Skip to main content

Arnlaugur Guðmundsson

Arnlaugur GuðmundssonArnlaugur Guðmundsson
Fæddur 21. júlí 1945

Arnlaugur var gerður að heiðursfélaga á aðalfundi Ský þann 28. febrúar 2018 fyrir framlag hans til upplýsingatækni á Íslandi. 

Arnlaugur Guðmundsson lauk prófi í útvarpsvirkjun 1966 og í rafmagnstæknifræði frá Københavns Teknikum, nú DTU, árið 1972.

Á námsárum sínum starfaði hann m.a.  hjá Raunvísindastofnun HÍ og Rafagnatækni við viðgerðir, nýsmíði og einnig uppsetningu fyrsta kerfiráðs Hitaveitu Reykjavíkur.  Eftir starf á eðlisfræðideild Landsspítala og hjá Geislavörnum ríkisins lá leiðin til Orkustofnunar þar sem hann vann við landgrunnsrannsóknir og síðan hönnun og smíði á sérhæfðum mælitækjum hjá rafeindastofu Jarðhitadeildar, sem hann jafnframt veitti forstöðu. 

Árið 1978 stofnaði Arnlaugur, ásamt tveimur félögum sínum, fyrirtækið Örtölvutækni sf.  sem hannaði og smíðaði margskonar mælitæki t.d. fyrir fiskiskip og tók að sér hönnun á ýmsum sértækum rafeindabúnaði.  M.a. hannaði fyrirtækið og smíðaði fyrsta kerfiráð Hitaveitu Suðurnesja í samvinnu við Verk- og kerfisfræðistofuna. 

Skýrslutæknifélagið hafði mikil áhrif á starfsferil Arnlaugs.  Grein sem birtist í 1. tölublaði 3. árgangs (1978), Tölvumála: „DRÖG AÐ ÍSLENZKUM STÖÐLUM FYRIR 7-BITA KÓDA,  8-BITA EBCDID KÓDA OG GAGNASKRÁNINGARBORГ lagði grunninn að íslenskun tölvubúnaðar.  Byggt á þessum tillögum aðlagaði Örtölvutækni tölvuskjái og prentara að íslensku ritmáli fyrst fyrirtækja á Íslandi.  Í framhaldi þess þá vann Arnlaugur að gerð staðla og var í tveimur tækninefndum á vegum Fagráðs í Upplýsingatækni / Staðlaráðs Íslands um íslenskt lyklaborð fyrir tölvur. 

Megin starfsvettvangur hans var sem forstöðumaður upplýsingatæknimála, fyrst hjá Vatnsveitu Reykjavíkur og síðar Orkuveitu Reykjavíkur eftir sameiningu VR og OR.

Með vinnu hefur Arnlaugur stundað ýmiss konar sjálfboðaliðastörf.  Innan skátahreyfingar­inn­ar hefur hann auk margvíslegra foringjastarfa gegnt hlutverki framkvæmdastjóra landsmóts skáta, undirbúðastjóra alheimsmóts skáta, verið mótsstjóri á fjölþjóðlegum skátamótum eldri skáta og verið fararstjóri innanlands og utan fyrir hópum skáta auk þess að vera félagsforingi fyrir skátafélagið Landnemar í Reykjavík síðan 1995. 

Hann var kjörinn í Endurmenntunarnefnd TFÍ árið 1979 og varð formaður hennar tveimur árum síðar.  Á þeim árum átti sú nefnd frumkvæði að stofnun sameiginlegrar Endurmenntunarnefndar TFÍ, VFÍ, BHM, HÍ, TÍ og KÍ, nú Endurmenntun Háskóla Íslands.  Átti Arnlaugur sæti í fyrstu stjórn þeirrar nefndar.  Hann sat í stjórn Undirbúningsfélags rafeindaiðnaðarins og var í fyrstu stjórn Fagráðs í Upplýsingatækni sem sett var á stofn innan SÍ, nú SKÝ, og fluttist síðar til Staðlaráðs.  Arnlaugur átti vinningstillögu að merki fyrir 25 ára afmæli Skýrslutæknifélagsins en tillagan byggði á þáverandi merki félagsins. 

Arnlaugur gegndi ýmsum trúnaðarstörfum fyrir Tæknifræðingafélag Íslands og sat meðal annars í stjórn Kjarafélags TFÍ.  Hann situr nú í menntamálanefnd VFÍ. 

Arnlaugur var formaður Íbúasamtaka Vesturbæjar í tvö ár (1984-1986) og er nú formaður ritnefndar um sögu upplýsingatækninnar sem er í skrifum á vegum Öldungadeildar Skýrslutæknifélags Íslands.