Þessi síða notar kökur (e. cookies) til að auðvelda þér að vafra um vefinn.

Einingasnjallsímar

ÞordisSími sem endist út ævina er hugmyndin á bak við svokallaða einingasnjallsíma eða modular smartphones einsog þeir nefnast á ensku. Hugmyndin byggir á því draga úr rafrusli, rafmagnstækja-úrgangur (e. E-waste) inniheldur eitruð efni og því er mikilvægt að henda ekki tækjunum, heldur endurvinna þau sem hætt er að nota daglega. Snjallsímum er oft hent eftir stutta notkun þar sem þeir þykja úreltir  eða  vegna þess að einstaka hlutir í þeim skemmast. Þetta eykur magn rafmagnstækjaúrgangs í heiminum en talið er að einingasnjallsímar gætu dregið þessari þróun (McNicoll, 2013).

Einingasnjallsímar, líkt og nafnið gefur til kynna, eru samansettir úr einingum. Það er þá einhver grunnur og á hann er auðvelt að festa og skipta út einstaka hlutum símans, svo sem minni, myndavél, rafhlöðu, hátalara eða skjá. Það kemur því kannski ekki á óvart að einingasnjallsímum hefur verið líkt við LEGO-kubbasíma. Notandinn byggir þannig upp sinn eigin síma með þeim einingum sem henta honum, og ef einhver eining eyðileggst þá getur notandinn sjálfur skipt henni út fyrir nýja. Ef svo notandann langar til dæmis í stærra geymsluminni, eða jafnvel betri myndavél, þá getur hann einfaldlega keypt nýja einingu og skipt þeirri gömlu út.  

Byrjunarkostnaður símans væri okkur, en fólk myndi  spara til langtíma litið. Því munu notendur ekki lengur þurfa að endurnýja heilu símana, og þeir þar af leiðandi endast mikið lengur. Gömlu einingarnar, ef þær eru enn heilar, væri svo hægt að nýta í aðra síma (Thayer, 2016).

Þessari  tækni  fylgja þó auðvitað einhverjir ókostir. Einingasnjallsímar ættu líklega auðveldara með að detta í sundur eða brotna við hnjask. Þeir yrðu væntanlega þyngri þar sem hver eining er varin og þarf sínar festingar. Líklega yrðu þeir ekki jafn áreiðanlegir og aðrir símar, því til dæmis þá þarf hver og ein eining að geta unnið rétt saman þó svo einni er skipt út. Einingarnar þyrftu að vera  nógu  fastar  til að detta ekki úr, en samt ekki svo fastar að það sé ekki auðveldlega hægt að skipta þeim út.

Í símum í dag er hugsað fyrir því hvernig  einstaka hlutir vinna saman, meðal annars til að hámarka rafhlöðuendingu, sem ekki væri jafn auðvelt að spá fyrir um þegar einingum er skipt út fyrir  einhverjar  hraðari, stærri  eða  betri.  Ekki má gleyma því að í raun gæti magn raftækjaúrgangs aukist ef fólk væri að skipta út einingum á nokkurra mánaða fresti án þess að endurnýta þær gömlu. Að lokum eru svo ekki allir sem vilja hafa þetta val þegar kaupa á nýjan síma. Þeim gæti fundist úr of miklu að velja þegar góður sími, sem hægt er að nota, er allt sem þarf.  

Þetta eru meðal ástæðna þess að margir telja að einingasnjallsímar muni ekki verða að veruleika. Hugmyndin um einingasnjallsíma hefur verið til í nokkurn tíma en náði fyrst útbreiddri athygli almennings árið 2013, þegar hönnun Phonebloks var birt. Phonebloks sjálfur átti ekki að fara í framleiðslu, en hann var gerður til þess að vekja athygli á hugmyndinni og hvaða möguleika einingasnjallsímar gætu haft í för með sér. Þá var vonast til þess að fyrirtæki myndu hefjast handa við að þróa svona síma (McNicoll, 2013).

