Þessi síða notar kökur (e. cookies) til að auðvelda þér að vafra um vefinn.

Er “download” flottara en “niðurhal”?

Valgeir nyFrá aldamótaárinu 2000 hefur legið fyrir íslensk þýðing á Windows-stýrikerfinu, algengasta stýrikerfinu í einkatölvum. Mircosoft stóð að þýðingunni í upphafi samkvæmt samningi við menntamálaráðuneytið. Árið 2008 veitti Microsoft yfirmönnum tölvudeilda í grunnskólum Hafnarfjarðar viðurkenningu fyrir að taka upp íslenska þýðingu Windows. Í BA-ritgerð Huldu Hreiðarsdóttur við HÍ í íslensku um notkun íslenskra þýðinga á stýrikerfum í grunnskólum Hafnarfjarðar segir að notkun íslenskunnar hafi aukið sjálfsöryggi nemenda og skilning þeirra á tölvunotkun. Jafnframt virðist sem nemendur í Hafnarfirði hafi notað íslensk orð um tölvunotkun í meiri mæli en nemendur skóla sem notuðu enska útgáfu.

Þegar þetta er lesið má velta fyrir sér hvers vegna notkun íslenskra þýðinga á stýrikerfum eigi undir högg að sækja. Sennilega er líklegasta ástæðan að við tæknimenn og kerfisstjórar forðumst íslenskuna eins og heitan eldinn. Ég finn því miður iðulega fyrir mikilli mótstöðu og neikvæðni hjá minni stétt. Hvers vegna? Kannski þóttu íslensku þýðingarnar í upphafi asnalegar, óþjálar eða lélegar? Eða er ástæðan að tæknimenn þurfa að hugsa meira við leit úrlausna á netinu á tæknivandamálum sem birtast þeim á íslensku? Gagnagrunnurinn með úrlausnum á móðurmálinu okkar ylhýra er ekki stór. Einnig kann tregða notenda við að breyta yfir í íslensku að ráða för. Þar eigum við sölumenn, tæknimenn og þeir sem sjá um uppsetningu tölva ef til vill þátt með því að tala niður íslenska notendaviðmótið.

Tökum ákvörðun um að nota íslenskt viðmót

Ég hef notað kerfi með íslenskt viðmót í allnokkurn tíma. Má þar nefna gömlu Nokia símana, Android stýrikerfið, Microsoft Windows og Office. Meira að segja man ég þá tíma þegar Macintosh (gamli Mac) var á íslensku, en Apple breytti um stefnu og kerfið er því miður ekki lengur fáanlegt á íslensku. Ég held að það sé sjaldgæft að tæknimaður, sem undirritaður er einnig, noti íslenskt viðmót á stýrikerfi í tölvu. Ég byrjaði að nota íslenskuna sem áskorun á sjálfan mig og til að vera jákvæðari fyrir þá viðskiptavini sem vildu íslenskt viðmót. Þetta var í raun markviss viðleitni til að auka þjónustuna. Það tók mig ekki nema tvær vikur að venjast íslenskunni og nú nota ég að mestu íslenskt viðmót og hef lagt metnað í að bjóða viðskiptavinum mínum það. Persónulega finnst mér þýðingarnar í dag nokkuð góðar; ég man ekki hvenær ég rakst síðast á skondna þýðingu hjá Microsoft. Snýst þetta bara um að velja íslenskt viðmót í stjórnsýslu, sveitarfélögum og skólum landsins?

Á íslensku Windows Stillingar Skjámynd 2020 09 28 134007

Tryggjum framtíð íslenskunnar innan upplýsingatækninnar

Upplýsingatækni er mikilvægur þáttur í daglegu lífi fólks. Þær ánægjulegu fréttir bárust um daginn að nýtt íslenskt smáforrit, Embla, sem svarar spurningum á íslensku og getur flett upp í Wikipediu, er komið í snjallsíma.  Framkvæmd íslenskrar málstefnu hlýtur að krefjast þess að ríki, sveitarfélögum og grunnskólum sé skylt að bjóða íslenskt viðmót þar sem það er fáanlegt. Sjái framleiðendur kerfanna sér ekki fært að bjóða tungumál að eigin frumkvæði á að knýja þá til að bæta þjónustu sína. Láti íslenskir notendur við það sitja að kaupa gallaða vöru að þessu leyti vega þeir að eigin tungu og menningu. Mikilvægt er að notendur venjist íslenskunni frá byrjun og því ríður á að hugbúnaður í grunnskólum landsins sé á íslensku. Hugsanlega reynist nauðsynlegt að krefjast þess af söluaðilum að þeir afhendi tölvur á íslensku. Gerð er krafa um að innihaldslýsingar á umbúðum og aðrar upplýsingar séu á íslensku. Eiga stýrikerfi og notendaviðmót ekki einnig að vera það? Allir geta skipt yfir á ensku ef þeir vilja en lágmarkskrafan er þó að upplýsingatæknikerfi séu boðin á íslensku.

MS Word opna skjal Skjámynd 2020 10 05 170837

Hættum að tala íslenska viðmótið niður

Reynsla mín er að notendur sem taka upp íslenskt viðmót og nota það í 30 daga vilji ekki hverfa frá því.

Við endurnýjun tölvubúnaðarins spyrja þeir oft sérstaklega hvort þeir haldi ekki örugglega íslenskunni. Ég hef hins vegar þurft að sannfæra starfsmenn og samstarfsaðila innan tölvugeirans um að gott sé að nota  íslenskuna. Þeir tala íslenska viðmótið ítrekað niður og harðneita jafnvel að setja það upp. Íslenska viðmótið geri vinnu þeirra erfiðari. Ég stóð í þeirra sporum fyrir nokkrum árum en þarf nú í versta falli að hugsa aðeins lengur við leit að lausnum á veraldarvefnum. Ef við viljum tryggja framtíð íslenskunnar er mikilvægt að við tæknimenn þróum með okkur jákvætt viðhorf til tungumálsins og sjáum til þess að íslenskan sé notuð innan upplýsingatækninnar.

Word

Ríki og sveitarfélög spyr ég:

  • Hefur verið íhugað að gera kröfu um að íslenskt notendaviðmót sé í tölvum hjá ríki, sveitarfélögum og grunnskólum?
  • Hvaða sveitarfélög og stjórnsýslustofnanir keyra nú þegar stýrikerfi og notendahugbúnað á íslensku?
  • Hvaða afstöðu hefur menntamálaráðherra til að skylda sölu- og dreifingaraðila til að selja og dreifa tölvum með íslenskt viðmót?

Að keyra íslensku inn í hugbúnað ætti að vera minna mál en að fá áprentaða íslenska stafi á lyklaborðið. Til að ná þessu markmiði þurfum við að fá í lið með okkur sterka kerfisstjóra og tæknimenn sem draga vagninn og sýna gott fordæmi.

Höfundur: Valgeir Ólafsson, framkvæmdastjóri Tölvuaðstoð