Skip to main content

Mannamót

Tístaðu um Mannamót á Twitter:   #mannamot

Mannamótin verða alltaf síðasta miðvikudag í mánuði í vetur, á sama stað og á sama tíma.

Hvar: Loftið, Austurstræti 9, 101 Reykjavík
Hvenær:
Síðasta miðvikudag í mánuði
Tími:
kl.17-18:30

Athugið að þessi viðburður er ókeypis og ekki þarf að skrá sig - bara mæta!

Hugmyndin með Mannamóti er að skapa vettvang þar sem fólk spjallar saman í þægilegu og óformlegu umhverfi. Haustið 2011 setti ÍMARK  í gang Mannamót til að koma á laggirnar hlutlausum vettvangi þar sem félagar í hinum ýmsu samtökum geta hist og spjallað, myndað vinskap og styrkt tengslanetið. Það er því mikils virði fyrir félagsmenn Ský að vera með og taka þátt. Stefnt er að því að hefja hvert Mannamót á stuttri kynningu, þar sem sagt er frá reynslusögu fyrirtækis, rannsókn, hugmyndafræði eða öðru áhugaverðu.

Samstarfssamtök: ÍMARK, Almannatengslafélagið, SÍA, SVEF, Hönnunarmiðstöð, Ský, FVH, RUMBA Alumni, MBA félag HÍ, Stjórnvísi, Klak, Innovit, KVENN, SFH og FKA.

Næsta mannamót:

26. mars 2014: Á Mannamóti í mars munum við heyra frá Valdimar Össurasyni, uppfinningamanns og framvkæmdastjóra Valorku ehf. og Elinóru Ingu Sigurðardóttur, framkvæmdastjóra Elás ehf Royal Natural og stofnanda Kvenn.  

Valdimar  segir frá sínum verkefnum og hinum gríðarmiklu tækifærum sem liggja á sviði sjávarorkunýtingar.  Valorka er frumkvöðull í þróun sjávarorkutækni á Íslandi og hverfill Valdimars er nú í fararbroddi á heimsvísu varðandi nýtingu annesjarasta.  Sjávarorka er umfangsmesta orkuauðlind Íslands; orkulind næstu kynslóða. 

Elínóra kynnir komu Warren Tuttle sem ætlar að tala um Bandaríkjamarkað og það sem þarf að hafa í huga í tengslum við framleiðsluleyfi (licensing) Hann kemur á Hönnunamars í boði KVENN og SFH, Samtök frumkvöðla og hugvitsmanna. Einnig ætlar hún að kynna sýninguna  INPEX í USA, sem er sölusýning nýjunga, sem gefur frumkvöðlum tækifæri á að koma vörum sínum í framleiðslu og á markað í USA. SFH og KVENN verða þar með bás í júní næstkomandi. Elínóra er með þátt um Frumkvöðla á ÍNN www.inntv.is. 

Yfirlit yfir eldri Mannamót og kynningar:

 

26. feb. 2014: Á Mannamóti miðvikudaginn 26.febrúar verður skoðað hvað er að gerast á fjölmiðlamarkaðnum á Íslandi. Einar Einarsson, framkvæmdastjóri Capacent hefur starfað á sviði markaðsrannsókna í 20 ár og mun fara almennt yfir hvernig fjölmiðlar eru mældir hér á landi. Hann mun einnig benda á hvernig tæknin hefur þróast við slíkar rannsóknir síðustu árin. Einar er víðskiptafræðingur frá HÍ og með MBA menntun frá HR. Sigmar Vilhjálmsson(Simmi), stofnandi BravóTV mun síðan koma og kynna næsta þróunarstig í fjölmiðlun á Íslandi. Hann ætlar að kynna sjónvarpsstöðina Bravó, sem er nýr fjölmiðill fyrir ungt fólk. Eins og Simmi orðar það "Ungt fólk horfir ekki á sjónvarp, af því að það er ekki verið að framleiða sjónvarpsefni fyrir það!"  Einnig mun Simmi kynna sjónvarpsstöðina Miklagarð sem er dægurmála fjölmiðill,  "Mikligarður er svo innilega ekki sjónvarpsmarkaður að ég vil ekki nefna sjónvarpsmarkaðinn, þess vegna nefni ég ekki sjónvarpsmarkaðinn!" Í lokin býðst að spyrja og ræða við bæði Einar og Simma, nánar um málefnin og þeirra sýn á þessum lifandi og spennandi markaði. 

