Þessi síða notar kökur (e. cookies) til að auðvelda þér að vafra um vefinn.

25.02.2020

Var - er – verður

lara„Hvernig geymslu ertu með fyrir farsímana í kennslustofunni hjá þér?“, kliður „hvernig reiknivél mælir þú með fyrir þína nemendur?“. „Nemendur handreikna hjá mér og ég vil helst að þeir noti ekki strokleður, þetta á að vera rétt.“ „Fuss, nemendur kaupa ekki reiknivélar fyrir fimmþúsundkall þau kaupa app í símann fyrir dollar og nemandinn notar hann í náminu þá þarf ekki farsímageymslu.“ Sumir hristu hausinn og ræddu „alvöru nám“. Þessi samræða átti sér stað meðal kennara haustið 2019.

Það sem var - er alvöru, það sem er - truflun og það sem verður - ekki til. Mælistikur fortíðarinnar á nám nútímans sem á að gagnast í framtíðinni eru vart til eða rangar. Eins og mæla þyngd vatns með sirkli eða vindhraða með reglustiku. Samt er skiljanlegt að fólk mæli út frá því sem það þekkir og það veit hvað það lærði einhvern tímann og hvernig það gagnaðist þeim út frá því sem það hefur starfað við. Hinsvegar vill gleymast hvað hefur breyst á starfstímanum og því ekki endilega ákjósanlegt að það þurfi í gegnum sama námsferli. Það er erfitt að spá og sérstaklega fram í tímann. En við getum lesið nútímann, glöggvað okkur á hversu margir reikna allt án strokleðurs í höndunum. Við vitum líka muninn á þeim sem nota verkfæri farsímans til gagns og þeim sem gera það ekki. Ljóst er að líklegra er að það sem verður líkist meira því sem er, en því sem var.

Íslenska framhaldsskólakerfið er líklega eitt sveigjanlegasta skólakerfið í heimi í dag. Skólarnir hafa tök á því að þróa nám og kennslu í takt við það sem er að gerast í ríkara mæli en nokkru sinni. Tilhneiging sumra er eðlilega að vilja halda fast í það sem var en sjá ekki tækifæri í því sem er. Til dæmis er mögulegt að hafa meira tungumálanám í stúdentsprófi en nokkru sinni. Þar er hægt að byggja inn nám bæði heima og erlendis, fara í ferðir með nemendum og byggja býsna góðan grunn undir háskólanám. Af 200 eininga stúdentsprófi er heimilt að hafa allt að 191 einingu í tungumálum, íslensku og erlendum málum. Með aðferðafræði sem kallast Clil má samþætta nám í erlendum málum við vísindi, sögu og margt fleira þar sem viðfangsefnin í tungumálanáminu geta tengst nánast hverju sem er. Á sama hátt má efla raungreinanám í að vera allt að 153 einingar af 200 eininga stúdentspróf. Til að búa til stúdentspróf miðað við nútímann eða framtíðarsýn þarf áræði og menntunarfræðilega þekkingu. Eiginleikar sem íslenskir kennarar búa yfir og fá nú í nýju kerfi svigrúm til að beita. En breytingar taka tíma og enn halda sumir dálítið fast í það sem var, af því það gagnaðist þeim á öðrum tíma, í annars konar samfélagi. Þá voru ferðalög ekki eins lipur og tæknin sem styður við nám af þessu tagi ekki fyrir hendi. Ekki er þó verið að halda fram í þessari grein að þetta séu endilega eftirsóknarverð stúdentspróf því margt spilar þarna inn í sem ekki er tími til að ræða í þessari grein en ljóst að svigrúmið til að takast á við breytingar samfélagsins á síðustu og næstu árum er gott og möguleikarnir sannarlega fyrir hendi.

Við í Menntaskólanum á Tröllaskaga höfum verið að þróa nám og spreyta okkur á annarri nálgun en hefðbundið er. Þannig hafa greinar verið samþættar og inn í þær tvinnað nám erlendis. Til dæmis spænska og íþróttir þar sem nemendur stunduðu að hluta til nám sitt á Spáni. Mat, menningu og tungumál stundum í samstarfi við íbúa landsins er fæddust í öðrum löndum. Við notum yfir 150 smáforrit, forrit og fleira í námi við skólann. Þróum fjarvinnu og fjarsamstarf bæði meðal starfsmanna og nemenda. Leggjum áherslu á frumkvæði, sköpun og áræði, við teljum að eiginleikinn að læra að læra sé mikilvægastur því breytingar samfélagsins og tækninnar sé og verði það miklar að hver nemandi okkar verði námsmaður fyrir lífstíð. Við sjáum símann, spjaldtölvuna og tölvuna sem námstæki og við sjáum nemendur okkar nýta þessi tæki sem slík af því að námið er þannig uppbyggt. Þau þurfa að vinna með þessi tæki í viku hverri til að leysa fjölbreytt viðfangsefni af ýmsu tagi með þeim verkfærum sem við bendum á en einnig að finna sér verkfæri í ýmsum hugbúnaði sem við starfsmenn þekkjum ekkert endilega en lærum þá á hann um leið og þau. Skólinn er námssamfélag nemenda og starfsmanna í heimi sem breytist hratt og við erum að undirbúa ungt fólk fyrir þannig samfélag en ekki samfélag fortíðarinnar.t1

Þær breytingar sem nú standa yfir í samfélaginu varðandi notkun verkfæra upplýsingatækninnar eru í sjálfu sér ekkert nýtt. Þegar ég var í framhaldsskóla voru engar tölvur, nýbreytnin í Samvinnuskólanum á Bifröst var að kaupa sér rándýra reiknivél og láta sig dreyma um rafmagnsritvél um leið og maður barði inn 4 síður fyrir hver skil á ritvélina sína. Þessi þekking gagnast sannarlega í dag því ég er fljót að pikka inn texta, stundum kannski allt of fljót því ég er ekki búin að hugsa. En það breytir því ekki að þegar ég horfi á starf mitt í dag í skóla sem er með kennara sem mæta til vinnu í nærverum (Beam) frá Gautaborg, Reykjavík eða Borgarnesi, starfsmannafundi sem eru bara á netinu, nemendur sem vinna sjálfstætt við tækin sín, þá er það geimferð frá því námi sem ég þekkti í framhaldsskóla. Líklegt má telja að nemendur mínir horfi á nám sitt í dag og hristi hausinn yfir því hversu fornfáleg verkfærin voru þegar þau eru komin á minn aldur. En hafi þau lært að læra, hafi frumkvæði, séu skapandi og búi yfir áræði til að takast á við þær breytingar þá trúi ég því að þeim farnist vel og hafi lært hæfni í námi sínu sem gerir þeim kleift að fást við líf sitt í sátt við miklar breytingar.

Höfundur: Lára Stefánsdóttir, skólameistari Menntaskólans Tröllaskaga

Mynd 6

Lesið 570 sinnum