Þessi síða notar kökur (e. cookies) til að auðvelda þér að vafra um vefinn.

Friday, 06 December 2019 21:59

Heimurinn forritaður með fjórðu iðnbyltingunni

Ólafur Andri Ragnarsson 2Við lifum á tímum mikilla tækniframfara. Fjórða iðnbyltingin með róbotatækni og gervigreind mun hafa mikil áhrif á líf og störf fólks á næstu árum. Umræður hafa þó mikið snúist um hræðslu, ótta við atvinnuleysi og ójöfnuð. Hins vegar, í sögulegu samhengi er þessi bylting í raun framhald af öllum þeim miklu tækniframförum sem heimurinn hefur upplifað um langan tíma og hefur fært okkur ómælda velmegun. Fjórða iðnbyltingin felur í sér fjölmörg tækifæri á mörgum sviðum og ætti að veita mönnum von og bjartsýni.

Þeir sem fæddir voru á síðari hluta 20. aldar hafa eflaust ekki áttað sig á því að þeir voru í þriðju iðnbyltingunni sem þá var kölluð upplýsingatæknibylting. Iðnbyltingin sem hefst um 1760 og stendur til 1840, var tímabil vélvæðingar með vatnsaflsvirkjunum og síðar gufuorku ásamt eimreiðum. Rafmagn, olía og bílar voru einkenni annarrar byltinga á síðari hluta 19. aldar. Á eftirstríðsárunum er svo þriðja, upplýsingatæknibyltingin áðurnefnda.

Ef einhver tækni getur markað upphaf þeirra framfara sem við upplifum núna má nefna áhrifaríkan fyrirlestur í San Francisco þann 9. janúar árið 2007. Þá fór Steve Jobs á svið og kynnti nýjan farsíma frá Apple. Sá sími breytti ekki aðeins farsímabransanum á örfáum árum, hann breytti heiminum.

Snjallsíminn er nú stór hluti af okkar lífi. Að meðaltali snertir fólk símann sinn 2.617 sinnum á dag. Hann gefur okkur aðgang að fréttum, samskiptum, afþreyingu, tónlist, hljóðbókum, mat, leigubílum, strætó og svo framvegis. Þetta tæki er myndavél, vasaljós og hallamál. Telja má upp tugi tækja sem snjallsíminn leysti af hólmi. Önnur eins af-efnisvæðing hefur ekki sést. Við erum að fara frá heimi þar sem fólk átti alls konar hluti í heim þar sem fólk hefur aðgang að þjónustum. Eignalaus lífsstíll.

Það sem gerir snjallsímann öflugan er hugbúnaður. Bæði hugbúnaður sem við keyrum á tækjunum okkar sem og skýjaþjónustur. Með þeim fáum við forrit eins og Snapchat, Whatspp eða Google Maps. Skýjaþjónustur eru eitt skýrasta einkenni þess að fjórða iðnbyltingin byggir á hugbúnaði. Hlutir eins og tónlist, bækur, tímarit, reikningar, fundarboð og umsóknir eru stafræn og allt sem er stafrænt verður að gögnum fyrir hugbúnað. Þetta mun halda áfram og samskipti við stofnanir, banka og verslanir verða meira stafræn og byggja á gervigreind.

Gervigreindin hefur lengi verið í þróun. Undanfarin ár hafa orðið miklar framfarir í ákveðinni tegund gervigreinar, svokölluðum tauganetum og sérstaklega djúpnámi. Með djúpnámi, tugum þúsunda af öflugum netþjónum í gagnaverum og miklu magni af gögnum (big data) er hægt að þjálfa þessi kerfi til að leysa ýmis verkefni. Slík gervigreind hentar vel til að greina munstur eins og þekkja hluti sem eru á mynd, þýða texta frá einu tungumáli á annað, skilja mælt mál eins og Siri, Alexa og Assistant gera.

