Skip to main content

Árbítur UT-kvenna

Árbítur UT-kvenna
var haldinn í Farfuglaheimilinu í Reykjavík, Sundlaugavegi 34, 105 Rvk.
miðvikudaginn 21. mars, kl. 8:15.


Hannes Högni Vilhjálmsson fjallaði um Félagslega tölvutækni sem kennir mál og sið. 

Háskólinn í Reykjavík er að þróa nýstálegt forrit í samstarfi við Suðurkaliforníuháskóla (USC) og fyrirtækið Alelo Inc. til kennslu á tungumálum og siðum framandi þjóða.  Forritinu er ætlað, með hröðum hætti, að búa nemendur undir einfaldar samræður og notar til þess talgreini, sjálfvirka leiðsögn, gagnvirkar vitverur og þrívíða leikjatækni.  Forritið er þegar í notkun hjá bandaríska ríkinu, en útgáfur til almennra nota eru á leiðinni.  Í sérstökum kennsluham kerfisins er nemendum er kennt að bera sig rétt að við ýmsar félagslegar aðstæður, bæði hvað varðar talað mál og það sem tjáð er með líkamlegum hætti.  Jafnhliða því að nemendur kynna sér námsefnið gefst þeim kostur á að reyna kunnáttu sína í þrívíðu umhverfi, nokkurskonar gagnvirkri sögu, sem hermir eftir raunverulegum aðstæðum. Þetta umhverfi er veigamikill þáttur námsins, ekki síst vegna þess að það setur efnið í stærra samhengi og hvetur nemendur til að standa sig vel og ná stöðugt lengra.  
Hannes Högni tók til starfa sem lektor hjá Háskólanum í Reykjavík sumarið 2006 þar sem hann stundar m.a. rannsóknir við gervigreindarsetur skólans.  Áhugasvið hans eru fjölmörg og þverfagleg, en rauði þráðurinn eru tölvulíkön af félagslegu atferli.  Hannes lauk doktorsprófi í "Media Arts and Sciences" frá MIT árið 2003 og fjallaði verkefni hans um þátt líkamstjáningar í samskiptum og leiðir til að ná þeim þætti inn í tölvusamskipti til að bæta m.a. samvinnu yfir netið.  Hannes er einnig með meistaragráðu frá sama skóla og svo B.S. gráðu í tölvunarfræðum frá Háskóla Íslands.
 
Frekari upplýsingar um Hannes og rannsóknir hans er að finna hér  • 21. mars 2007