Þessi síða notar kökur (e. cookies) til að auðvelda þér að vafra um vefinn.

Netlenska er okkar mál

atliSamfélagsmiðilinn Facebook, eða Fésbók hefur verið vinsæll meðal Íslendinga. Á Íslandi er varla til sá maður sem ekki hefur notað þessa leið við að segja frá lífi sínu, eiga samskipti við aðra eða fylgjast með því sem þeir fást við í daglegu lífi. En hvað segja menn á Fésbókinni? Er íslenskan þar eins og venjulegt ritmál? Eða er einhver munur á því? Atli Týr Ægisson kannaði málfar Fésbókarnotenda árið 2012.

Tungutak og orðafar netnotenda hefur verið kallað netlenska (netspeak). Netlenskan byrjaði að þróast á tíunda áratug tuttugustu aldar, um það leyti sem almenningur fékk aðgang að netinu. Sum einkenni hennar hafa þó verið til lengur á öðrum vettvangi. Netlenskan er tungumál án landamæra. Hægt er að tileinka sér hana á hvaða móðurmáli sem er því hún lagar sig að tungumáli notandans.

Segja má að netlenska sé sambland ritmáls og talmáls. Hún er ekki jafn formleg og ritmál og er því að mörgu leyti ritmál með talmálseinkennum. Hún býður upp á margt sem hvorki er „leyfilegt“ í venjulegu ritmáli eða talmáli og því er stundum rætt um hana sem þriðju tegund samskipta.
Samskipti á Fésbókinni fara vissulega að mestu leyti fram með ritmáli en á því eru ýmis einkenni talmáls sem hér verða skoðuð.

mynd1

SAMSETT MYND: ATÆ/FACEBOOKBRAND.COM

Með jákvæðni að leiðarljósi
Skoðaðar voru 1000 stöðuuppfærslur á Fésbókinni til að komast að því hvernig hin dæmigerða stöðuuppfærsla lítur út. Hún inniheldur 5-49 slög, 1-10 orð og er ekki lengri en ein til tvær setningar. Hún fjallar um það sem notandinn er að gera, hugsa eða hefur nýlokið við að gera á ritunartímanum. Hún kemur yfirleitt jákvæðum skilaboðum á framfæri. Í það minnsta láta Fésbókarnotendur ekki bera mikið á neikvæðum tilfinningum sínum og hugsunum.

SVVVOOOOOO margar áherslur!!!!
Í venjulegu ritmáli er alltaf ákveðin fjarlægð milli höfundar og lesanda, bæði í tíma og rúmi. Því er ekki víst að lesandi skilji textann á nákvæmlega sama hátt og höfundurinn. Höfundurinn hefur takmarkaða möguleika til að leggja áherslu á einstök orð í textanum og því verður lesandinn yfirleitt að ákveða hvar áhersluþunginn skuli vera. Netlenskan hefur þróað fjölbreyttari aðferðir við að leggja áherslu á málið, því hægt er að breyta útliti textans eða nota afbrigðilega stafsetningu til að gefa áherslu til kynna.

Afbrigðileg stafsetning getur verið með ýmsum hætti. Til dæmis má endurtaka ákveðna bókstafi í orðinu sem leggja skal áherslu á við lesturinn. Fjöldi sömu tákna í röð er tilviljanakenndur og virðist oft fara eftir því hversu lengi hnappinum á lyklaborðinu er haldið niðri.
●    Þetta er svooo málið fyrir útilegurnar í sumar :)
●    væri samt nææææstum því til í að skipta á því og nóa páskaeggi!
Síðan þetta var rannsakað hefur tæknin breyst. Í nýrri stýrikerfum eru bókstafir og tölustafir ekki endurteknir þegar viðkomandi hnappi er haldið niðri, heldur verður að ýta á hann jafn oft og viðkomandi stafur á að birtast.

Óhófleg notkun greinarmerkja gefur til kynna að auka skuli tilþrifin við lestur textans. Því fleiri sem upphrópunarmerki eru, því meiri innlifun skal lögð í upphrópunina. Því fleiri spurningarmerki sem notuð eru, því stærri verður spurningin:
●    dreymdi risaeðlur, dreka, tröll og dverga í nótt… Hvað er það???
●    Mér er svo illt í puttunum!!!!

