Þessi síða notar kökur (e. cookies) til að auðvelda þér að vafra um vefinn.

„Ég þarf bara að safna hundrað vinum til þess að verða frægur“

björn profileÁ síðastliðnu skólaári heimsóttu verkefnastjórar Heimilis og skóla og SAFT (Samfélag, fjölskylda og tækni) hvern og einn 6. bekk í Reykjavík, Árborg, á Akureyri og Austfjörðum (frá Neskaupsstað suður til Djúpavogs) til þess að fræða börn um jákvæða og örugga netnotkun. Lagt var upp með að hafa fræðsluna lifandi og hvatt til þátttöku nemenda sem voru áhugasamir og höfðu frá ýmsu að segja þrátt fyrir ungan aldur.

Félagslífið á netinu
Rannsóknir sýna að á þessum aldri er netnotkun orðin hluti af daglegu lífi barna. Mörg börn eiga snjallsíma sem býður þeim upp á að vera nettengd allan sólarhringinn, alla daga vikunnar auk þess sem félagslíf barna fer að stórum hluta fram á netinu. Hins vegar fá þau mismikla leiðsögn heima fyrir um hvernig umgangast beri netið á jákvæðan og uppbyggilegan hátt. Þótt netið bjóði upp á óþrjótandi möguleika til samskipta, náms og skemmtunar eru mörg börn eru ekki nógu vel upplýst um ýmsar hættur sem að þeim steðja og má þar helst nefna tælingu, óskynsamlegar myndbirtingar, rafrænt einelti og ofnotkun. Aðspurð viðurkenndu mörg þeirra að þau hefðu samþykkt vinabeiðnir frá fólki sem þau kunnu lítil eða engin deili á, en algengt er að líta á vinafjölda á samfélagsmiðlum og viðurkenningu þeirra sem skýrasta merkið um félagslegan auð. Einn drengur sagði okkur að markmið sitt væri að safna hundrað fylgjendum á Instagram – þá væri hann orðinn frægur.

Misjafn sauður í mörgu fé
Því miður er raunin sú að á netinu finnst fólk sem villir á sér heimildir í þeim tilgangi að komast í tæri við börn og var því farið yfir hvað beri að varast í samskiptum við ókunnuga og hvernig sé best að bregðast við. Flest barnanna könnuðust við að ókunnugir hefðu reynt að nálgast þau með einhverjum hætti á samfélagsmiðlum eða í gegnum vinsæla leiki og þó nokkur höfðu fengið símtöl frá svindlurum sem voru á höttunum eftir persónuupplýsingum. Eins fengu börnin fræðslu um rafræn spor og ánægjulegt var að sjá að mörg þeirra (þó alls ekki öll) voru meðvituð um að það sem fer inn á netið verður þar um ókomna tíð og getur reynst ómögulegt að ná því þaðan aftur. Því er mikilvægt að birta hvorki myndefni né ummæli sem geta valdið þeim sjálfum og öðrum skaða.

Rafrænt einelti og ofnotkun
Vandræðalegar myndbirtingar og ruddaskapur í ummælum tengjast umræðunni um alvarleika rafræns eineltis en þetta vill gjarnan haldast í hendur. Gerendur í rafrænum eineltismálum afsaka gjörðir sínar gjarnan með því að segja að þær hafi bara verið grín en hins vegar upplifa þeir sem verða fyrir barðinu á því raunverulega þjáningu og niðurlægingu. Þá var einnig fjallað um ofnotkun netsins, en sumum (bæði börnum og fullorðnum) hættir til að verja svo miklum tíma á netinu að daglegt líf geldur fyrir. Þótt það sé gaman að spila leiki, spjalla við vini sína og njóta afþreyingar er netið ekki mikilvægara en að verja tíma með fjölskyldu og vinum, standa sig vel í skólanum, stunda íþróttir og taka þátt í tómstundastarfi.

Verum til staðar!
Af samtölum okkar við 6. bekkinga að dæma er full ástæða fyrir foreldra að láta sig varða netnotkun barnanna, vera til staðar og leiðbeina þeim eins og kostur er. Þótt börnin kunni að standa foreldrum sínum framar í tækni þýðir það ekki að þau búi einnig yfir nægilegu hyggjuviti eða þroska til að nota netið á ábyrgan og jákvæðan hátt. Full þörf er á áframhaldandi fræðslu til barna og ungmenna um netið, bæði tækifæri og hættur.

Höfundur: Björn Rúnar Egilsson, verkefnastjóri Heimilis og skóla– landssamtaka foreldra

Lesið 1288 sinnum Last modified on fimmudagur, 14 September 2017 22:47