Þessi síða notar kökur (e. cookies) til að auðvelda þér að vafra um vefinn.

Vefgáttin Málið.is

arnastLöngum hefur því verið haldið fram að íslenskan sé í útrýmingarhættu. Sennilega er rétt að haga seglum eftir þeirri svartsýnu spá. Þegar íslensk tunga á í varnarbaráttu í síbreytilegum heimi tækninýjunga er eðlilegt að huga að því hvernig styrkja megi stöðu þessa forna tungumáls sem fæstir vildu sjá á bak. Um þessar mundir vinnur Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum að því að opna vefgáttina málið.is en undir þeim hatti verður fjölmörgum gagnasöfnum stofnunarinnar safnað saman. Er það fyrst og fremst gert til þess að bæta aðgengi að þessum viðamiklu söfnum.

Gagnasöfnin eiga það sameiginlegt að vera unnin á löngum tíma af fjölmörgum stofnunum, starfsmönnum, íslenskufræðingum, orðabókarhöfundum og þeim sem hafa viðað að sér upplýsingum um íslenskt mál úr gömlum og nýjum ritum og talmáli nútímans.

Gagnasöfnin eru eðli málsins samkvæmt misaðgengileg og þurfa mörg hver nokkra aðhlynningu til að standa undir nafni og verða að gagni. Sú viðhaldsvinna hefur komist á fullan snúning eftir að ljóst varð að málið.is yrði í náinni framtíð áningarstaður þeirra sem vilja bæta málnotkun sína, skrifa rétt og auðga tungutakið.  

Því hefur verið haldið fram að tími prentaðra orðabóka sé liðinn og heimkynni slíkra orðasafna verði á netinu. Þar eru upplýsingarnar öllum aðgengilegar hvar sem menn eru staddir í heiminum. Fjölmargir ólíkir hópar þurfa á orðabókum að halda, þýðendur, blaðamenn, rithöfundar, nemendur á öllum skólastigum og raunar allir þeir sem fást við texta og tungumálið. Þessir hópar þurfa að hafa aðgang að réttri íslensku hvort sem um ræðir stafsetningu, merkingu orða eða fróðleik um aldur orðfæris. Því er eðlilegt og sjálfsagt að þeim verði opnaður heimur íslenskunnar, án endurgjalds, með skilmerkilegum og eftirtektarverðum hætti.

Með þessa framtíðarsýn er lagt upp í leiðangur sem hefur það markmið að gera vefgáttina málið.is að valkosti fyrir alla, lærða og leika.

Sjö gagnasöfn á einum vef
Þegar málið.is verður orðið að veruleika verður til einn staður á netinu þar sem hægt verður að finna það sem leitað er að í einni sjónhendingu. Málið.is verður opnað í nokkrum áföngum og þeim fyrsta verður náð á degi íslenskrar tungu 16. nóvember 2016.

Við opnun vefgáttarinnar verða opnuð sjö gagnasöfn. Þetta eru þau gagnasöfn sem við teljum mikilvægast að auðvelda aðgengi að í fyrsta kasti og ættu saman að veita nokkuð ítarlegar upplýsingar um íslenskt nútímamál. Eftir að vefurinn fer í loftið verður haldið áfram að tengja fleiri gagnasöfn við vefgáttina og má búast við að ný gagnasöfn bætist við á nokkurra mánaða fresti fyrst um sinn. Þá er ætlunin að bæta við gagnasöfnum sem veita sögulegar upplýsingar um málið og málnotkun á fyrri öldum, örnefni og gagnasöfn sem sýna raunveruleg notkunardæmi í orðstöðulyklum.

Gagnasöfnin sjö sem birt verða í upphafi eru:

Stafsetningarorðabókin: Ný útgáfa Stafsetningarorðabókarinnar birtist í fyrsta skipti á vefgáttinni málið.is. Nýjar ritreglur verða tengdar flettum orðabókarinnar og sýndar með leitarniðurstöðum.

Orðabók um íslenskt nútímamál: Ný orðabók með tæplega 50 þúsund flettum, allt orð sem notuð eru í íslensku nútímamáli. Orðabókin byggist á sama grunni og Íslex, tvímálaorðabók fyrir íslensku annars vegar og norrænu málin hins vegar. Nýja orðabókin um íslenskt nútímamál er í vinnslu og fullfrágengnar flettur birtast á Málið.is. Við opnun vefgáttarinnar verða um 75% orðabókarinnar tilbúin.

