Þessi síða notar kökur (e. cookies) til að auðvelda þér að vafra um vefinn.

18.06.2020

Heilsa og tækni

asrun 13035Þema Tölvumála í ár er Heilsa og tækni í víðu samhengi og verður áhugavert að lesa þær greinar sem berast í blaðið. Framfarir í stafrænni tækni hafa sífellt meiri áhrif á heilsugæslu og heilsueflingu, s.s. gervigreind, sýnarveruleikai(VR), viðbættur veruleiki (AR) og þrívíddarprentun. Við þurfum að vera tilbúin að kynna okkur nýjustu tækniþróunina til að geta metið hvernig hægt er að nýta hana í þágu framfara. Við getum ekki gleymt okkur í hræðslu við að sjálfvirkni taki yfir störf og að gervigreind stjórni fljótlega heiminum. Við þurfum að stýra tækninni í átt til umbóta fyrir okkur öll og þá sérstaklega tengt heilsu og velferð, við megum ekki óttast hið óþekkta, framtíðina.

Hér ætla ég að fjalla lauslega um nokkur hugtök og hugmyndir sem tengjast þessum umbreytingum, en tek fram að ég er ekki sérfræðingur á þessu sviði og vona að við fáum greinar í blaðið sem fjalla ítarlegar um þetta efni.

Rafræn sjúkraskrá

Hér er upplýsingum um sjúklinga safnað saman og skráð í rafrænt heilbrigðisupplýsingakerfi sem meðferðaraðilar hafa aðgang samkvæmt ákveðnum reglum og skilgreiningum. Sjúkraskárin getur verið bundin við eina stofnun en algengara að hún sé samtengd með rafrænum aðgangi á hvaða heilbrigðistofnun sem er. Sjúkraskrá samanstendur af mörgum sértækum kerfum eins og almennu kerfi (Journal kerfi), lyfjafyrirmælakerfi, rannsóknastofukerfum, myndgreiningarkerfi, skurðstofukerfi, bókunarkerfi o.fl. [1].   

Rafræn lyfjaskrá og lyfjagagnagrunnu

Hér er bakgrunnurinn lyfjagagnagrunnur landlæknis frá 2005 sem hefur verið endurnýjaður og uppfærist í rauntíma. Grunnurinn inniheldur upplýsingar um ávísaða rafræna lyfseðla og allar afgreiðslur á lyfseðlum á landinu utan sjúkrahúsa [2].

Sjálfsafgreiðsla

Hér er á ferðina margskonar þjónusta allt frá skjálausnum, þar sem notandinn skráir sig sjálfur inn á stofnun eða í tíma hjá heilbrigðisstarfsmanni, til veflausna eins og Heilsuveru þar sem hægt er að endurnýja lyfseðla, panta tíma og spyrja ráða. Stundum krefst kerfið mannlegra svara eins og afgreiðsla lyfja, en oft er þetta einfalt sjálfvirkt skráningarkerfi sem sendir upplýsingar á milli kerfa og til einstaklinga.

Fjarlækningar/fjarheilbrigði

Hér er fjarskiptatæknin notuð til að efla heilsugæslu og aðgengi að heilbrigðistarfsfólk. Fjarlækningar nýtast mjög vel í strjálum byggðum þar sem erfitt getur verið að fá heilbrigðisþjónustu en getur auðvitað líka nýst í þéttbýli til að einfalda öll samskipti og nýta sérfræðinga (sérfræðiþjónustu) sem best. Sjúklingar nýta þá tæknina til að vera í samskiptum við lækna og annað heilbrigðistarfsfólk og heilbrigðisstarfsmenn geta sinnt margskonar meðferð og aðstoð í gegnum sérhönnuð kerfi. Ekki má gleyma að kostnaður er mun minni, sérstaklega fyrir sjúklinga sem geta sparað sér dýr ferðalög.

Fjarvöktunartæki eða mHealth

Hér fylgist sjúklingur með heilsu sinni heima, s.s. hjartslætti og blóðþrýstingi, skráir sína líðan eða skráningin er sjálfvirk með margskonar mælitækjum og eru gögnin síðan send til heilsugæslustöðva. Greining gagnanna og viðbrögð getur síðan farið fram með aðstoð mannlegrar- og  gervigreindar. Þessi tækni er frábær fyrir sjúklinga með langvarandi sjúkdóma þar sem hægt er að fylgjast með heilsu þeirra úr fjarlægð.