Önnur aðferð við að leggja áherslu á einstök orð er sú að skrifa þau með stórum stöfum:
●    Næst þegar fokking þvottavélin fer að vera með læti, þá fer ég og EYÐILEGG hana.
●    Við erum svo klárlega LANGFLOTTUST

mynd2

ASK? (Þýðing: Aldur? staður? kyn?) Netlenskan teygir sig út fyrir tölvuheiminn sé miðað við þetta veggjakrot í einni bygginga Háskóla Íslands. (MYND: ATÆ)

Tilfinningaþrungi :-)
Ritmálið býður upp á takmarkaða möguleika til að tjá tilfinningar með öðru en orðum. Svipbrigði og líkamstjáning komast ekki til skila í ritmáli. Netlenskan býður notendum upp á að gera ritmálið líkara talmáli með alls kyns táknum. Þekktasta aðferðin er eflaust sviptákn eins og broskallar, þ.e. myndræn tákn sem eru sett saman úr greinarmerkjum. Til að fá rétta mynd út úr þeim þarf að halla höfðinu, yfirleitt til vinstri:
●    góður dagur :) beituhlaup og 7ára ammli :D
●    það á enginn að vera í svona stöðu :-(
Frá því þetta var rannsakað er orðið sífellt algengara er að sviptáknin séu í formi grafískra tákna. Þess vegna er ekki lengur nauðsynlegt að skrifa táknin með lyklaborðinu. Nú geta Fésbókarnotendur líka látið fylgja sérstaklega með hvernig þeim líður þegar þeir skrifa stöðuuppfærslur.

*GEISP* nennessekki!
Önnur aðferð við að tjá tilfinningar með netlensku er sú að skrifa leikhljóð með stöðuuppfærslunni. Þá er líklega ætlast til þess að textinn sé lesinn upphátt með leikrænum tilþrifum. Því mætti líkja við lýsingar í handriti, sem gefa leikurum til kynna hvernig þeir eiga að bera sig að á leiksviðinu. Orðin sem lýsa hljóðinu eru þá „römmuð inn“ með stjörnu eða öðru tákni:
●    ég er búin að vera með hiksta í allan dag! *hiksthiksthikst*
●    *geisp* held það sé bara leggja með litlunni minni :)

mynd3

Nokkur algeng sviptákn (MYND: ATÆ/all-free-download.com)

Hljóðlíkingar! HAHAHAHA!
Þriðja aðferðin við tjáningu tilfinninga er sú að skrifa ýmiss konar hljóð með orðum. Þannig er reynt að líkja eftir hljóðum sem menn gefa frá sér þegar ákveðnar tilfinningar brjótast fram. Í hverri hljóðlíkingu er aðeins notaður einn sérhljóði sem endurtekinn er eftir þörfum. Líklega fer fjöldi endurtekninga eftir því hversu mikla ánægju (eða vanlíðan) menn vilja láta í ljós. Þekktastar eru ýmiss konar hláturrokur, en einnig má gefa frá sér væluhljóð með þessum hætti:
●    Ég er að fíla myndina með þessari frétt hahaha
●    Vill enginn fá sófann minn - í alvöru … búhú!

Við höfum ekki allan tíma í heiminum
Í samtölum sem fara fram í rauntíma á netinu þurfa þátttakendur að vera sem fljótastir að tjá sig. Annars er hætt við því að viðmælendur þeirra verði óþolinmóðir. Ef fleiri en tveir ræðast við gæti einhver annar orðið á undan að svara. Þá gefst lítill tími til að skrifa fullmótaðar setningar og því hafa notendur netlenskunnar þróað með sér ýmsar skammstafanir. Flestar skammstafanir sem netlenskan notar eru styttingar á enskum orðasamböndum og eru yfirleitt myndaðar með því að taka fyrsta staf úr hverju orði:
●    OMG!!! Nú verð ég að fara til Japan!!
●    Lái samt engum að taka tl;dr á þetta!

Skammstöfunin OMG stendur hér fyrir upphrópunina Oh, my god. (Guð minn góður). Skammstöfunin tl;dr er stytting á too long; didn’t read, og merkir að texti hafi verið of langur til að notandi hafi nennt að lesa hann.

Framtíðin
Hér hefur verið farið yfir helstu einkenni netlenskunnar, samskiptamáta sem netnotendur hafa tileinkað sér. Mörg einkenni hennar hafa verið til frá því hún byrjaði að þróast, sum einkenni hafa horfið og önnur komið í staðinn eftir því sem tæknin hefur breyst. Þetta sýnir hvað netlenskan er lifandi samskiptamáti sem lagar sig að breyttum aðstæðum. Hvernig hún heldur áfram að þróast í framtíðinni veit enginn – tæknin og kynslóðir framtíðarinnar leiða það í ljós.

Höfundur: Atli Týr Ægisson, nemandi í vefmiðlun og hagnýtri menningarmiðlun við  Háskóla Íslands

Lesið 1758 sinnum Last modified on miðvikudagur, 10 Maí 2017 11:07