Gervigreindin getur afgreitt lánaumsóknir, farið yfir nemendaverkefni og borið kennsl á starfsmann sem mætir til vinnu. Í matvælaiðnaði getur gervigreind ákveðið hvaða fiskflök, kjötsneiðar eða ávextir eru ekki í lagi og þarf að fjarlægja. Í heilsugæslu má nota gervigreind til að greina sjúkdóma, skoða röntgenmyndir og fylgjast með sjúklingi í eftirmeðferð. Sjúklingar eru mældir í rauntíma og gervigreind fylgist með og lætur lækni vita ef þurfa þykir.

Tölvur fylgja lögmáli Moores um tvöföldun afkastagetu þeirra á um átján mánaða fresti. Það heldur áfram en fyrir nokkrum árum fór lögmálið á haus og í stað þess að tvöfalda afkastagetu þá minnkar kostnaður um helming á átján mánaða fresti sem þýðir að verð á örgjörva er óverulegur.

Það leiðir af sér að öflugir og smáir örgjörvar munu verða hluti af áþreifanlegum vörum á næstu árum. Slíkt er kallað hlutanetið eða „Internet of Things“ og felst í að setja lítil tæki með skynjara og örgjörva ásamt netbúnaði á hluti og tengja þá þannig við netið. Þegar bílar, hús, ljósaperur, hátalarar, sjónvörp, gleraugu, stólar og aðrir hlutir eru með örgjörva þá verða þessi tæki grunnur sem hægt er að forrita lausnir ofan á. Þannig er hægt að forrita hús, bíla og allt sem okkur dettur í hug.

Róbotar 21. aldarinnar skynja umhverfi sitt. Þeir hafa sjón og bera kennsl á hluti. Þeir hafa heyrn og því er hægt að tala við þá. Róbotar geta verið færanlegir eða ófæranlegir. Þá síðarnefndu má koma við færiband og þeim falið ákveðið verkefni. Róbotar sem geta fært sig eru til dæmis spítalaróbotar sem fara um spítalann með aðföng fyrir starfsfólk og sjúklinga. Róbotar eru líka komnir inn á heimili fólks og geta átt við þau samræður, leiðbeint og aðstoðað.

Ómönnuð flugför hafa lengi verið til. Núna er komin kynslóð dróna sem notaðir er í iðnaði. Dæmi um notkun eru björgunarsveitir sem senda dróna með hitamyndavél til að leita að fólki, drónar sem taka myndir og kvikmyndir, og drónar við öryggiseftirlit. Einnig eru drónar notaðir í Reykjavik við flutning á vörum milli borgarhluta. Slíkt mun aukast og flugbílar munu ferja fólk milli staða. Flugvöllum í Reykjavík ætti að fjölga verulega.

Þegar rætt er um fjórðu iðnbyltinguna er spurningin um áhrif á störf ekki langt undan. Ef róbotar og gervigreind verða allsráðandi verður maðurinn ekki óþarfur? Ráðgjafar, læknar, kennarar verða settir af þar sem gervigreind getur unnið þeirra störf betur en þeir. Róbotar vinna í verksmiðjum í stað verkamanna.

Það væri ótrúlegt ef gervigreind og sjálfvirknivæðing myndi ekki hafa áhrifa á meirihluta stafa. Læknir sem notar gervigreind til að greina sjúkdóma, klippari notar rafrænt bókunarkerfi og kennari notar gervigreind til að fara yfir verkefni.

Hins vegar er ekkert sem bendir til þess að stórkostlegt atvinnuleysi sé framundan. Breytingar taka tíma, viðhorf breytast hægt og innleiðing nýrra lausna er tímafrek. Líklega má gera ráð fyrir að fyrirtæki mun hagræða og reyna að aðlaga starfsemi sína. Óhjákvæmilega munu störf hverfa, önnur breytast verulega og slíkt verður áskorun fyrir marga. En ný störf, hugsanlega verðmætari verða til. Það sem meira er, með fjórðu iðnbyltingunni getum við leyst mörg vandamál sem áður voru of erfið, gert lífið einfaldara og betra. Það er til mikils að hlakka til. Framtíðin er björt.

Höfundur: Ólafur Andri Ragnarsson, aðjúnkt við Háskólann í Reykjavík