Þessi síða notar kökur (e. cookies) til að auðvelda þér að vafra um vefinn.

Upplýsinga- og samskiptatæknin (UST) í námi og kennslu

vef asrun 13050BWMikið hefur verið rætt og ritað um notkun á nýjustu tölvutækni í námi og kennslu og eru skoðanir skiptar. Sumir telja að með UST höfum við fengið óþrjótandi tækifæri til að þróa og bæta nám og kennslu á meðan aðrir hafa áhyggjur af of miklum skjátíma barna og óæskilegu efni á Internetinu. Með nýrri tækni inn í skólum koma nýjar og aðrar kröfur en áður, sem beinast bæði að kennurum og nemendum.

Þegar við skoðum áhrif UST á skólastarf þá erum við ekki bara að skoða hvernig við getum gert það sem erum vön að gera á nýjan hátt heldur einnig að nú getum við gert annað áður. Hér má sem dæmi nefna samskipti, sem hafa gjörbreyst eftir að þau fóru að verða meira rafræn. Nú er hægt að senda út allskonar skilboð til stórs hóps af fólki á skömmum tíma og fá strax viðbrögð og þannig hægt að dreifa efni á auðveldan hátt. Varla þarf að nefna aðgengi að upplýsingum, sem er ótrúlegt með þessari nýju tækni. Auðvitað bæði „góðum“ og „slæmum“ upplýsingum, en notendur þurfa að þekkja „gott“ efni og stunda ábyrga notkun á öllum þeim upplýsingum sem netið hefur.

Margar rannsóknir fjalla um upplifun, skynjun, skoðanir og viðhorf kennara um ýmis atriði þessu tengt, svo sem faglega þróun kennara, kennslu og þjálfun nýrra kennara, nýjungar í kennsluháttum og nýsköpunar í menntun. Jákvæð viðhorf kennara til upplýsingatækni í kennslu (menntun) eru mikilvæg fyrir þróun og breytingar á menntun, en þó flestir kennarar séu jákvæðir eru sumir skeptískir og jafnvel á móti tæknivæðingu í námi og kennslu.

Nýleg rannsókn í Finnlandi leiddi í ljós að meirihluti kennara hefur ekki möguleika á eða þekkingu til að nýta UST að fullu til að efla nám nemenda sinna, en þeir sem höfðu kunnáttu og færni nýttu UST mikið (sjá Educational use of information and communications technology: teachers’ perspective). Ef staðan er svipuð hér á landi þá er það dapurlegt ef kennarar hafa hvorki aðstæður né þekkingu til að nýta UST betur í starfi sínu, sem hlýtur svo að móta viðhorf þeirra og afstöðu til tækninýjunga. Það er ljóst að ef að umhverfið styður ekki viðleitni kennara til að prófa sig áfram með tæknina þá skapar það ekki jákvæð viðhorf og tækninni er kennt um.

Átak hefur verið gert í að innleiða spjaldtölvur í leik- og grunnskóla hér á landi, þar sem stuðningur hefur fylgt fyrir kennara. Helsta vandamál sem kennarar standa frammi fyrir í sjaldtölvunotkun er skortu á efni á íslensku. Það er ótrúlega mikið úrval af efni á ensku fyrir börn allt frá unga aldri, en úrvalið á íslensku er takmarkað. Auðvitað má líta svo á að úrval efnis á erlendum tungumálum auki fjölbreytileika námsefnis, en hafa þarf í huga áhrif þess á málþroska barna. Það er jákvætt að þau læra aukalega ensku á meðan þau eru að læra ýmislegt annað, en það má ekki koma niður á íslenskukunnáttu þeirra.

Þó mikið sé til af efni á ensku þá þarf að skoða það, meta og aðlaga að kennslunni hverju sinni, sem veldur því að mikill tími kennara fer í að leita að náms- og kennsluefni og námsvefjum eða jafnvel í að útbúa eigið efni.

Helsti kostur UST er fjölbreytni því að hugbúnað og tæki er hægt að nýta á ótal vegu og koma til móts við mismunandi nemendur sem hafa ólíkar þarfir, áhuga og námsstíl.  Sama verkfæri er oft hægt að nota til kennslu, til sköpunar, til fyrirspurnar og samskipta. Nemendur geta nú auðveldlega búið til og birt sitt margmiðlunarefni, einir eða með jafningjum sínum og með eða án leiðbeininga frá kennara. Margt fleira mætti telja til.

Nýlega hélt Ský hádegisfund með yfirskriftinni “Erum við betur stödd með nútímatækni í kennslu eða er hún hamlandi?". Á fundinum voru mörg fróðleg erindi og áhugaverða umræður í kjölfarið.

Áhugaverð var frásögn Páls Ásgeirs Torfasonar frá Fellaskóla um Google lausnir í skólatarfi þar sem hann lagði sérstaka áherslu á að nemendur gætu nýtt sér að láta efni birtast á sínu móðumáli og það væri mikil hjálp fyrir nemendur.

Lára Stefánsdóttir skólameistari Menntaskólanum á Tröllaskaga kom með skemmtilega sýn á tækninotkun, bæði nemenda og kennara, en Menntaskólinn á Tröllaskaga er mjög framsækinn skóli bæði í efnistökum og framsetningu.

Khan Academy getur nýst vel í stærðfræðinámi og fleiri greinum og Þorsteinn Kristján Jóhannsson, stærðfræðikennari hjá Tækniskólanum rakti hvernig hann notar þennan vef í kennslu á áhugaverða hátt og hvernig það styður vel við vinnu nemenda. 

Tvö fróðleg erindi voru um íslenskuna. Það fyrra flutti Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor í íslenskri málfræði við Hugvísindasvið HÍ. Hann velti fyrir sér hvort stafrænn dauði leiði óhjákvæmilega til dauða í raunheiminum. Íris Edda Nowenstein, doktorsnemi við Háskóla Íslands, ræddi um málþroska og hvernig tæknin hefði þar áhrif.

Hægt er að horfa á þessa fyrirlestra á vefslóðinni: http://www.sky.is/index.php/vidhburdhir/1816-2018-menntun, og hvet ég alla sem áhuga hafa á efninu til að nýta sér það.

Höfundur: Ásrún Matthíasdóttir lektor við Háskólann í Reykjavík