Project Ara spratt upp stuttu seinna sem þróunarverkefni hjá Google, í samstarfi viðhönnuð  Phonebloks. Einingasnjallsíminn Ara átti að koma í sölu árið 2017, en  ekki  gekk verkefnið nógu vel og var lagtá hilluna árið 2016. Hugmyndin hafði þá orðið fyrir nokkrum breytingum síðan Phonebloks, og var orðin þannig að grunnurinn innihélt það sem síminn þurfti til að virka; rafhlöðu, örgjörva, skjá og fleira. Hægt var svo að bæta á einingum líkt og  myndavél, hátölurum, auka geymsluminni, aflmeiri rafhlöðu og ýmsum fagurfræðilegum einingum. Eitt það besta við Ara var að hægt var að að skipta út einingum án þess að þurfa að endurræsa símann, en annað þykir óhentugt (Bunton & Edwards, 2016).

Puzzlephone var önnur hugmynd að einingasnjallsíma. Í honum átti þó að vera hægt að velja stýrikerfið ásamt því að geta byggt hann frá grunni með einingum. Þegar ekki gekk að fá styrki í verkefnið var því frestað um ókomna tíð („Puzzlephone“, 2015).

Þróun enn annarra einingasnjallsíma hélt þó áfram og á markaðnum í dag má finna að minnsta kosti þrjár tegundir; Fairphone 2, LG G5 og Moto Z. 

Fairphone 2 kom út í desember 2015 sem fullbúinn snjallsími. Það sem gerir hann að  einingasnjallsíma  er  hversu  auðvelt  er  að  skipta  um  aukahluti  ef  einhverjir  skemmast, en hann býður þó ekki upp á einingar sem uppfærslur („Fairphone 2“, 2017)

L. G  G5  kom út í apríl 2016 og fékk misjafna dóma, helst vegna þess hvað það er takmarkað hvaða einingar hægt að skipta um, og það að taka þurfi rafhlöðuna úr til þess að skipta um þær (Goodwin, 2017).

Moto Z kom út  í september 2016 og minnir um margt á Ara. Hann er seldur sem fullbúinn snjallsími sem hægt er að kaupa aukaeiningar á. Einingunum, svo kölluðum Moto Mods, er smellt aftan á símann líkt og hulstri og þarf ekki að endurræsa símann þegar það er gert. Dæmi  um  Moto Mods eru rafhlöðupakki, hátalari, myndavél, lítill myndvarpi og leikjafjarstýring. Moto Z þykir kannski ekki frábær snjallsími, en hefur fengið  jákvæða dóma hvað varðar einingarnar; þær þykja sniðugar og búa yfir ýmsum möguleikum (Lynn, 2016).

Af þessu má því sjá að enn er áhugi fyrir ýmsum gerðum einingasnjallsíma. Spennandi verður að sjá á næstu árum hvort þróunin heldur áfram og hvort sannur einingasími mun einn dag koma á markað; sími sem notandinn ræður algjörlega sjálfur.

Höfundur: Þórdís Bakkmann Kristinsdóttir nemandi við Háskólann í Reykjavík

Heimildaskrá
Bunton, Cam & Edwards, Luke. (2016, 7. júní). Google’s abandones Project Ara modular smartphone: Everything you need to know. Pocket-Lint. Sótt af http://www.pocket-lint.com/news/127564-google-s-abandoned-project-ara-modular-smartphone-everything-you-need-to-know
Fairphone 2: ethical, open and built to last. (2017). Sótt 20. september 2017 af https://shop.fairphone.com/en/
Goodwin, Richard. (2017, 31. júlí). LG G5 review: Now UBER-CHEAP Via Amazon. Know Your Mobile . Sótt af http://www.knowyourmobile.com/mobile-phones/lg-g5/23539/lg-g5-review-specs-price-features-display-camera-battery-performance-design-now-uber-cheap-amazon
La, Lynn. (2016, 26. september). Motorola Moto Z review: A 'modular' phone that just clicks. CNET. Sótt af https://www.cnet.com/products/motorola-moto-z/
McNicoll, Arion. (2013, 19. september). Phonebloks: The smartphone for the rest of your life. CNN. Sótt af http://edition.cnn.com/2013/09/19/tech/innovation/phonebloks-the-smartphone-for-life/
Puzzlephone. (2015). Sótt 19. september 2017 af http://www.puzzlephone.com
Thayer, Tryggvi. (2016, 30. ágúst). Snjallsími framtíðarinnar - sérhannaður fyrir skóla? Framtíðatorg. Sótt af http://framtidatorg.menntamidja.is/snjallsimi-framtidarinnar-serhannadur-fyrir-skola/

Lesið 1302 sinnum Last modified on miðvikudagur, 29 November 2017 14:43