Þessi síða notar kökur (e. cookies) til að auðvelda þér að vafra um vefinn.

Ástfangin, tæknilega séð

HrafnhildurÞað fer ekki á milli mála  að stefnumótamenning vesturlanda og víðar hefur breyst svo um munar með tilkomu tækninnar. Fyrst var það síminn sem gerði okkur kleift að hringja í þann sem við vildum ganga í augun á í stað þess að semja ástarbréf. Löngu seinna kom farsíminn og smáskilaboð þutu á milli fólks eins og lítil bréf á ljóshraða. Áfram hélt þróunin og tók stórt stökk þegar almenningur öðlaðist aðgang að internetinu sem gerði okkur kleift að senda gögn með hraði á milli hvors annars. Skilaboð sem örvuðu bæði sjón og heyrn. 

Á Íslandi er stefnumótasíðan Einkamál.is vel þekkt en hún telur 20.851 virka notendur (Einkamál, 2017) og margir hafa fundið þar maka eða leikfélaga. Eins hefur fólk kynnst í gegnum Tinder, Facebook og ýmis smáforrit tengd því síðarnefnda. Meiri hraði og meiri örvun er það sem okkur hefur hlotnast með þessari þróun ásamt auknu framboði misálitlegra maka og vina. Kröfurnar um hinn fullkomna maka verða sífellt yfirborðskenndari með notkun smáforrita sem snúast um að velja og hafna fólki byggða á myndunum sem þeir leggja til leiksins. En getur verið að allt framboðið og hraðinn séu að hafa áhrif á getu okkar til að skuldbindast og taka hlutunum hægt?          

Vitneskjan um að það er mögulega eitthvað betra handan við hornið, aðeins einu „swipe-i“ í burtu, eykur hraða leiksins, ef leik má kalla, og ef núverandi viðfang spilarans missir áhugann þá er í flestum tilfellum hægt að skipta út viðfangi á sömu mínútu. Þetta ferli gerir það að verkum að spilari leiksins þarf ekki að velta sér upp úr spurningum eins og „afhverju vill hún/hann mig ekki?“ og stuðlar að minni „recovery“ tíma þar sem fljótlegt er að fylla upp í skarðið. Að sjálfsögðu gildir þetta ekki í öllum tilvikum því dæmi eru um að fólk verður virkilega ástfangið gegnum þessa miðla.                           

Erum við að blekkja hvort annað á stefnumótamiðlum? Í mörgum tilfellum já. Við notum „filtera“ á myndirnar okkar og pössum flest að sýna okkar bestu hlið, sýnum skrautfjaðrinar í von um að laða að okkur fólk og skörtum okkar fullkomnasta yfirborði fyrir aðra að dást að. Með því tökum við eitthvað sem er raunverulegt og fínpússum það í átt til óraunveruleikans, í átt til fullkomnunar.

Það er ýmislegt áhugavert í gangi hvað varðar gervigreind og tilhugalífið. Þó það virðist óhugsandi að stofna til sambands með vélmenni þá er það engu að síður mögulegt. Eftirspurnin er til staðar og til eru dæmi þess að menn hafa gengið í hjónaband með einu slíku. Kynlífsdúkkur hafa verið til um nokkurt skeið og þá helst þær sem líkja eftir kvenfólki. Þær hafa ekki haft mikið til brunns að bera hingað til enda kröfur um notagildi aðeins skorðast við það eitt að svala kynlífsþörfum karlmanna. Í náinni framtíð koma þessar dúkkur, sem raun má kalla vélmenni, bæði í kven- og karlmannsmynd, geta sýnt mismunandi svipbrigði og haldið uppi samræðum. Reynt er að líkja eftir raunverulegri manneskju á sem besta máta og enn fleiri smáatriði eru í þróun. Fyrirtækið sem hefur skarað hvað mest fram úr í þessum geira heitir Real Doll og er með bækistöðvar í Bandaríkjunum. Kaupverð á dúkku þaðan nemur um 4000 dollara og er þá um að ræða ódýrustu útgáfuna.                              

Að líkja eftir nánd er eitt helsta  verkefni þeirra sem vinna í þróun þessara nýju staðgengla enda afar mikilvæg og erfitt að sjá fyrir sér hvernig hægt verður að útfæra hana. Hvernig er hægt að líkja eftir raunverulegri nánd milli tveggja einstaklinga? Það er ekki hægt er það? Það má samt reyna og hefur fyrirtæki í USA hannað og útfært kvikmynd í samstarfi við Oculus þar sem áhorfandinn er þátttakandi og getur átt samræður við manneskjuna sem birtist á skjánum, eða öllu heldur í sýndargleraugunum. Fall in love in VR heitir hún og hefur mikið verið lagt í að samræðurnar séu sem raunverulegastar.

Takist einverjum að sameina þessa tvo þætti, nándina og áþreifanleikann, gæti litið dagsins ljós vara sem mætti finna á mörgum heimilum eftir 100 ár þótt undarlegt megi virðast.              

Eitt helsta vandamál heimsins er offjölgun mannfólksins og meðferð okkar á auðlindum jarðarinnar. Það mætti því telja að þessi þróun sé skref í rétta átt hvað það varðar og að hún stuðli að fækkun barneigna nái hún áframhaldandi útbreiðslu. Það kann vera kalt að tala um eitthvað jafn fallegt og barneignir á þennan hátt en hér er eingöngu verið að horfast í augu við staðreyndir og velta fyrir sér komandi framtíð á gagnrýnan  hátt.                                                                                          

Höfundur greinar er virkur spilari stefnumótaleikjanna og hefur ekki enn gefist upp. Ef að því kemur þá er viss huggun í því að geta skapað draumamakann frá grunni þó ekkert geti í raun komið í staðinn fyrir raunverulegra tilfinninga  á milli tveggja ástfanginna einstaklinga.

Höfundur: Hrafnhildur Sara Sigurðardóttir, nemandi við Háskólann í Reykjavík

Heimildaskrá:

Einkamál(2012). Skoðað 25.september 2017 af https://www.einkamal.is/.

Lesið 1534 sinnum Last modified on föstudagur, 03 November 2017 09:33