íslenska tilheyrir germönsku greinar indóevrópskra tungumála og hægt er að rekja hana til elsta stigs norðurgermanskra mála, þá frumnorrænu sem töluð var á Norðurlöndum á árunum 200 til 800 [2].

Með tímanum hafa orðið nokkrar breytingar á tungumálinu einkum á orðaforða og framburði en minna á málfræði. Breytingar má m.a. rekja til breyttra lifnaðarhátta, nýrrar tækni og þekkingu og breytinga á samfélaginu. Einnig áhrif annarra tungumála einkum ensku og dönsku [2].

indo

Mynd 1: Indóevrópska tungumála tréð

Tækni á íslensku
Frá okkar sjónarhóli er fínt að hafa háskólanám bæði á íslensku og ensku. Það hefur ekki mikil áhrif á okkur sem námsmenn að hafa einhver fög á íslensku og önnur á ensku og sum á báðum málum. Það er einstaklingabundið hvernig við erum í tungumálum s.s. í lesskilningi og orðaforða. Skiptinemar um allan heim vilja koma í skólann okkar og er að sjálfsögðu hentugt fyrir þá að hafa námið á ensku til að skilja betur kennara, aðra nemendur og efnið. Skólinn ætti því  frekar að hallast að því að hafa meira af náminu á ensku.

Það sem getur verið óhentugt fyrir okkur tölvunarfræðinga/forritara að leita eftir aðstoð á netinu ef allt er á íslensku. Þegar leitað er eftir hjálp, eða dæmi um lausn á vandamáli í kóða eða sauðakóða, þá eru flestir forritarar að deila sínu efni með öðrum á ensku. Ef allt væri á íslensku þá væru það bara íslenskir tölvunarfræðingar/forritarar sem gætu lesið þann kóða. Það er auðvitað hægt að umbreyta því yfir á ensku en tæki langan tíma.

Það getur oft verið mjög erfitt að vinna verkefni og skrifa skýrslur sem notast eingöngu við íslenska tungu og rákum við okkur báðir á þetta þegar við unnum lokaverkefnin okkar við skólann. Mörg tækniorð eru illmeðfærileg og hljóma í okkar eyrum hálf kjánalega á íslensku, enda vanir að nota bara ensku þegar mörg þessara tækniorða koma upp í daglegu tali. Þó erum við sammála um að við getum ekki farið dönsku leiðina og innleitt bara öll tækniorð beint úr ensku, enda er fáránlegt að tala ekki stakt orð í dönsku en skilja samt heilu setningarnar bara því að þetta er orðið nánast eins og enska í dag.

Framtíð íslenskunnar
Það sem er áhugavert er að yngri kynslóðin er að nota enskuna mikið. Notar ákveðnar setningar og setningahluta eða segja einhver slangur á ensku sem er vinsælt hverju sinni. Talið er að tæknin og internetið sé að valda þessu, þar sem mest megins af efninu er á ensku. Við höfum báðir gert þetta tvennt, að vitna í ákveðnar setningar og nota slangur á ensku síðan við vorum yngri. Sjónvarpsáhorf hefur einnig þessi áhrif. Íslendingar eru dugleg að búa til nýtt efni, mikið af íslenskum sjónvarpsþáttum og bíómyndum hafa verið gerð undanfarin ár og góð umfjöllun er um tækni á íslenskum síðum t.d. sky.is og lappari.com.

Höfundar þessarar greinar hafa engar áhyggjur af framtíð íslenskunnar. Við Íslendingar erum stoltir af tungumálinu okkar og ætlum að viðhalda því um komandi ár þrátt fyrir sífelldar breytingar. Það er alltaf hægt að vinna úr þessum breytingum eins og við höfum gert síðustu ár.

Höfundar: Kevin Freyr Leósson og Randver Pálmi Gyðuson nemendur við Háskólann í Reykjavík

[1] https://is.wikipedia.org/wiki/%C3%8Dslensk_m%C3%A1lstefna

[2] https://is.wikipedia.org/wiki/%C3%8Dslenska

 

Lesið 1699 sinnum Síðast breytt miðvikudagur, 30 November 2016 22:09