Þessi síða notar kökur (e. cookies) til að auðvelda þér að vafra um vefinn.

Getur meðferð i gegnum vefinn lagað svefnleysi á árangursríkan hátt?

Erla 2Flestir kannast við að fara í fjarnám, jafnvel fjarþjálfun, en hvað með að fara í fjarmeðferð við sálrænum og/eða líkamlegum vandamálum?  Hér á landi er boðið uppá fjarmeðferð við svefnleysi inná vefnum www.betrisvefn.is.

Svefnleysi er algengt vandamál sem hefur gjarnan neikvæð áhrif á heilsu, líðan og lífsgæði þeirra sem af því þjást. Alþjóða heilbrigðisstofnunin og klínískar leiðbeiningar mæla með hugrænni atferlismeðferð sem fyrsta úrræði við langvarandi svefnleysi. Aðgengi að slíkri meðferð er hins vegar afar takmarkað hér á landi þar sem fáir hafa sérhæft sig á þessu sviði, meðferðin er dýr, biðlistar langir og eingöngu er hægt að nálgast meðferðina á höfuðborgarsvæðinu. Þessar staðreyndir eru ef til vill hluti af ástæðu þess að Íslendingar nota margfalt meira af svefnlyfjum en þekkist hjá nágrannaþjóðum okkar. Svefnlyf eru hugsuð sem skammtíma lausn og séu þau notuð í meira en 6 vikur samfellt geta ýmsar neikvæðar afleiðingar fylgt notkuninni.

Vegna þessa ákváðu tveir læknar og einn sálfræðingur með sérhæfingu á þessu sviði að bjóða uppá netmeðferð við svefnleysi inná vefnum www.betrisvefn.is. Hugmyndin var að bjóða öllum landsmönnum aðgengi að hugrænni atferlismeðferð við svefnleysi á hagkvæmari hátt en áður hafi þekkst og á þann máta að fólk gæti sinnt þessari meðferð á þeim stað og á þeirri stund sem hentar hverjum og einum best. Meðferðin inná vefnum var opnuð árið 2013 og var fyrsta sinnar tegundar á Norðurlöndunum en sambærileg meðferð hafði verið til í Bretlandi. Kerfið er skrifað í Java og notar Spring Framework, keyrir í Spring Boot (embedded tomcat container) á MySQL gagnagrunni. Vefþjónninn er hýstur í Azure skýinu.

Hugræn atferlismeðferð við svefnleysi er formföst meðferð sem tekur um 6 vikur og fjölmargar rannsóknir hafa sýnt að slík meðferð er árangursríkasta úrræði sem völ er á við langvarandi svefnleysi. Meiri hluti sjúklinga nær góðum árangri sem helst til lengri tíma.Í þessari meðferð halda skjólstæðingar nákvæma svefndagbók og fá viðeigandi fræðslu um svefn, svefnleysi, svefnvenjur og fleira sem snertir vandann. Út frá svefndagbók skjólstæðinga eru svo meðferðarinngrip ákvörðuð.

Sökum þess hversu formföst meðferðin er hentaði vel að koma henni yfir á annað form og veita meðferð í gegnum vef. Þegar skjólstæðingar hefja meðferð fá þeir aðgang að sínu heimasvæði þar sem þeir svara spurningum um svefnvenjur, heilsu og lífsstíl. Inná þeirra svæði birtast ný fræðslumyndbönd í hverri viku og dagleg svefnskráning fer einnig fram inná svæðinu. Fólk getur sett sér persónuleg markmið er snerta svefn, heilsu og lífsstíl  og fá í hverri viku einstaklingsmiðaðar leiðbeiningar um breytingar á eigin svefnvenjum.

Þó svo að meðferð fari fram í gegnum vef stendur fólki til boða að hafa samband við sálfræðing síðunnar ef einhverjar spurningar vakna eða ef fólk þarf frekari aðstoð. Þessi samskipti fara fram í gegnum tölvupóst og reynt er að svara fyrirspurnum innan 24 klukkustunda. Flestir fara í gegnum meðferð án þess að þurfa á þessari auka hjálp að halda en mikilvægt er þó að hún sé í boði.

Áður en meðferð hefst svarar fólk stuttum spurningalista sem metur hvort að þetta form meðferðar henti viðkomandi. Ef annar alvarlegur vandi er til staðar meðfram svefnleysinu er fólki oft vísað í einstaklingsmeðferð hjá sálfræðingi með sérhæfingu í svefni eða í annars konar meðferð, annað hvort hjá lækni eða sálfræðingi eftir því sem við á.

Nú þegar hafa verið gerðar rannsóknir á árangri þessarar meðferðar og niðurstöðurnar sem lofuðu mjög góðu, voru  birtar í Læknablaði Íslands árið 2015. Nú stendur yfir rannsókn í samstarfi við Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins þar sem verið er að kanna hvort að þessi meðferð gagnist skjólstæðingum heilsugæslunnar sem glíma við svefnvanda og hvort draga megi úr ávísunum á svefnlyf ef fólki stendur  þessi meðferð til boða.

Það er ljóst að eins og staðan er í dag er ekki unnt að fylgja opinberum leiðbeiningum um meðhöndlun langvarandi svefnleysis á Íslandi þar sem Hugræn atferlismeðferð ætti að vera fyrsti kostur. Með því að nýta tæknina og koma þessari meðferð á það form að hægt sé að veita hana yfir vef ætti að vera mun auðveldara að framfylgja þessum leiðbeiningum. Vonandi verður hægt í náinni framtíð að bjóða öllum þeim er þjást af langvarandi svefnleysi uppá það val að fara í gegnum hugræna atferlismeðferð áður en svefnlyf eru gefin.

Í raun mætti nýta fjarmeðferð á svipaðan hátt gegn mörgum öðrum heilsufarslegum vandamálum. Hugræn atferlismeðferð við kvíða, depurð, félagsfælni og öðrum kvillum getur til dæmis vel virkað í gegnum vef og verður spennandi að sjá hvernig þróunin verður í þessum efnum.  Það er ljóst að aðgengi að sálfræðilegum meðferðum er oft skert, sérstaklega á landsbyggðinni og gæti þar fjarmeðferð leyst ákveðinn vanda.

Höfundur: Erla Björnsdóttir, sálfræðingur og og doktor í svefnrannsóknum

Lesið 653 sinnum Last modified on miðvikudagur, 08 Maí 2019 18:04