Þessi síða notar kökur (e. cookies) til að auðvelda þér að vafra um vefinn.

Print this page

Heitustu tölvumálin framundan

dreamstime xxl 82983190Fyrsti hádegisverðar fundur Ský þetta haustið var Heitustu tölvumálin framundan og kom þar margt áhugavert fram undir skeleggri fundarstjórn Sólveigar H. Sigurðardóttur. Það var gaman að sitja fundinn, fá góðan mat og hlusta á spennandi fyrirlestra í hópi áhugasamra fundargesta. Reglulega vel heppnaður viðburður sem ryður leiðina fyrir góða dagskrá vetrarins. Hér ætla ég að renna aðeins yfir upplifun mína.

Fyrsta erindið, Hvað kveikir í tæknistjóranum?, flutti Ingþór Guðni Júlíusson frá Reiknistofu bankanna (RB) þar sem hann gaf innsýn í það helsta sem verið er að skoða og velja hjá RB þessa dagana. Markmiðið er að auka gæði og skilvikni í hugbúnaðargerð og í þjónustu við notendur. Hann fór yfir gámavelli (containers), þróun í skýjum (cloud), nýtt útgáfuferli (release and development), atburðatorg (event streaming platform) og prófanir og prófanaumhverfi (testing). Hann ræddi meðal annars Azure Devops og Kafka og gaf gott yfirlit yfir þá nýju möguleika sem felast í nýju umhverfi og lausnum og var áhugavert að heyra hvernig hægt er að skala kerfin upp og niður eftir álag hverju sinni. Greinilega margt í gangi, það er úr mörgu að velja og margt nýtt sem þarf að læra.

Næstur var Eysteinn Finnsson frá Nox Medical með erindið Gervigreind og svefnrannsóknir þar sem hann fjallaði um hvernig beita má vélrænu gagnanámi og kerfislíkönum til að læra meira um svefnsjúkdóma. Hér var á ferðinni efni sem margir þekkja til, þ.e. kæfisvefn, orsakir og greining, en færri þekkja til tækninnar á bakvið rannsóknir á þessu sviði. Lagði hann áherslu á mikilvægi góðs svefns og hversu tímafrekt það væri að greina úr þeim aragrúa gagna sem hægt er að safna frá einum einstakling á einni nóttu þar sem tekið er heila- og hjartarit, mældar augnhreyfingar, öndun, súrefnismettun í blóði og vöðvatónn. Mikill árangur hefur náðst í að sjálfvirknivæða svefnmæligögn og náði verkefnið Sjálfvirk örvökuskorun góðum árangri í PhysioNet keppninni 2018 og fékk Nýsköpunarverðlaun forseta Íslands. Einnig var fjallað um rannsóknir á kæfisvefni þar sem mæld er öndun og álag á öndunarkerfið (öndunnarerfiði) og sagt frá hönnun á einföldu líkani sem lýsir lífeðlisfræðilegri hegðun. Þetta líkan gefur möguleika á betri gögnum og hefur haft áhrif á þróun rannsókna. Það verður spennandi að fylgjast með þessum rannsóknum í framtíðinni.

Þá var komið að erindinu Geta tölvur skilið íslensku? sem Vilhjálmur Þorsteinsson frá Miðeind hélt þar sem hann gaf innsýn í verkefni á sviði máltækni og gervigreindar. Hann sagði okkur frá Reyni sem er málgreiningavél og Greyni sem er leitarvél, tól sérhæfð fyrir íslenska tungu. Greynir les fréttamiðla landsins og málgreinir í tré samkvæmt íslenskum málfræðireglum og er þannig búin að safna saman stórum gagngrunni af texta og trjám. Eins og segir á vef Greynis (greynir.is) þá eru upplýsingar eimaðar upp úr málsgreinatrén og nýttar til að svara fyrirspurnum notandans sem geta bæði verið skrifaðar og talaðar. Hér er á ferðinni þróuð málfræðivél sem er ómetanlegt tæki til að aðstoða við að hafa texta málfræðilega réttan, hvort sem það er ritgerð háskólanema eða viðmót á vef. Vilhjálmur sýndi skemmtilega notkun þar sem hann spurði fyrst um hvar næsta stoppistöð væri og síðan hvenær næsti strætó kæmi og fékk hann skýrmælt svör um hæl. Þetta er ómetanlegt framtak til verndunar íslenskrar tungu og stórt skref í því að tryggja að við getum talað við tækin á okkar tungumáli en sú þróun að tala við tæki og tól er hafin og virðist ætla að verða hröð.

Að lokum var það erindi Snæbjörn Ingi Ingólfsson frá Origo og formanns Ský. Hans erindið hét Hvað eru Quantum tölvur, þar sem hann fjallaði um þau áhrif sem Quantum tölvur mun hafa á heiminn. Til að gera flókið mál einfalt þá má segja að þessar tölvur byggja á skammtafræð og vinni mun hraðar með svokölluðum qubit sem geta bæði verið 0 og 1. Hraðamunurinn sem um ræðir virðist vera sá að í stað þess að verk taki miljónir ára þá getið það tekið mínútur, en Quantum tölvur vinna 18 milljörðum milljarða sinnum hraðari en þær tölvur sem við þekkjum í dag. Þetta mun hafa mikil áhrif á ýmsum sviðum og nefndi Snæbjörn sjálfvirkni og gervigreind, líftækni, máltæki og fjármálatæki. Og hann tók fram að þetta er ekki eitthvað sem kemur í óvissri framtíð, það eru nú þegar komnar tölvur sem vinna með þessari tækni og spennandi að sjá hvort við fáum þær í hendur fljótlega.

Ásrún Matthíasdóttir, ritstjóri tók saman, byggt á fyrirlestrum á fundinum

Mynd: Free photo 82983190 © creativecommonsstockphotos - Dreamstime.com