Þessi síða notar kökur (e. cookies) til að auðvelda þér að vafra um vefinn.

Print this page

Snjallheimilin

asgerdur 1Hlutir sem gera heimilin snjöll eru óðum að verða vinsælli bæði hér á landi sem og erlendis. Heimili eru talin snjöll þegar þau nota tæknina til að einfalda öryggi, hentugleika, þægindi og tækni [1]. Örar framfarir í tækniþróun stuðla að aukinni notkun snjalltækja á heimilinum þar sem fleiri og fleiri kjósa að notafæra sér tækni til að auðvelda sér heimilislífið. Í þessari grein mun ég taka dæmi og fjalla um nokkur snjöll heimilis- og öryggistæki.

Snjallheimilistæki

Það er nú þegar búið að snjallvæða nánast öll helstu heimilistæki. Snjallsjónvörp eru til dæmis mjög algeng. Hægt er að fá sér snjalla þvottavél, bakaraofn, uppþvottavél, ryksugu og hægt er að halda lengi áfram. Með því að vera með snjallþvottavél er til dæmis hægt að setja í vél að morgni þó að maður viti ekki hvenær maður kemur heim um daginn, maður segir þvottavélinni bara að byrja að þvo þegar maður veit það. Snjallryksugan getur ryksugað heimilið þó að enginn sé heima og bakaraofninn er orðinn heitur þegar maður kemur heim. Mörg heimili, sérstaklega erlendis, eru síðan með snjallhitastýringu á ofnunum svo að hægt er að stjórna hitanum í húsinu án þess að þurfa að hafa nánast neitt fyrir því.

Snjallperur

Snjallar perur eru ljósaperur sem tengjast við wifi. Þannig er hægt að stjórna þeim með símanum, fjarstýringu eða raddstýringu sé maður með slíka hátalara. Það er rosalega þægilegt að þurfa ekki að standa upp ef maður gleymir að slökkva á ljósunum áður en maður sest niður eða leggst upp í rúm. Einnig er oft auðveldara að finna hentuga birtu en með hefðbundnum ljósaperum þar sem snjallperurnar eru oft með stærra svið af birtu, til dæmis heita og kalda birtu, mismundandi liti og svo framvegis. Venjulega peru með dimmer er hægt að stilla meiri og minni birtu en þeirra birtusvið er miklu minna en á snjallperunum.

Snjalllásar

Snjalllás er lás sem er hægt að opna með því að slá inn kóða í snjallsíma. Á þessa lása er síðan einnig hægt að nota hefðbundna lykla sem kemur sér vel ef maður er símalaus eða lásinn rafmagnslaus. Hægt er að vera með eins marga „lykla“ og eigandinn kýs og því er einfalt að veita fólki aðgang að heimilinu og á sama tíma einfalt að breyta lykilorðinu svo að fólk hafi ekki lengur aðgang að heimilinu [2]. Þetta er því mun hentugra en að skipta um lás í hvert sinn sem lykillinn týnist eða ef aðstæður fólks breytast.

Snjalldyrabjöllur

Snjallar dyrabjöllur virka eiginlega eins og símar að því leyti að ef enginn er heima getur húsráðandi talað við þann sem kemur gestkomandi eins og í gegnum síma. Eigandinn fær skilaboð í símann um að einhver sé fyrir utan húsið og getur því athugað málið hvort sem hann er heima eða ekki. Dyrabjallan er með hreyfiskynjara svo að eigandinn veit alltaf ef einhver er fyrir utan húsið, og getur séð hver það er þó svo að manneskjan dingli ekki á bjölluna. Að því leyti virkar bjallan einnig sem þjófavörn [3].

Snjallöryggistæki

Öryggismyndavélar og reykskynjarar eru dæmi um öryggistæki sem búið er að snjallvæða. Búi maður í einbýli eða langt frá öðrum er til dæmis ekkert sérstaklega hentugt að reyksynjarinn fari í gang á meðan enginn er heima. Þó að reykskynjarinn sé virka nákvæmlega eins og hann á að gera þa er hann samt alveg fullkomlega gagnslaus á meðan enginn heyrir í honum. Sé reykskynjarinn snjall þá er eigandinn alltaf látinn vita ef hann fer í gang, og reykskynjarinn getur sjálfur séð um að láta viðbragðsaðila vita og fengið þá á staðinn án þess að húsráðandi þurfi að gera neitt sérstakt eða vera á staðnum. Því geta snjallir reykskynjarar verið virkilega þörf öryggistæki.

Snjallhátalarar

Fyrirtæki eins og til dæmis Google og Amazon hafa hannað snjallhátalara. Það er hægt að tala við hátalarana og skipa þeim fyrir og það á að vera hægt að tengja þá við öll snjalltæki heimilisins. Það er til dæmis hægt að nota raddstýringu til að kveikja og slökkva á sjónvarpi, spila einhvern sérstakann þátt, ýta á pásu og spóla fram og til baka, allt án þess að koma við fjarstýringu. Það er mjög hentugt fyrir þá sem finna aldrei fjarstýringarnar og það er þægilegt að þurfa ekki að standa upp til að ná í fjarstýringu þegar maður er búinn að koma sér vel fyrir í sófanum.

Hátalarnir eru tengdir við leitarvélar þannig hægt er að spyrja þá að nánast hverju sem er og fá við því svör. Til dæmis er hægt að spurja hátalarana um veðurspá, hvað klukkan er, um uppskriftir, um að spila tónlist og svo framvegis. Það er hægt að tengja þá við snjallsíma og hringja og tala við fólk í gegnum þá. Það er líka hægt að biðja þá um að senda fólki textaskilaboð. Hægt er að stilla hátalarana þannig að þeir þekkja einstaka raddir og svara því viðmælandi með réttu nafni. Ef heimili eru með fleiri en einn hátalara er hægt að senda skilaboð þeirra á milli, til dæmis til að láta vita að maturinn sé tilbúinn í önnur herbergi án þess að þurfa að kalla [4].

Nú hef ég farið yfir þessi helstu snjalltæki sem eru vinsæl á heimilum í dag. Alltaf bætast við fleiri og fleiri nýjungar á sviða snjalltækjanna og búast má við að þessi þróun muni halda áfram.

Höfundur: Ásgerður Steinþórsdóttir, nemandi við Háskólann í Reykjavík

Heimildir

[1] https://smartofficesandsmarthomes.com/smarthomes/ Sótt: 3. október 2020
[2] https://www.nova.is/barinn/vara/snjalllas Sótt: 3. október 2020
[3] https://elko.is/snjallheimilid/oryggistaeki/ring-dyrabjalla-me-myndavel-3-ringvd3 Sótt 3. október 2020
[4] https://assistant.google.com/platforms/speakers/ Sótt: 3. október 2020