Málfarsbankinn: Safn stuttra greina um málfarsleg atriði, meðal annars algengar málfarsfyrirspurnir sem berast Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

Íðorðabankinn: Orðabanki með þýðingum og skýringum á hugtökum á meira en 60 sérsviðum. Um 140 þúsund hugtök eru í orðabankanum. Skýringar og þýðingar koma frá sérfræðingum á viðkomandi sviðum.

Íslensk orðsifjabók: Orðsifjabók Ásgeirs Blöndals Magnússonar er eina orðabók sinnar tegundar um íslenskt mál. Í henni má finna skýringar um myndun og uppruna orða. Orðsifjabókin er birt samkvæmt samkomulagi við erfingja Ásgeirs Blöndals Magnússonar, en hingað til hefur hún eingöngu verið aðgengileg á bók.

Íslenskt orðanet: Íslenskt orðanet sýnir merkingartengsl íslenskra orða og orðasambanda. Það sameinar hlutverk samheita- og hugtakaorðabókar og kemur að hagnýtum notum við ritun og textagerð. Til grundvallar liggur safn orða, orðasambanda og samsetninga sem hefur að geyma rösklega 200 þúsund ólík orðasambönd og um 100 þúsund samsetningar.

Beygingarlýsing íslensks nútímamáls: Beygingarlýsingin er safn beygingardæma sem sýnir einstakar beygingarmyndir íslenskra orða. Í safninu eru um 280 þúsund beygingardæmi.

Í náinni framtíð liggur fyrir að tengja fleiri gagnasöfn við Málið.is.

Ritmálssafnið: Ritmálssafn Orðabókar háskólans hefur lengi verið aðgengilegt á netinu þó í nokkurn veginn úreltu formi. Unnið er að því að færa vef Ritmálssafnsins í nútímabúning og um leið verður safnið gert leitarbært á Málið.is

Málheildir: Málheildir eru söfn ýmissa texta á stöðluðu sniði. Árnastofnun býr yfir nokkrum málheildum. Sú helsta er Mörkuð íslensk málheild (MÍM), sem er 25 milljón orða textasafn með textum alls staðar að úr þjóðlífinu, skrifuðum á fyrsta áratug 21. aldar. Leit í þessum textum gefur mikilvæga innsýn í það hvernig tiltekin orð eru notuð og í hvaða samhengi. Ætlunin er að birta helstu leitarniðurstöður úr málheildunum á Málið.is, en þar sem gögnin eru viðamikil verður notendum vísað á vefi viðkomandi málheilda vilji þeir rannsaka málið betur. Auk MÍM hefur Árnastofnun meðal annars á sínum snærum málheild með safni fornritatexta sem inniheldur Sturlungu og allar Íslendingasögurnar.

Orðfræði fyrri alda: Fjórar orðabækur sem Orðabók háskólans gaf út á árunum 1991–1999, en voru settar saman frá sautjándu öld og fram á þá nítjándu.

Orðabók Sigfúsar Blöndals: Íslensk-dönsk orðabók Sigfúsar Blöndals var og er enn stærsta orðabók um íslenskt mál sem komið hefur út. Hún var gefin út á árunum 1920–1924 og fletturnar í henni eru vel á annað hundrað þúsund.

Auk alls þessa hefur verið í skoðun að setja inn á málið.is bæjatal og örnefnaskrár, tengja við það greinar um íslenskt mál sem birst hafa í ýmsum miðlum og að birta orðstöðulykla úr textum frá öllum tímum, allt frá elstu handritum til samtímatexta.

Það er von okkar að bætt aðgengi að öllu því mikla efni sem Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum býr yfir muni nýtast öllum sem vilja fræðast um íslenska tungu, læra málið eða leggja rækt við það. Trú okkar er jafnframt sú að vefgáttin málið.is muni styrkja stöðu íslenskunnar.

Höfundar: Eva María Jónsdóttir, vef- og kynningarstjóri og Steinþór Steingrímsson, verkefnisstjóri, Árnastofnun

Lesið 1944 sinnum Síðast breytt fimmudagur, 01 June 2017 12:49