Skip to main content

2012 UT-verðlaun Ský

Verðlaunahafi Upplýsingatækniverðlauna Ský 2012

Maríus Ólafsson (faðir internetsins á Íslandi)

Valnefnd Upplýsingatækniverðlauna Skýrslutæknifélags Íslands er sönn ánægja að veita Maríusi Ólafssyni Upplýsingatækniverðlaun Ský 2012. Maríus er af þeim sem best þekkja talinn faðir Internetsins á Íslandi. Verðlaunin voru afhent á UTmessunni þann 9. febrúar 2012 af Ara Kristni Jónssyni, rektor HR.
Verðlaunagripurinn er glerlistaverk eftir listakonuna Ingu Elínu.

Internetsamband er talið jafn sjálfsagt í dag og aðgangur að rafmagni og vatni. Það eru þó ekki nema rétt rúmir tveir áratugir síðan þetta grunnsamskiptalag var innleitt hér á landi. Ekki var sjálfgefið á árunum fyrir 1990 að það samskiptaumhverfi sem við í dag köllum á vondri íslensku IP-samskipti (Internet Protocol) yrði ráðandi. Þessi grunnsamskiptahögun hafði verið að þróast í háskólasamfélögum árin á undan. SURIS (Samtök um Upplýsinganet Rannsóknaraðila á Íslandi) voru stofnuð 1987 og tengdust 10 aðilar saman á rannsóknarneti.

Það var 21. júlí árið 1989 sem Ísland tengdist Internetinu eins og má lesa í grein eftir Maríus Ólafsson á Vísindavef Háskóla Íslands. http://visindavefur.hi.is/svar.php?id=6358

Einurð og framtíðarsýn þurfti til að innleiða Internettæknina hér á landi. Þar var Maríus Ólafsson fremstur í flokki. Á þessum tíma lagði hann þrotlausa vinnu í að koma á réttri högun á Internetið á Íslandi. Tryggja þurfti að allir netþjónar tengdust rétt inn á Netið, að það væri rétt upp byggt, að íslenska væri gjaldgeng á vefsíðum o.s.frv.

Í úttekt World Economic Forum 2011 (The Global Information Technology Report 2010 – 2011) kemur fram að Ísland skarar framúr á einu sviði, en það eru tæknilegir innviðir hér á landi. Við erum með best aðgengi að rafmagni, best aðgengi að stafrænu efni og síðast en ekki síst hæsta hlutfallið af öruggum netþjónum í þeim 138 löndum sem tóku þátt í úttektinni. Fagmennska og elja Maríusar í að ala upp og fræða íslenska tæknimenn í því hvernig byggja á upp öruggt netumhverfi skilar sér í þessum niðurstöðum. Hann á því stóran þátt í að byggja upp gott starfsumhverfi og jákvæða ímynd fyrir upplýsingatækni á Íslandi.

Maríus Ólafsson er virtur af samstarfsmönnum sínum. Þá virðingu hefur hann hlotið vegna mikillar þekkingar sinnar á uppbyggingu Internetsins, sterkrar og góðrar framtíðarsýnar, mikillar rökfestu samhliða einstakri ljúfmensku og lipurð í öllum samskiptum og verkefnum.

Það er því mikill heiður að veita Maríusi þessa viðurkenningu.