Þessi síða notar kökur (e. cookies) til að auðvelda þér að vafra um vefinn.

Ísland og rafmyntir

Hjálmar Diego ArnórssonRafmyntir hafa á undanförnum árum verði að ryðja sér til rúms sem ný leið til greiðslu og hafa vinsældir þeirra aukist jafnt og þétt og eru nú í dag til um 900 mismunandi rafmyntir. Hér á eftir verður farið stuttlega yfir rafmyntir og hvernig þær virka. Þá verður einnig litið yfir hvernig Ísland er að verða miðpunktur heimsins í vinnslu á rafmyntum.

Almennt er rafmynt, öðru nafni dulmálsgjaldmiðill (e. „cryptocurrency), stafrænn gjaldmiðill sem hannaður var til þess að skiptast á stafrænum upplýsingum í gegnum ferli sem mögulegt er með ákveðnum reglum um dulritun. Dulritunin er notuð til að tryggja viðskipti og til að stjórna stofnun nýrra eininga innan myntarinnar. Rafmyntir eru unnar og búnar til í ferli sem kallast á ensku „mining “. Í því ferli eru tölvur látnar leysa flókin stærðfræðileg vandamál og fá þá til baka ákveðið magn af rafmynt fyrir að leysa þau. Þessar myntir er síðan hægt að nota til að greiða fyrir vörur og þjónustu til þeirra sem við henni taka.

En af hverju að nota rafmyntir sem gjaldmiðil frekar en að nota venjulegan gjaldmiðil? Ólíkt venjulegum gjaldmiðlum þá notast rafmyntir ekki við neinn miðlægan aðila, eins og til dæmis seðlabanka til að stjórna flæði og útgáfu gjaldmiðilsins heldur notast þær við jafningjanet þar sem hver og einn notandi heldur utan um og sér allar færslur sem eiga sér stað. Þessar færslur er þó ekki hægt að rekja til ein stakra aðila þar sem nafnleynd er yfir öllum færslum. Einnig er sá kostur við rafmyntir að ekki getur skapast verðbólga þar sem oftar en ekki er þak á hversu miklar einingar af rafmyntinni mega vera í umferð og þá minnkar einnig með tímanum fjöldi eininga sem hægt er að vinna á hverjum degi.

Bitcoin Bitcoin er fyrsta ómiðlaða rafmyntin og leit hún dagsins ljós árið 2009 . Hugmyndin og útfærslan var sett fram af Satoshi Nakamoto, en talið er að nafnið sé dulnefni og að minnsta kosti fjórir aðilar standi að baki dulnefninu. Í dag er Bitcoin stærsta og þekktasta rafmynt í heiminum. Í dag er virði Bitcoin um $ 3.600, en mest hefur virði þess farið upp $5.000, en það gerðist þann 1. september 2017.

Rafmyntir á Íslandi
Nú í dag er ekki mikil umfjöllun um rafmyntir hér á landi og hefur meirihluti íslendinga litla sem enga þekkingu eða vitund á rafmyntum. Það gæti þó farið að breytast þar sem Ísland fer að verða miðpunktur vinsælustu rafmyntanna eins og Bitcoin og Ethereum.

Færst hefur í aukana að stór vinnslufyrirtæki fyrir rafmyntar hafa sett upp starfstöðvar hér á landi til að vinna rafmyntir. Genesis Mining er eitt þeirra fyrirtækja sem sett hafa upp starfstöðvar sínar hér á landi. Fyrirtækið var stofnað í lok árs 2013 og eru í dag orðið eitt stærsta rafmyntarvinnslufyrirtæki í heiminum. Stofnandi Genesis Mining, Marko Streng, byrjaði að vinna Bitcoin í kringum 2011 - 2012 þegar hann var við nám í heimalandinu, Þýskalandi. Hann sá fljótt möguleikann á því hversu stórt Bitcoin gæti orðið og bætti því við búnaðinn sem hann hafði sett saman til að vinna Bitcoin. Það kom þó að því að hann hafði ekki tíma fyrir bæði skólann og Bitcoin og hætti í skólanum þar sem hann hafði verið að læra stærðfræði. Hann stofnaði síðan Genesis Mining árið 2013 ásamt fleiri aðilum og hefur gengt stöðu framkvæmdarstjóra síðan þá. Á þessum fjórum árum hefur Genesis Mining stækkað gífurlega og er eins og áður sagði og er eitt stærsta rafmyntarvinnslufyrirtæki í heiminum. Þeir eru með nokkrar starfstöðvar í hverri heimsálfu og þar með talið þrjár starfstöðvar hér á landi.

Í þessum starfstöðvum er verið að vinna rafmyntir eins og Bitcoin, Ethereum og Dash. Ein þessara starfstöðva er kölluð „Enigma farm“ og er stærsta rafmyntarvinnslustöð í heimi. Hún samanstendur af mörg þúsund tölvum og yfir 25 . 000 skjákortum og ef tekið er saman vinnslugeta allra þessara tölva er hún meiri en vinnslugeta öflugustu ofurtölvu heims. Eins og gefur að skilja krefjast svo margar og öflugar tölvur mikils rafmagns en rafmangsreikningur Genesis Mining fyrir starfstöðvar sínar hér á landi eru rúmlega eitt hundrað milljónir íslenskra króna á mánuði.

Annað stórt fyrirtæki, Bitclub Network , hefur verið starfrækt frá 2014 og hefur það á þessum þremur árum unnið yfir 50.000 Bitcoin og 250.000 Ethereum. Þeir eru með tvær starfstöðvar hér á landi og hafa í hyggju á að bæta við annarri í náinni framtíð. Það er alveg ljóst að jafnvel þó að rafmyntir séu ekki mjög þekktar hér á landi er Ísland tilvalinn staður til að vinna rafmyntir þar sem hér er fremur ódýrt rafmagn til að knýja tölvurnar og loftslagið er fremur kalt allt árið um kring sem hjálpar mikið til við að kæla allan þann búnað sem þarf til í vinnslu á rafmyntum.

Tíminn verður að leiða í ljós hvort rafmyntir eins og Bitcoin eigi eftir að ná fótfestu hér á landi sem greiðslumiðill eða hvort þær muni hægt og rólega tapa sínum vinsældum og að lokum hverfa í gleymskunnar dá.

Höfundur: Hjálmar Diego Arnósson, nemi við Háskólann í Reykjavík

Heimildir
Myntfrelsi: https://myntfrelsi.is/
Bitclub Network: https://bitclubnetwork.com/default/home.html
Cryptocoin news: http://www.cryptocoinsnews.com/
How I built a bitcoin empire | Marco Streng: https://www.youtube.com/watch?v=cVxi2CQcXZo
My visit Inside Genesis Mining: https://www.youtube.com/watch?v=2Jqf_wZKFCc
Mining Bitcoins in Iceland | Focus on Europe: https://www.youtube.com/watch?v=SJgWqbZBn6I

Lesið 1615 sinnum Last modified on fimmudagur, 26 October 2017 12:18