 

29. jan. 2014: Á fyrsta Mannamóti ársins munum við heyra frá Huldu Hreiðarsdóttur, stofnanda og Imaginator hjá leikfangafyrirtækinu Fafu og Kjartani Sverrissyni, framkvæmdastjóra Guitarparty.com. Hulda stofnaði Fafu fyrir tæpum 5 árum síðan en félagið gekk nýlega í gegnum miklar breytingar. Hún mun fjalla tæpitungulaust um helstu áskoranir verkefnisins, sigra og áföll og ekkert draga undan. Fyrir frekari upplýsingar um Fafu getið þið heimsótt vefsíðu þeirra fafutoys.com. Kjartan er einn úr teyminu sem byggt hefur upp GuitarParty.com síðustu árin. Hann ætlar að segja frá uppbyggingunni, öllu því sem gengið hefur vel og ekki síður því sem gengið hefur illa og draga má lærdóm.

27. nóv. 2013: Þórunn M. Óðinsdóttir eigandi Intra ráðgjafar hefur mikla reynslu af innleiðingu bæði hugmynda- og aðferðafræði Lean Management. Hún hefur starfað sem stjórnunarráðgjafi frá árinu 2007, hefur ekki ráðið til sín starfsfólk þrátt fyrir næg verkefni og markaðssetur sig einungis af góðu orðspori. Á kynningunni mun Þórunn segja frá störfum sínum, hvað það er við Lean sem er svona gríðarlega áhugavert og tekur nokkur dæmi um hvernig er hægt að nota þessar aðferðir til að ná árangri. Kristján Geir Gunnarsson, framkvæmdastjóri markaðs- og sölusviðs Nóa Siríus hefur nýtt sér aðferðir Lean frá árinu 2008. Á kynningunni segir hann frá hvernig hann er að nýta sé Lean innan síns sviðs og gefur nokkur skemmtileg dæmi um hvaða árangur hefur náðst m.a. í vöruþróun á þessum tíma.

30. okt. 2013: Á Mannamóti í október munum við heyra frá Ragnari Fjölnissyni, annar stofnandi og þróunarstjóri Kaptio og Ingu Hlín Pálsdóttur, forstöðumaður ferðaþjónustu og skapandi greina hjá Íslandsstofu.Marketing Automation getur haft dramatísk áhrif á árangur markaðs- og söluherferða, en á sama tíma aukið ávinning fyrir innleiðingu á CRM kerfum. Ragnar mun útskýra grundvallahugsunina á bakvið marketing automation, segja frá af hverju það er vinsælt, hvernig það er notað og hvernig það tengist öðrum markaðsaðgerðum líkt og inbound marketing, social marketing og event marketing. Inga Hlín mun fjalla um markaðssetninguna erlendis fyrir íslenska ferðaþjónustu. Hún mun fjalla um umfang hennar, kynna áherslur vetrarins og fara yfir helstu lykiltölur ferðaþjónustunnar. Inga Hlín hefur viðamikla reynslu í markaðssetningu erlendis og sérstaklega þegar kemur að íslenskri ferðaþjónustu og hefur m.a. stýrt markaðsátakinu Inspired by Iceland frá upphafi.

25. september 2013: Munum við fræðast um markaðssetningu á netinu! 
Kristinn Ólafsson, framkvæmdastjóri Sjónlags, hefur mikla reynslu af markaðsmálum en hann starfaði í 10 ár við markaðsrannsóknir hjá Capacent. Kristinn hefur lagt sérstaka áherslu á stafræna miðla í markaðssetningu Sjónlags eins og með nýrri vefsíðu, notkun samfélagsmiðla og leitarvélamarkaðssetningar. Kristinn mun deila reynslu sinni af því hvernig hann kynntist markaðssetningu á netinu, hvernig hann hefur nýtt sér hana og hverju það skilaði.
Andri Már Kristinsson, framkvæmdastjóri Kansas, sérhæfir sig í markaðssetningu á netinu. Áður starfaði hann í tvö ár hjá Google í Dublin en þar eru höfuðstöðvar fyrirtækisins fyrir Evrópu, Afríku og Mið-Austurlönd. Snjallsímavæðingin er sú mest vaxandi í sögu miðla en er markaðsfólk á Íslandi að nýta sér þennan miðil í markaðssetningu? Andri mun spjalla um stöðu og tækifæri markaðssetningar gagnvart snjallsíma- og spjaldtölvunotendum á Íslandi.
Kristinn og Andri eru fyrstu feðgarnir sem tala á Mannamóti.

