Þessi síða notar kökur (e. cookies) til að auðvelda þér að vafra um vefinn.

Mismunandi notkun samfélagsmiðla milli kynslóða

Hildur Lovísa Hlynsdóttir 1703982119Um daginn horfði ég á myndina Social Dilemma á netflix sem fjallaði um samfélagsmiðla og hvernig einstklingurinn er í raun vara fyrirtækjanna (Rhodes, 2020). Þetta kom mér ekki á óvart og hefði ég haldið að flestir átti sig á því að ef smáforritið er frítt þá eru það auglýsingar til notenda sem veita fyrirtækjum hagnað, en ekkert fyrirtæki lifir af án innkomu. Þarna fór ég að velta fyrir mér hvernig kynslóðir upplifi samfélagsmiðla og hvort áhrif þeirra séu mismunandi, í tíma um daginn spurði kennari „þegar þið takið sjálfsmynd, hvert setjiði hana?“ einn aðili í bekknum nefndi Facebook story og heyrði ég undrun í kring um mig.

Ég er af kynslóð Z, þeir sem eru fæddir á árunum 1997-2012 (Dimock, 2019), þegar ég er um 10 ára fara fyrstu snjallsímarnir að koma á markað hér á landi og má því segja að ég hafi alist upp að hluta til í gegnum snjallasíma. Frænka mín sem er fædd árið 1981 er sögð af kynslóð Y sem eru þeir sem eru fæddir 1980-1997, þegar snjallsímar koma á markað er hún um 29 ára gömul og ólst því ekki upp með þessa tækni. Ég fór því að velta fyrir mér til dæmis muninum á okkur tveimur.

Þegar ég byrja á samfélagsmiðlum var ég 12-13 ára gömul og fékk instagram fyrst og seinna meir Snapchat og facebook. Hvort það var með leyfi foreldra eða ekki, man ég ekki. Enga síður voru flestar vinkonur mínar á þessum miðlum og voru þeir einungis notaðir til að taka myndir og setja inn okkur til skemmtunar. Engin okkar var í raun að velta fyrir sér hvernig þessar myndir voru, hverjir sáu þær eða hvaða áhrif þær myndu hafa til lengri tíma. Til að mynda man ég sérstaklega eftir einu skipti þar sem við vorum út á svölunum heima í rigningu seint um kvöld með „glow-stick“ og fannst við virkilega flottar. Ég sé ekki fyrir mér 13 ára litlu frænku mína gera þetta í dag og setja inn á samfélagsmiðla.

Eins og staðan er núna þá hafa samfélagsmiðlar haft þau áhrif á kynslóð Z að við notum þá sem samfélagslegt viðmið og fáum samþykki út frá þeim. Þegar einstaklingur setur mynd inn á instagram í dag þá er allt miðað við Like, ef þú færð ekki nægilega mörg like á myndina þína þá ert þú ekki „samþykkt“ innan þíns félagsramma. Í Social Dilemma segir að þegar búið var til Like takkann þá var til þess að deila gleði og jákvæði á meðal fólks á samfélag-smiðlum. Þeim óraði ekki fyrir áhrifum þessa litla takka á ungmenni (Rhodes, 2020) og því miður er staðan ekki sú í dag.

Ef við lítum síðan á kynslóð Y, sérstaklega fyrri hluta hennar. Sú kynslóð átti í raun barnæsku án allrar helstu tækni sem er notuð í dag, hún ólst ekki upp með síman sér við hlið frá fæðingu eða barnsaldri. Það er því áhugavert að skoða mismunandi áhrif sem þetta hefur, eins og ég sagði frá áðan þá var aðili í tíma sem sagðist setja „sjálfsmyndir í Facebook story.“  Á meðan ég skrifaði þessa grein þá ákvað ég að skoða Facebook, þeir einu sem eru með í story eru einmitt frænka mín og síðan fólk í kring um hana í aldri. Þau virðast minna vera að velta sér upp úr hlutunum, hvort allt sé fullkomið, ein bóla sjáist á enninu eða hvort myndin fái nægilegt magn af like-um og virðast einungis vera að deila því sem þeim þykir skemmtilegt. Ég hvet ykkur eindregið til þess að kikja á Facebook eða Instagram á einhverjum af kynslóð Y og athuga hvort þið sjáið ekki þennan mun. Þau setja inn það sem er raunverulega að gerast hjá þeim en ekki einungis það flotta og fína, þessi samanburður milli vina virðist vera minni, þótt undantekningar séu auðvitað til.

Ég ákvað því að skoða hvort einhver annar hefði velt þessu fyrir sér, trúði ekki að ég hafi verið ein. Mér til mikillar undrunar fann ég engar fræðigreinar sem höfðu skoðað mismunandi áhrif á einstaklinga eftir kynslóðum. Engu að síður fann ég út að ekki nema 36% einstaklinga af kynslóð Z notar Facebook  í hverri viku á meðan 87% af kynslóð Y notar það (Cox, 2019). Þetta gæti til dæmis skýrt munin á því hvers vegna hluti bekkjarinns upplifði mikla undrun þegar einn nemandi sagðist setja myndir í Facebook story. Ungmenni í dag virðast vera mun uppteknari af Instagram, Snapchat og Tiktok, það sem nýtt efni streymir inn hvaðanæva að úr heiminum og ekki einungis meðal þinna nánustu vina.

Þar af leiðandi sjáum við að yngri kynslóðin er passasamari, deilir ekki hverju sem er, vill fá samþykki annara og notar samfélagsmiðla meira sér til skemmtunar. Ég tel að þar gæti hræðsla af höfnun meðal jafningja spilað inn í. Á meðan eldri kynslóðin skoðar minna hvað þau eru að deila og þurfa ekki þetta mikla samþykki í gegnum miðlana, flestir eru jafnvel með lokaða aðganga svo einungis vinir geta séð hvað er sett inn. Enga síður þá hljóta þau að fá þessa „samþykkt“ einhverstaðar annar staðar frá í staðinn. Enn það er annað sjónarhorn á þessa umræðu.

Höfundur: Hildur Lovísa Hlynsdóttir, nemandi við Háskólann í Reykjavík

Heimildir

Cox, T.  (2019, 2. Julí). How Different Generations Use Social Media. The manifest. https://themanifest.com/social-media/how-different-generations-use-social-media

Dimock, M. (2019, 17. mars). Defining generations: Where Millennials end and Generation Z begins. Pew Research Center. http://tony-silva.com/eslefl/miscstudent/downloadpagearticles/defgenerations-pew.pdf

Rhodes L. (framleiðandi). (2020). The social dilemma [kvikmynd]. Netflix.