Þessi síða notar kökur (e. cookies) til að auðvelda þér að vafra um vefinn.

Wednesday, 15 January 2020 21:58

Hagnýting gagna – framtíðin 2030

GettyImages 917581126.0Nú er jólafríinu lokið, allt komið á fulla ferð á nýju ári og þá er komið að fyrsta hádegisverðarfundi Ský þetta árið sem var haldinn 15. janúar. Fundurinn var fjölmennur enda efnið spennandi og ætla ég að rekja hér helstu atrið fyrirlestranna.

Dr. Yngvi Björnsson, prófessor við tölvunarfræðideild Háskólans í Reykjavík, var fyrstur í pontu með fyrirlesturinn Gagnavísindi 101 - gervigreind 101. Hann byrjaði á að skoða einfalda skilgreiningu á gervigreind eða Fræðin og tæknin við að útbúa tölvukerfi sem geta framkvæmt verk sem að jafnaði krefjast mannlegrar greindar með áherslu á að kerfin verði að getað skynjað og skilið umhverfi sitt, tekið sjálfstæðar ákvarðanir og lært af reynslunni. Hann benti á að upphaf gervigreindar má rekja til um 1950 og er nafnið AI frá 1956 þegar bjartsýnar hugmyndir komu fram um að það væri lítið mál að búa til skákforrit sem gerði betur en þeir bestu í faginu. Uppsveiflu og niðursveiflur hafa síðan verið í faginu. Síðasta uppsveifla hófs um 1997 með Deep Blue skáktölunni þar sem nær 50 ára draumar rættust og í dag er mikilli bjartsýni á möguleika AI. En í raun þá hefur lítið breyst nema öflugri tölvur og meiri gögn sem hafa nýst mjög vel í sérhæfð verkefni, en það er enn erfitt fyrir tölvukerfi að skilja umhverfi sitt og bregðast við. Yngvi gaf ýmis skemmtileg dæmi tengd sjálfkeyrandi bílum. Hann ræddi síðan um gagnavísindi og hvernig gögnum er breytt í verðmætar upplýsingar og þar hefur lítið þjóð samkeppnismöguleika því það er þekkingin sem gildir en ekki mannaflinn. Að lokum leit hann með jákvæðni til framtíðar með þessari tilvísun Machines will be capable, within 20 years, of doing any work a man can do sem er reyndar frá 1956, því það hefur nú ekki svo mikið breyst eða hvað?

Næstur var Tómas Helgi Jóhannsson, gagnagrunnstjóri hjá Reiknistofu bankanna með fyrirlesturinn Framtíð gagnagrunna í nútíma samfélagi. Hann byrjaði að skilgreina hvað gagnagrunnur er og síðan tegundir fyrirspurnar eða transactional (OLTP) og analtical (OLAP). Megin efnið var þróun í gagngrunnum frá því um 1960 og fjallaði hann um töflugagnagrunna, skemalausa gagnagrunna (NoSQL), hlutbundna gagnagrunna, InMemory gagnagrunna, Hybrid gagnagrunna-HTAP og Cluster gagnagrunna og vísa ég hér í glærur Tómasar með nánari útlistanir á þeim. En einkenni á þessari þróun er að hraði flókinna fyrirspurna hefur aukist gífurlega eða úr klukkustundum í sekúndur. Síðan fjallaði hann um dreifingu gagna og áhrif Internetsins og snjalltækja. Einnig kom hann inn á Gerivigreind (AI ) í gagnagrunnum og leit að lokum til framtíðar.

Þá kom í pontu Hafsteinn Einarsson, Íslandsbanka, með fyrirlesturinn Hvenær getum við treyst gervigreindar hugbúnaði? Hann hóf fyrirlesturinn með dæmi um framfarir í gervigreind en lagði síðan áherslu á hvernig oftrú getur verið hættuleg. Dæmið sem hann tók var um sjálfvirknivæðingu á ýmsum sviðum sem snýr t.d. að mannaráðningum, fangelsisdómum, lánveitingum, inntöku í háskóla og heilbrigðisþjónustu. Hann varaði við að almenningur teldi að miklar framfarir verði á næstu 10 árum á meðan sérfræðingar gefa þeim að minnsta kosti 50 ár og að oft væru fyrirtæki að notfæra sér trúgirni, ekki bara almennings, heldur einnig stjórnanda annarra fyrirtækja. Hann benti líka á hvernig fordómar þeirra sem hanna hugbúnað getur haft áhrif á virkni hans t.d. hugbúnað sem ráðleggur dómurum í Bandaríkjunum og hvernig hærri upplausn á myndgæðum við ómskoðun á fóstrum geti leitt til ofgreiningar á vandamálum. Að lokum hvatti hann til þess að við notum gagnrýni og almenna skynsemi og spyrjum okkur: Hver mun njóta góðs af lausninni?, Hver gæti borið skaða af henni?, Hvaða félagslegu áhrif mun hún hafa?,  Hvernig samræmast svör ofangreindra spurninga okkar gildum? og Leysir lausnin vandamál sem virðist okkur ómögulegt að leysa?. Hann lagið áherslu á mikilvægi tilrauna og endurtekinna prófana og að nýta vel ráðgjöf og reynslu annarra.

