Print this page
30. nóvember 2021

Ský fær Gull aðild að DiversIT sáttmálanum

Unnur Sara

Skýrslutæknifélag Íslands (Ský) fyrst í heiminum til að fá gull aðild að DiversIT sáttmálanum hjá CEPIS.

Tilgangur sáttmálans er að minnka kynjamun í tæknistörfum og þá sérstaklega í upplýsingatæknigeiranum. Sáttmálinn felst í því að fá sem flest fyrirtæki og stofnanir til að skuldbinda sig til að vera með áætlun og leiðir sem hvetja til aukinnar þátttöku og stuðnings fyrir konur í tæknigeiranum með ýmsum aðgerðum. DiversIT sáttmálinn felur í sér 3 stig; gull, silfur og brons og þannig geta fyrirtæki bætt sig smá saman og byrjað vegferðina sem brons en stefnt á að vera hluti af gullhópnum. 

DiversIT Charter eða FjölbreyttUT sáttmálinn eins og hann gæti kallast á íslensku hefur verið í vinnslu frá árinu 2016 og skemmtilegt að segja frá því að nafnið á verkefninu, DiversIT, kom frá Íslandi en þar er grunnhugmyndin að um sé að ræða „Diversity“ í „Information Technology“ heiminum.

Arnheiður Guðmundsdóttir er í forsvari fyrir DiversIT sáttmálann á Íslandi:
„Við gætum ekki verið stoltari af því að vera land nr. 2 sem fær fulla aðild en Tyrkland fékk brons aðild árið 2019. Þetta er gífurleg viðurkenning á starfsemi félagsins og okkar áherslum að hafa fjölbreytileika að leiðarljósi í öllu okkar starfi. Félagið mun vinna áfram að því að auka hag fyrirtækja í tölvu- og tæknigeiranum með það markmið að ýta undir fjölbreytileika með því meðal annars að fjölga konum og ungu fólki í tæknistörfum. Félagið gerir ráð fyrir að seinna í vetur geti það tekið við umsóknum frá íslenskum fyrirtækjum sem vilja vera með í sáttmálanum.“

Um Ský: Skýrslutæknifélag Íslands er fagfélag þeirra sem starfa við eða hafa áhuga á tölvu- og tæknigeiranum. Félagið var stofnað ári 1968 og eru rúmlega þúsund félagar í Ský.

Um CEPIS: Council of European Professional Informatics Societies eru samtök allra tölvufélaga í Evrópu og eru fulltrúar yfir 450.000 UT-sérfræðinga í Evrópu. Nánar um DiversIT Charter á vef Cepis.