Klæðanleg tækni (wearable)

Hér er átt við tæki eins og armbönd, úr eða önnur snjall tæki sem einstaklingar gera haft á sér og mæla margskonar lífsmörk og athafnir. Einnig er hér átt við fatnað sem er gerður úr snjallefni (smart materials) sem er í hraðri þróun og geta (og munu geta) þessi efni haft margskonar samskipti við líkamann og skráð upplýsingar og miðlað.  Þróunin er hröð og má nefna að e-textíll getur verið í  formi snjallflíka (e. smart garments), rafræns textíls (e. electronic textiles), snjalltextíls (e. smart textiles) og snjallefna (e. smart fabrics) [3]. Mikil gagnasöfnun á sér stað með klæðanlegri tækni og þróun hugbúnaðar þar í kring sem vinna þarf hratt og vel úr.

Internet hlutanna (Internet of things, IoT)

Hér eru við með margskonar tækni sem nýtt er t.d. í fjarvöktun og er oft talað um Internet of Medical Things (IoMT). Þessi tæki geta t.d. greint hvort einstaklingur dettur og mögulega gert það að verkum að eldri einstaklingar eða sjúklingar með skerðingu á jafnvægi geta lifað sjálfstætt lengur. Önnur tæki veita áminningar um lyf og aðstoða sjúklinga við að fylgja fyrirmælum lækna. Hér má líka nefna snjallgleraugu eins og Google Glass eða Microsoft HoloLens sem er jafnvel hægt að nota við skurðaðgerðir. Margt af þessu er einnig hægt að nálgast í snjallsímum. Þróunin er hröð og sífellt að koma fram betri tæki og hugbúnaður.

Gervigreind nýtt í greiningu

Rannsóknir hafa sýnt að gervigreind getur hjálpa við að greina sjúkdóma og oft með mikilli nákvæmni og dregið úr líkum á rangri greiningu. Mikil þróun á sér stað á þessu sviði en ekki með því markmið að gervigreind taka við hlutverki lækna heldur til að hjálpað til við skilvirkari greiningar [4]. Einnig er gervigreind mikið notuð í lyfjaþróun og margskonar rannsóknum.

Persónulegt erfðamengi

Þó að greining á erfðafræðilegum upplýsingum fyrir einstaklinga sé enn tiltölulega ungt fyrirbæri er talið að einn daginn gæti það verið lykilatriði í daglegri heilsueflingu. Persónulegt erfðamengi afhjúpar mikið af upplýsingum sem varða lífeðlisfræðilega þætti sem gera okkur kleift að skila betur t.d. hvað sjúkdómum við erum viðkvæm fyrir eða hvernig við bregðumst við lyfjum. Möguleikarnir eru næstum óteljandi því upplýsingarnar eru svo yfirgripsmiklar [5].

Hér er ég búin að gefa smá innsýn í það sem er í notkun og verið að þróa en margt er ónefnt, s.s. Heilsugátt sem veitir meðferðaraðilum aðgang að klínískum upplýsingum úr ýmsum hugbúnaðarkerfum Landspítalans, rakningarappið fræga og róbótar sem notaðri eru á skurðstofum svo eitthvað sé nefnt. Það verður spennandi að lesa Tölvumál í haust þar sem verður fjallað nánar um það sem hér er upptalið og margt annað tengt Heilsu og tækni.

Gleðilegt sumar!

Höfundur: Dr. Ásrún Matthíasdóttir, lektor við Háskólann í Reykjavík og ritstjóri Tölvumála

[1] https://www.landlaeknir.is/um-embaettid/greinar/grein/item20338/Spurningar-og-svor-um-rafraena-sjukraskra

[2] https://www.landlaeknir.is/tolfraedi-og-rannsoknir/gagnasofn/gagnasafn/item12455/

[3] https://skemman.is/bitstream/1946/28049/1/BA-LOKARITGER%C3%90%20.pdf

[4] https://healthcareinamerica.us/6-health-care-advancements-paving-the-way-for-the-future-9a158453b28d

[5] https://www.yourgenome.org/stories/personal-genomics-the-future-of-healthcare

Lesið 481 sinnum