Þessi síða notar kökur (e. cookies) til að auðvelda þér að vafra um vefinn.

18.02.2020

Geymdar eða gleymdar minningar

BjargeyMér finnst ekki nema örfá ár síðan við stelpurnar á skrifstofunni sátum við ritvélar og pikkuðum bréf í tvíriti með kalkipappír á milli. Settum svo frumritið í umslag, vélrituðum nafn viðtakanda og heimilisfang utan á. Frímerki efst í hornið hægra megin. Umslagið í póst. Afritið var síðan gatað, stimplað, dagsett, sett í möppu og síðan í skjalasafn sem skipulagt var í sérstöku skjalavörslukerfi, oftar en ekki af sérstökum starfsmanni sem bar hið virðulega starfsheiti skjalavörður. Geymt þar um nokkurra ára skeið, síðan sett í kassa ofan í kjallara ásamt öðrum afritum af öðrum bréfum. Síðan jafnvel á Þjóðskjalasafnið. Allt geymt, vel og vandlega, um ókomna tíð. Þvílíkt góss fyrir sagnfræðinga að grúska í!

Í dag notum við samskiptamiðla til að hafa samskipti við annað fólk; Facebook, Messenger, Twitter, Instagram, Snapchat. Stundum sendum við tölvupóst (sem er nú eiginlega orðið úrelt). Eða hringjum (sem er eiginlega líka að verða úrelt, a.m.k hjá yngstu kynslóðinni). Eða sendum sms (líka að verða úrelt). Einstaka sinnum skrifum við bréf á tölvuna og sendum sem viðhengi með tölvupóstinum. Aðallega í vinnunni. Og viðhengið vistum við væntanlega á harða diskinn.

En hvernig geymast þessar upplýsingar? Í hverju munu sagnfræðingar framtíðarinnar grúska? Hörðum diskum; geisladiskum; gagnaskýjum? Tölvum með úreltum stýrikerfum sem engin leið verður að opna? Eða lykilorðið að skýinu týnt. Þeir sem eru komnir nokkuð við aldur muna kannski eftir „floppy“-diskettunum svokölluðu sem voru notaðar í byrjun tölvualdar. Í dag eru þær ólæsilegar nema hjá þeim örfáu nördum sem geymdu gömlu tölvurnar sínar. Engin nýleg tölva hefur lengur drif fyrir „floppy“-diskettur eða disklinga. Og varla heldur geisladrif, þau eru líka að detta út. Og hvað verður þá um allar myndirnar okkar á geisladiskunum?

Á fyrstu árum tölvusamskipta var ekki óalgengt að fólk prentaði út tölvupóstinn sinn. Setti blaðið svo samviskusamlega í möppu. Á skrifstofum þurfti reyndar að gera það án aðstoðar, einhvern tíman hvarf nefnilega skjalavörðurinn. Svona eins og bensínafgreiðslumaðurinn hvarf í sjálfsafgreiðsluvæðingunni og gjaldkerarnir hverfa einn af öðrum í bönkunum og krökkunum á kössunum fækkar í Bónus. Eins og þetta eru nú nauðsynlegt störf. En það eru allir löngu steinhættir að prenta út tölvupóst. Reyndar vistar maður viðhengið stundum í tölvunni. En bara á harða diskinn eða netþjóninn. Sem verður svo einhvern tíma úreltur. Eða hrynur. Nú seinni ár hafa líka heyrst æ háværari raddir sem predika pappírslaust þjóðfélag. Segja okkur eyða skógum og skemma náttúru með allri þessari pappírsnotkun. Svo við megum eiginlega ekki prenta neitt út.

En hvernig eigum við þá að geyma gögnin okkar? Hvaða gagn er að upplýsingatækni ef við finnum ekki upplýsingarnar þegar við þurfum á þeim að halda? Og hvað gera sagnfræðingarnir ef þeir komast ekki í neinar heimildir?

Ég hef í sjálfu sér enga lausn á málinu en það veit ég að ekkert hefur enn verið fundið upp endingarbetra en pappír til að geyma ritað mál og myndir. Kálfskinnið var reyndar nokkuð gott, handritin okkar hafa varðveist ótrúlega vel og svo voru það auðvitað steintöflurnar með myndletrinu og rúnunum í fornöld. Þær entust!

Flest það sem fundið hefur verið upp á okkar dögum til að geyma gögn, sama hvort það er ritmál, myndmál eða tónlist, þarfnast einhvers konar tækja til skoðunar. Segulbandsspólur, vinyl-hljómplötur, myndbönd, disklingar, geisladiskar, dvd-diskar, ipod, ipad, snjallsímar; allt krefst þetta tækjabúnaðar sem úreldist jafnóðum og hann er búinn til.

Eru til lausnir? Þurfum við kannski bara að hverfa aftur til sagnahefðarinnar og munnlegrar geymdar? Kannski mun ekkert varðveitast frá þessu tímabili í mannkynssögunni nema það sem við leggjum á minnið og getum sagt öðrum frá.

Mér finnst við hæfi að hafa þetta lokaorðin í pistli um upplýsingatækni. Og svolítið skemmtilegt mótvægi við alla umræðuna um tækin og tæknina. Við lifum og hrærumst í tækniveröld. Meira að segja peningarnir okkar eru bara tölur á tölvuskjá. Sumir myndu kannski kalla mig svartsýnismann en mér finnst þessi þróun satt að segja töluvert áhyggjuefni og skil ekki af hverju málið fær ekki  meiri umfjöllun í samfélaginu. Þetta snertir okkur jú öll. Það er nokkuð ljóst að upplýsingabyltingin mun ekki hafa minni áhrif á mannkynið en iðnbyltingin. Og það verður víst ekki aftur snúið.

Höfundur: Bjargey Gígja Gísladóttir, framhaldsskólakennari / prentsmiður

Lesið 79 sinnum