27. mars 2013: Á Mannamóti í mars munum við heyra frá Súsönnu Rós Westlund framkvæmdastjóra ferðaskrifstofunnar Iceland is Hot og Systu Björnsdóttur hönnuði og liststjórnanda. Súsanna notar nær eingöngu samfélagsvefi í sölu og markaðsstarfi sínu en þar hefur hún náð góðum árangri. Viðskiptavinir hafa komið í gegnum Facebook og Twitter, en auk þeirra notar Súsanna samfélagsvefinn LinkedIn grimmt og þaðan hefur hún náð mjög góðum sölusamningum. Súsanna mun segja okkur frá hvernig hún hefur aukið viðskipti sín með nýtingu samfélagsmiðla. Systa flutti nýlega aftur heim til Íslands, en hún starfaði í yfir 20 ár í auglýsingaiðnaðinum á Ítalíu og tekið að sér margs konar verkefni, allt frá auglýsingagerð í stuttmyndir, tískuljósmyndun í innanhússhönnun. Systa mun deila með okkur reynslu sinni á Ítalíu og segja okkur frá spennandi verkefnum sem hún hefur tekið að sér um heim allan.

27. febrúar 2013: Á Mannamóti í febrúar munum við heyra frá Óla Rúnari Jónssyni vörumerkjastjóra Ölgerðarinnar og Einari Ben einn stofnanda Tjarnargötunnar. Óli mun fjalla um hugmyndina á bakvið Bjórskóla Ölgerðarinnar og hvernig hann hefur þróast, en Bjórskólinn hefur notið gífurlega vinsælda og nær námsefnið allt frá sögu bjórsins, bruggferlinu og ólíkum bjórtegundum til eiginleika bjórsins og bjórmenningar á Íslandi. Einar Ben stofnaði Tjarnargötuna árið 2011 ásamt félaga sínum Arnari, en þeir þekkja nýmiðla eins og lófana á sér og eru sérstaklega lunknir í samfélagsmiðlum og notendadreifingu markaðsefnis. Vinnuspeki þeirra endurspeglast í að laða notandann að skilaboðunum, en ekki að ýta skilaboðunum til notandans. Einar mun ræða um mikilvægi efnisinntaka og notendadreifingu markaðsefnis.

30. jan. 2013: Á Mannamóti í janúar mun Halla Helgadóttir framkvæmdastjóri Hönnunarmiðstöðvar fjalla um HönnunarMars og Grímur Atlason framkvæmdastjóri Iceland Airwaves fjalla um tónlistarhátíðina. Þessar báðar hátíðir hafa náð að vaxa og dafna vel ásamt því að vekja áhuga erlendis. HönnunarMars fer fram í fimmta skiptið í mars 2013. HönnunarMars er fjögurra daga hönnunarhátíð í Reykjavík þar sem dagskráiner barmafull af fjölbreyttum og spennandi viðburðum af ýmsu tagi. Hönnuðir bjóða almenningi að kynna sér heim hönnunar með áhugaverðum sýningum og fróðlegum fyrirlestrum sem endurspegla fjölbreytta flóru íslenskrar hönnunar og arkitektúrs. Hönnun á Íslandi er ekki ný af nálinni en gríðarlegur árangur og vitundarvakning hefur átt sér stað á undanförnum árum. Á HönnunarMars er hönnun kynnt sem atvinnugrein sem byggir á traustum grunni og gegnir veigamiklu hlutverki í samtímanum. Hátíðin vekur aukinn áhuga erlendis á ári hverju og sækir fjöldi blaðamanna og erlendra gesta hana heim.

