Þessi síða notar kökur (e. cookies) til að auðvelda þér að vafra um vefinn.

Blockchain tæknin og helstu kostir hennar

JakobBitcoin er líklega þekktasta dæmið um hugbúnað sem notar blockchain tæknina. Fæstir vita hins vegar hvernig hann virkar, virði hans eða möguleikana sem hann býður uppá. Bitcoin er rafrænn gjaldmiðill sem hægt er að nota án landamæra um allan heim. Allt utanumhald eða bókhald í kringum Bitcoin byggist á því neti fólks sem notar Bitcoin, og blockchain tækninni.

Millifærslur og verslun með Bitcoin er einungis á milli jafningja, það er aldrei neinn milliliður eins og bankar, stjórnvöld, kreditkortafyrirtæki og svo framvegis. Bitcoin býður einnig uppá meiri persónuvernd, enda eru millifærslur nafnlausar. Það sem þú notar þinn pening í, eða hversu mikinn pening þú átt er þannig algjörlega þitt einkamál.

Bitcoin var búinn til í kjölfar efnahagshrunsins árið 2009 af óþekktum forritara, eða hópi forritara, undir nafninu Satoshi Nakamoto. Bitcoin kom fyrst á opinn markað árið 2010, þar sem hægt var að skipta Bitcoin fyrir dollara en í þá daga var eitt Bitcoin virði $0.003. Enginn hafði nokkra trú á þessu, nema helst tölvunarfræðingar eða fólk sem var gífurlega annt um friðhelgi einkalífsins. Það er aldeilis búið að breytast, enda hefur Bitcoin náð ótrúlegum hæðum og einna helst árið 2017. Fyrir ári síðan var eitt Bitcoin virði $650 en rafmyntin náði hámarki 1.september eða $4928,03. Síðan þá hafa margir verið að selja og markaðsvirði Bitcoins þegar þessi grein er skrifuð er $3898.73. Heildarvirði Bitcoina í heiminum er $64,674,909,136 sem hefur þannig þaggað niður í flestum efasemdarröddum, en þó ekki öllum.

m1

Markaðsvirði Bitcoin: Coinmarketcap, 2017


Blockchain og möguleikar í framtíðinni

Blockchain

Blockchain er almenn skrá eða betra er að segja listi af skrám. Listinn lengist sífellt, tengjandi saman skrár, svokallaðar blokkir, sem eru svo hver og ein tryggð með dulkóðun. Hver einasta blokk inniheldur bendi á fyrrverandi blokk með tímastimpli, sem virkar að sumu leyti sem rafrænt vax innsigli. Í Bitcoin kerfinu er þessi runa af skrám notuð til að halda utan um millifærslur, innistæður og verslun með gjaldmiðilinn. Hún virkar þá sem aðalbók sem allir notendur innan kerfisins staðfesta. Það er því ekki hægt að svindla á þessu kerfi, að reyna að breyta innistæðum eða færa til peninga nema allir sem nota kerfið samþykkja það. Jafnvel þó að þér tækist að hakka eina rununa, á einni tölvu sem er alveg nógu erfitt, þá þyrfti þú samt að hakka aðrar 30 milljón tölvur samtímis til þess að það sem þú gerðir við rununa væri varanleg breyting. Blockchain var hannað til þess að vera öruggt og byggir á neti fólks semmeð því að nota kerfið tryggir það hvert annað.

Bankakerfi

Mesti áhuginn fyrir framtíðarnotkun á Blockchain er innan bankageirans. Það sem knýr vestræna samfélagið áfram eru peningar og ef hægt væri að tryggja peninga enn frekar þá þarf ekkert að hugsa sig mikið um. Þetta gæti breytt öllu á Wall Street til dæmis, með tilkomu SmartContract þar sem undirritun samnings, eftirfylgni og þóknun væri óumdeilanleg. Ef upplýsingar um innistæður væru ekki bara á einum gagnagrunni og einum til vara ef ske kynni að hinn hrynji. Það er sífellt verið að brjótast inní gagnagrunna hjá símfyrirtækjum til dæmis og verið að stela upplýsingum um fólk. Eru bankayfirlitin okkar ekki einstaklega góð innlit í það sem við gerum, hvar við erum í heiminum og hvað við notum peningana okkar í? Mig langar ekkert að gjaldkerinn í Landsbankanum geti séð á svart og hvítu hvað ég verslaði mér þegar ég fór til Amsterdam núna í sumar, svo dæmi sé tekið. Persónuvernd og aukið öryggi í viðskiptum og fjármálum er innan seilingar með tilkomu þessarar tækni ef hún verður notuð.

Land og eignarhald

Hversu margir landeigendur um allan heim geta sannað með ótvíræðum hætti að þeir eigi landið? Eignarhald yfir einhverju er einungis jafn öruggt og skráin sem sýnir að þú eigir það. Ef þú getur ekki sýnt frammá að þú eigir landið, hvernig ætlarðu þá að fá veð útá það, fá lánað gegn því og svo framvegis. Þetta er risavandamál í minna þróuðum ríkjum heims, þar á meðal í Hondúras. Hondúras er hættulegasta land í heimi miðað við höfðatölu fyrir náttúruverndarsinna og landeigendur en í hópi þeirra hafa 101 verið myrtir milli 2010 og 2014. Fólk er að missa frá sér landskikann sinn, fyrirtæki eru að ráða leigumorðingja sem eltast við forsprakka mótspyrnunnar og þau komast upp með að nýta land annarra nákvæmlega eins og þeim sýnist. Með bættum innviðum landsins og með hjálp Blockchain væri vonandi hægt að koma upp kerfi sem kæmi í veg fyrir þetta.

Útrýming milliliða

Útrýming milliliða væri líklega stærsta breytingin sem myndi fylgja í kjölfarið af aukinni notkun þessarar tækni. Öflugir og valdamiklir milliliðir eins og WesternUnion sem sjá um að senda pening milli landa, einna helst fyrir farandverkamenn, eru byrjaðir að finna mikið fyrir tilkomu Bitcoin. Fólk fer að hætta að nenna að borga 10-15% af greiðslunni til heimalandsins í gjöld og er farið að nota rafræna gjaldmiðla. Hvað ef það kæmi Blockchain-útgáfa af AirBnB, sem væri einungis milli jafningja með engum millilið sem græðir á tá og fingri. Listamenn, tónlistarfólk, blaðamenn, rithöfundar og svo mætti lengi telja eru allt dæmi um fólk sem myndi klárlega selja vöruna sína beint til notenda ef þau gætu.

Þessi framtíðarsýn um viðskipti án landamæra, án þess að hægt sé að tengja það við kennitölu viðkomandi hefur klárlega ótvíræða kosti. Frjáls viðskipti milli jafningja án reglna og milliliða er það sem koma skal.

Höfundur: Jakob Helgi Jónsson, nemandi við Háskólann í Reykavík

Heimildir:

Coinmarketcap. (2017). Markaðsvirði Bitcoin [mynd]. Sótt 24. September 2017 af https://coinmarketcap.com/currencies/bitcoin/
GlobalWitness. (Apríl 2015). Heimild sótt af https://www.globalwitness.org/en/campaigns/environmental-activists/how-many-more /

 

Lesið 1517 sinnum Last modified on fimmudagur, 01 February 2018 11:16