Þessi síða notar kökur (e. cookies) til að auðvelda þér að vafra um vefinn.

Verkfærakista ofurhetjunnar

EyjolfurÞann 18. apríl 2018 var haldinn fundur á vegum Ský undir nafninu "Verkfærakista ofurhetjunnar".  Efni fundarins var að skoða hvaða færni forritarar þurfa að búa yfir og að kynna ýmis tól og aðferðir við hugbúnaðargerð.  Fundarstjóri var Sigrún Lára Sverrisdóttir frá Miracle og var fundurinn skipulagður af stjórn faghóps Ský um hugbúnaðargerð.  Efni fundarins var afar áhugavert fyrir bæði forritara og alla sem hafa áhuga á forritun, enda var þétt setið í salnum.

Steinar Hugi Sigurðarson frá WOW air var fyrstur á svið og talaði um örþjónustur og flugvélar.  Steinar Hugi fór stuttlega yfir áhugaverða sögu WOW air þar sem kom meðal annar fram hvernig upplýsingatæknideild þeirra stækkaði ört þegar WOW air fór að stækka og að bókunarvél WOW air hafi verið skrifuð frá grunni og verið komin í loftið um 3 mánuðum seinna.  Steinar Hugi fór svo ítarlega í gegnum innra kerfi WOW sem er byggt á örþjónustum og keyrir á Kubernetes cluster.  Meðal þess efnis sem Steinar Hugi ræddi voru þau forritunartungumál sem eru notuð í kerfinu hjá WOW, þar með talið GraphQL sem er öflugt fyrirspurnarmál fyrir API, Scala sem er forritunarmál sem samþættir hlutbundna forritun og fallamál (functional programming) og Thrift sem er notað til að láta þjónustur tala saman sín á milli.  Upplýsingatæknideild WOW air notar monorepo til að geyma kóða, þannig að allur kóði er á einum stað og það er aðeins eitt build kerfi.  Einnig fjallaði Steinar Hugi aðeins um Kubernetes sem er svokallað container orchestration kerfi fyrir Docker containers og sér um að deila aðföngum niður á þjónustur.  Í lokin útskýrði Steinar Hugi hvernig feature-branch og branch-deployment virkar hjá WOW, þar sem forritarar geta búið til nýja útgáfu af vefsíðum WOW, t.d. bókunarsíðunni, þar sem þessi nýja útgáfa fær sérstaka vefslóð (eða url) sem hægt er að vísa í til að prófa og meta breyttu útgáfuna.  Þegar nýja vefsíðan hefur verið samþykkt og hún staðist prófanir má setja hana í loftið með einu handtaki.

Næstur á svið var Ólafur Jóhann Ólafsson frá Fruktus með erindi sem kallaðist "Leitað að nál í heystakki með elastic".  Ólafur Jóhann kynnti Elastic, eða The Open Source Elastic Stack, sem er open-source hugbúnaður hannaður fyrir rauntíma gagnaleit, skráningu og greiningu.  Elastic notar NoSQL gagnagrunn sem byggir á REST til að geyma gögn.  Helstu þættir Elastic eru Elasticsearch, Kibana, Beats og Logstash.  Elasticsearch er notað til að leita í gögnum.  Elasticsearch er fjölhæft fyrirspurnarmál og helstu eiginleikar og kostir þess eru lóðrétt skölun, notkun á rauntíma gögnum, sveigjanlegt gagnalíkan og öflug fyrirspurnarvinnsla. Gögnum er safnað með Elastic Beats, sem er hannað til að safna saman gögnum úr mismunandi áttum.  Undirflokkar Beats eru til dæmis Filebeat, Metricbeat, Packetbeat, Winlogbeat, Auditbeat og Heartbeat, þar sem hver undirflokkur er sérhannaður fyrir ákveðna týpu af gögnum, t.d. er Heartbeat hugsað til að sækja gögn um uppitíma og stöðu vefsíðna.  Logstash sér um að samræma gögnin, þátta, auðga og sía þau til að hægt sé að nota gögnin áfram, til dæmis í ElasticSearch. Kibana sér um framsetningu og lokavinnslu gagna, og býður það upp á marga möguleika til að skoða og greina gögn.

Sigríður Dóra Héðinsdóttir frá Advania setti fram spurninguna: "Hvernig tryggjum við gæði?".  Sigríður Dóra hefur mikla reynslu af prófunum og gæðamálum í hugbúnaði, en hún starfaði hjá Marorku áður en hún færði sig yfir til Advania.  Byrjað var á að skilgreina hvað einkennir hágæða hugbúnað, þar með talið að hugbúnaðurinn sé villulaus (eða eins villulaus og raunhæft sé að gera ráð fyrir), að hugbúnaðinum sé skilað á réttum tíma og innan fjárhagsáætlana, að hugbúnaðurinn uppfylli þær kröfur sem notandinn gerði og að auðvelt sé að viðhalda hugbúnaðinum.  Því fyrr sem villur koma fram í ferlinu, því ódýrara er að lagfæra þær, svo mikilvægt er að hafa skýr ferli við hugbúnaðargerð þar sem prófanir eiga sér stað á öllum stigum í ferlinu.  Sigríður Dóra tók dæmi um prófanir og talaði um mismunandi tegundir prófana, svo sem kröfurýni (requirement review), einingaprófanir (unit tests), kóðarýni (code review og static code analysis), kerfisprófanir (system tests) og regression tests þar sem tryggt er að gamli kóðinn virki ennþá rétt eftir að breytingar hafa verið gerðar.  Aðar prófanir sem ræddar voru eru performance tests, usability test og user acceptance tests, þar sem verið er að prófa hvort hugbúnaðurinn keyri nægilega vel, hvort viðmótið sé nægilega skýrt og gott, og svo hvort hugbúnaðurinn uppfylli þær kröfur sem settar voru fram í upphafi. 

Að lokum kom Gylfi Steinn Gunnarsson frá Advania og kynnti nýjan vef Knattspyrnusambands Íslands (KSÍ).  Gamli vefurinn var búinn til árið 2005 og var augljóslega kominn til ára sinna.  Markmið með nýja vefnum var að hafa tölfræðiupplýsingar aðgengilegri og skemmtilegri í notkun, gefa hraða notendaupplifun þar sem notandi hefur greiða leið að öllum hlutum vefsins, og að nútímavæða mótakerfi KSÍ og gera það sjálfstætt.  Gagnagrunnur KSÍ geymir upplýsingar um leikmenn og leiki allt frá árinu 1912 og inniheldur upplýsingar um ríflega 72.000 keppendur, 10.000 mót og 150.000 leiki.  Nýja mótakerfi KSÍ byggir á vue.js og er single page app, sem gerir því kleyft á auðveldan hátt að vera notað bæði í vafra í tölvum og símum.  Notast er við LiSA vefumsjónarkerfið frá Advania til að halda utanum nýja vefinn.  Hinn nýji vefur KSÍ er gríðarleg breyting frá því sem áður var og má sjá afraksturinn á slóðinni ksi.is.

Eyjólfur Ingi Ásgeirsson, dósent Háskólanum í Reykjavík tók saman