Fjórði fyrirlesarinn var Guðmundur Jósepsson, Miracle með Í upphafi skyldi endinn skoða, sem hófst á umfjöllun um Luddistar í Englandi sem brutu vélar og tæki því þeir töldu þær taka vinnuna frá sér. Þá fjallaði hann um tölvuleikjakeppni og hvernig einstaklingarnir, goð, sem þar keppa ættu sína aðdáendur og því gætu tölvur ekki komið í staðin fyrir þá þó að þær gætu spilað leikina mun betur, mannlegi þátturinn skiptir máli. Hann nefndi dæmi um hvernig reynt er að mann-gera vélar, gæða þær mannlegum eiginleikum, t.d. í bíómyndum, til að við samsömum okkur betur við þær. Hann benti á, þegar hann leit til framtíðar, hvað það er og hefur verið erfitt að sjá fram í tímann og gaf skemmtilegt dæmi um hesta sem voru helst aflgjafar faratækja fyrir þar síðustu aldamót og framtíðarspár þá voru að heilu borgirnar myndu grafast undir hrossaskít. En sú varð ekki raunin því ný tækni kom og leysti hestinn af hólmi, reyndar með nýrri mengun en það er önnur saga. Þetta leiddi síðan til frásagnar af skíðaferðum Guðmundar til að leggja áherslu á að þegar nýjungar eru kynntar til leiks þá þarf að hafa plan og fá fólk með okkur, ekki bara skella á breytingum þannig að allt fari í upplausn. Að lokum fjallaði hann um hvaða eiginleikum verið er að leita eftir við ráðningar og nefndi þar sköpunargleði, sannfæringarkraft, samvinnu, leiðtogahæfileika, teymisvinnu og tilfinningar sem skólakerfið mætti ekki vanrækja að þroska hjá nemendum. Lokaorðin voru: Don’t be too proud of this technological terror you’ve constructed með mynd af Svarthöfða.

Síðasta fyrirlesturinn hélt Heiða Dögg Jónsdóttir, tölvunarfræðingur og sérfræðingur á heilbrigðislausnasviði hjá Origo, og hét erindið Gagnasýn til góðs – lyfjaávísanir í nýju ljósi. Grunntónninn var að sýklalyfjaónæmi er Ein mesta lýðheilsuvá sem mannkynið stendur frammi fyrir í dag. Hún byrjaði á að segja frá verkefninu STAMA Strategigruppen för rationell antibiotika-användning och minskad antibiotikaresistens sem hófst 1995 í Svíþjóð og er fyrirmynd að verkefni er hófst hér á landi árið 2017, eftir undirbúning frá 2014, innan Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins (HH) í samstarfi við Embætti landlæknis og Landspítala. Virkt eftirlit hefur verið í áratugi en með nýrri tækni er hægt að nýta gögnin ekki aðeins  til að fylgjast með, heldur einnig til að draga úr og stýra ávísun lækna á sýklalyf. Nánari úrfærslu má sjá á glærum hennar. Það var áhugavert að sjá hvernig núna er hægt með hugbúnaðinum Gagnasýn að skoða t.d. lyfjaávísun eins læknis miðað við aðra lækna á sama tíma, hvaða lyfjum er verið að vísa og til hvaða aldurshópa. Að lokum langar mig að taka nokkrar staðreyndir úr fyrirlestir Heiðu Daggar: Á Íslandi er ávísað 2 sinnum meira af sýklalyfjum en í Svíþjóð, Ávísanir til barna 0-4 ára eru næstum 3 sinnum fleiri en í Svíþjóð! og Við ávísum 20 sinnum meira af breiðvirkum sýklalyfjum en Svíar!

Þá vil ég nefna að fundarstjórn Þórdís Magnúsdóttur frá Advania var góð, en því miður var ekki tími fyrir spurningar í lok fyrirlestranna.

Þessi samantekt er byggð á minni mínu og glærum fyrirlestara sem finna má hér.

Myndin er fengin hér.