Þessi síða notar kökur (e. cookies) til að auðvelda þér að vafra um vefinn.

19.01.2017

UTmessan - þar sem allt tengist

UTmessanFBprofile03

UTmessan fer fram í Hörpu 3. og 4. febrúar 
UTmessan: Þar sem allt tengist 

Hin árlega UTmessa nálgast óðfluga og verður að segjast að áhugi fyrir viðburðinum hefur sjaldan verið meiri. Öll helstu tæknifyrirtæki landsins taka nú virkan þátt í UTmessunni og sjá til þess að gestir fái að sjá og upplifa það sem hæst ber í tæknigeiranum hverju sinni. Fjölgun á erlendum sýningaraðilum er ár frá ári og sama má segja um komu erlendra ráðstefnugesta á ráðstefnuhluta UTmessunnar en það er skemmtileg viðbót við þá 1.000 innlendu ráðstefnugesti sem mæta á UTmessuna.

UTmessan er tvískipt að venju. Föstudaginn 3. febrúar er ein stærsta tölvuráðstefna sem haldin er á Íslandi.  Alls eru 10 línur í gangi yfir daginn í öllum stóru sölum Hörpu.  Auk þess er sýning um 100 fyrirtækja á sýningarsvæðinu og er hún einungis opin ráðstefnugestum á föstudeginum.

Fjöldi innlendra sem og erlendra fyrirlesara stíga á svið og segja frá áhugaverðum viðfangsefnum og kíkt verður til framtíðar. Í ár verða 4 aðalræðumenn (e. Keynote speakers) og koma þeir inná sitthvort svið tækninnar; einn segir frá hvernig hann hefur tengt nema við líkama sinn til að nema liti en hann er sér einungis í svart-hvítu. Annar kemur inná hvernig „IoT“ tæknin (e. Internet of Things) er að koma meira og meira inní daglegt líf okkar og segir frá þróun næstu ára ásamt því hverju þarf að huga að í öryggismálum tengdum samtengingu allra hluta. Einnig verður sérstakur fyrirlestur um tæknihluta IoT og hvernig hægt er að nýta upplýsingar samtengdra tækja til að bæta rekstur fyrirtækja. Að lokum mun síðasti aðalfyrirlesarinn fara yfir hvernig háhraðatenging með ljósleiðara bætir gagnaflutning og gagnast framtíðarþróun „Smart City“ hugmyndafræðinnar. Á ráðstefnunni í heild eru 45 fyrirlesarar og því mikil breidd í fyrirlestrum.  Hefð er fyrir því að hæstráðendur stóru samstarfsaðila UTmessunnar séu fundarstjórar á ráðstefnulínunum og gaman að segja frá því að þeir taka alltaf jafn vel í að vera með. Það skekkir þó vissulega kynjahlutföllin því fáar konur teljast til hæstráðanda tæknifyrirtækja landsins – allavega þeirra fyrirtækja sem taka þátt af fullri alvöru í UTmessunni.  Það er einmitt hluti af tilgangi UTmessunnar að benda á að tölvugeirinn er fyrir alla, og þá auðvitað bæði kynin og vonandi verður jafnari kynjaskipting í framtíðinni hjá hæstráðendum tæknifyrirtækja sem og fyrirlesara. Heildardagskrá ráðstefnunnar er að finna á www.utmessan.is.

Laugardaginn 4. febrúar opnum við svo uppá gátt fyrir almenning og er þá dagskrá í gangi í stóru sölum Hörpu sem miðar að því að leyfa fólki að sjá og upplifa nýjustu tækni. Hönnunarkeppni véla- og iðnverkfræðinema HÍ fer fram í Silfurbergi, úrslitaleikur fyrsta Íslandsmóts í tölvuleiknum Overwach verður í Kaldalóni og honum einnig lýst beint á netinu, Tölvunördasafnið leyfir gestum og gangandi að prófa og sjá gamla tölvuleiki. Auk þess munu háskólarnir HÍ og HR ásamt Tækniskólanum mæta á staðinn með skemmtileg verkefni og leyfa fólki að sjá tækninýjungar og lausnir sem nemendur hafa unnið. Safnað verður saman á sérstakri síðu UTmessunnar hvað er í boði þennan dag.

Uppselt hefur verið á ráðstefnu UTmessunnar síðustu árin og komast færri að en vilja. Skráningar hafa farið hratt af stað og er ljóst að enn eitt árið stefnir í að það verði fullbókað á ráðstefnuna.

Gífurlegur fjöldi hefur lagt leið sína á opna dag UTmessunnar og hvetjum við alla til að mæta með fjölskylduna og eiga skemmtilegan tæknidag laugardaginn 4. febrúar í Hörpu.

Að UTmessunni 2017 standa auk Ský; Háskólinn í Reykjavík, Háskóli Íslands, Samtök iðnaðarins ásamt Nýherja, Opnum kerfum, Sensa og Ljósleiðaranum. Allt um UTmessuna er að finna á www.utmessan.is

Lesið 1638 sinnum