Tónlistarhátíðin Iceland Airwaves var fyrst haldin árið 1999 og í upphafi var hátíðin hugsuð sem kynningarhátíð á innlendri tónlist, en er í dag talin ein af helstu alþjóðlegu kynningarhátíðum heims á sviði tónlistar. Mikill fjöldi blaðamanna og starfsmanna tónlistarbransans mætir jafnan á Airwaves hátíðina. Dagskrá hennar nýtur oftar en ekki mikillar hylli innlendra sem erlendra blaðamanna, David Fricke einn af ristjórum Rolling Stone kallaði hana „svölustu tónlistarhátíð heims“ Fjölmargar hljómsveitir, innlendar sem erlendar, hafa vakið alþjóðlega athygli eftir að hafa leikið á Iceland Airwaves. Má þar nefna Of Monsters and Men, The Rapture, Hot Chip, The Bravery, Sigur Rós og Jakobínarína.

28. nóv 2012: Á Mannamóti í nóvember munum við heyra frá Tómasi Tómassyni eiganda Hamborgarabúllunnar og Jóhönnu Björg Christensen stofnanda og ritstjóra NUDE magazine. Tommi opnaði Hamborgarabúllu í miðborg London fyrr á árinu og mun hann deila með okkur reynslusögu sinni í kringum það og ástæður þess að hann ákvað að reyna fyrir sér á erlendum markaði. Jóhanna stofnaði NUDE magazine árið 2010 en það er frítt tískutímarit sem er gefið út á netinu einu sinni í mánuði. Nú hefur bæst við tímaritið NUDE home en þar er um að ræða tímarit um heimili, hönnun, mat og vín. Þessi tímarit eru bæði veftímarit með innbyggðum myndböndum og mun Jóhanna segja okkur m.a. frá þeirri ákvörðun að gefa einungis út veftímarit og hvernig þau vinna með upplifun lesenda á þessum miðli.

30. okt. 2012: Hildur Ómarsdóttir, forstöðumaður Icelandair hótelanna, mun segja okkur frá endurskilgreiningu vörumerkis Icelandair hótela (rebranding), en gagnger breyting var gerð á vörumerkinu í tengslum við breytingu Loftleiða í Reykjavík Natura. Sú breyting skapaði skemmtilegan nýjan vettvang fyrir ný hótel inn í keðjuna einsog Reykjavík Marina. Ef aðstæður leyfa mun Hildur einnig fara með gesti Mannamótsins í skoðunarferð um hótelið

26. sept. 2012: Mörg fyrirtæki eru að velta fyrir sér hvort þau eigi að búa til App og hvort það sé leiðin til að koma í móts við breytta notkun fólks á símtækjum, en dag er sala á snjallsímum á Íslandi u.þ.b 80% af öllum seldum farsímum. Helgi Pjetur Jóhannsson hönnuður og eigandi Stokk Software mun ræða um hröðustu tæknibyltingu sögunnar og þau tækifæri sem felast í því fyrir fyrirtæki að smíða vel heppnað App. Magnús Hafliðason rekstrar- og markaðsstjóri Domino´s Pizza mun í framhaldi segja frá þeirra reynslusögu af því að nýta App sem markaðstæki og viðbót við þjónustuna, en fyrirtækið hefur náð frábærum árangi þar.

25. apríl 2012: Nýleg nafnbreyting Advania var lokahnykkur tveggja ára sameiningarlotu níu félaga og liður í umbreytingu félagsins í alþjóðlegt þjónustufyrirtæki með 25 milljarða veltu og 1.100 starfsmenn í fjórum löndum. Stefán Hrafn Hagalín, forstöðumaður samskiptasviðs Advania, segir okkur frá nafnbreytingunni og markaðssókn með "grasrótarhögun", sem sumpartinn er óvenjuleg. Hvers vegna sóttu til dæmis 12.500 gestir viðburði fyrirtækisins á síðasta ári? Allt um þetta á Mannamóti næsta miðvikudag.

Hraðfréttir er nýr fréttaþáttur á MBL sjónvarpi sem hlotið hefur afar góðar móttökur enda greinir hann frá því sem raunverulega skiptir máli í íslensku samfélagi. Fréttahaukarnir eru Benedikt Valsson og Fannar Sveinsson en þeir eru sagðir vera efnilegustu fréttamenn landsins og þátturinn vera eini almennilegi fréttatími landsins. Sjá þættina: http://goo.gl/l4RYn. Benedikt og Fannar mæta á næsta Mannamót til að segja okkur frá hugmyndinni að fréttaþættinum og skemmtilegum sögum úr starfinu. 

28.03.2012 : Hörður Kristbjörnsson, Daníel Freyr Atlason and Arnar Yngvason stofnuðu Live Project árið 2010, en Live Project er vefur er birtir myndefni í rauntíma, en þar getur hver sem er hlaðið upp myndefni til að deila upplifun sinni um leið og hún á sér stað. Live Project vann m.a. "myndavef" fyrir Roskilde Festival í Danmörku þar sem áhugafólk um skemmtun og tónlist gátu fylgst með hátíðinni og stemmingunni þó þeir gátu ekki verið á staðnum. 

Seinna erindið verður frá Hópkaupum en Árni Þór Árnason, framkvæmdastjóri og einn stofnenda vefsíðunnar Hopkaup.is flytur erindi um nýtt viðskiptamódel í vefsölu og auglýsingamiðlun þar sem samfélagsmiðlar eins og Facebook skipa stóran sess og hefur vakið verðskuldaða athygli á Íslandi að undanförnu.

29.02.2012: Spennandi sprotafyrirtæki deildu með okkur reynslusögum sínum. Live Project þurftu að afboða sig á síðustu stundu, en það voru þá Haukur Guðjónsson frumkvöðullinn á bakvið Bungaló, frumkvöðlar.is og nú Campaló, og Viggó Ásgeirsson einn af stofnendum Meniga sem fluttu afar skemmtileg og fróðleg erindi á Mannamóti í febrúar. Haukur ræddi um fátæka frumkvöðulinn og frumkvöðlamarkaðssetningu á 0 krónur. Viggó sagði gestum frá því hvernig þeir hafa byggt upp fyrirtækið með að ná fyrst góðri fótfestu á heimamarkaði og hvernig þeir hafa nýtt sér það að komast inn á erlenda markaði og í samningum sem lítið sprotafyrirtæki við alþjóðlega banka. Gestir voru mjög áhugasamir og sköpuðust miklar umræður, en um 40 manns kíktu við á Mannamótið í febrúar. Einnig var fyrsti dagurinn í Bjórhátíð KEX og fengu gestir Mannamóts bjór frá Ölvisholti í boði KEX og bruggarana

25.01.2012:  Á fyrsta Mannamóti ársins verðum við með fróðleg og skemmtileg erindi frá Pegasus og Reykjavík Eyes.  
Lilja Snorradóttir framkvæmdastjóri og Snorri Þórisson forstjóri
Pegasus munu segja reynslusögur úr bransanum. Þau segja m.a. frá verkefninu Games of Thrones en hluti af tökum á þeim bandaríska sjónvarpsþætti fór fram hér á landi í lok síðasta árs.
Lovísa Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri hjá 
Reykjavík Eyes segir frá markaðssetningu á vörumerkinu erlendis, m.a. frá þeim áskorunum sem mættu fyrirtækiniu í kjölfar þess að Bretar beittu hryðjuverkalögum gegn Íslandi. Reykjavík Eyes er fyrsta heildstæða íslenska gleraugnalínan og hefur hún vakið mikla athygli erlendis fyrir byltingarkennda hönnun á gleraugnaumgjörðum.

Ath. ekkert Mannamót var í desember.


30.11.2011:  
Elísabet Grétarsdóttir, markaðsstjóri CCP segir frá  "Gamification" sem mörg fyrirtæki eru að nota í auknu mæli við markaðssetningu. Finnur Pálmi Magnússon, vörustjóri hjá Marorku mun 
 ræða um Twitter og segja okkur reynslusögur fyrirtækja í nýtingu þessa miðils. Um 80 manns mættu.

26.10.2011: Tvær stuttar en bráðskemmtilegar kynningar frá Latabæ og Stöð 2.
Yfir 70 manns hittust á Mannamóti að spjalla og hlusta á tvær bráðskemmtilegar kynningar frá Latabæ og Stöð 2.
Góð stemming.

28.9.2011:   Fyrsta Mannamót þar sem Kex hostel hélt kynningu á hugmyndafræði fyrirtækisins. 
Það var vel sótt, um 60 manns kíktu við og spjölluðu í góðum hópi. Skemmtileg stemming.



  • 28. september 2011