Skip to main content

Hjálmtýr Guðmundsson

Þorsteinn HallgrímssonHjálmtýr Guðmundsson
Fæddur 20. mars 1943

Hjálmtýr var gerður að heiðursfélaga á aðalfundi Ský þann 20. febrúar 2024 fyrir framlag hans til upplýsingatækni á Íslandi.

Hjálmtýr Guðmundsson starfaði við tölvu- og upplýsingatækni frá 1965 til 2010 eða í 45 ár.

Hann hóf störf hjá Ottó A. Michelsen 1965 og síðan hjá IBM á Íslandi frá stofnun þess 1. maí 1967 og vann þar í 25 ár þar til það var lagt niður árið 1992.  Nýherji tók þá við öllum umsvifum IBM á Íslandi og réðist hann þá til Nýherja eins og fjöldi annarra starfsmanna IBM.

Fyrstu árin hjá OAM vann Hjálmtýr við Skýrsluvinnslu Ottós A Michelsen sem annaðist vinnslur á „Unit Record“ vélum fyrir ýmis stærri fyrirtæki landsins.  Á þessum tíma voru öll gögn á gataspjöldum. Voru þetta margskonar vinnslur svo sem reikningaútskrift, bókhald og skýrslugerð. Árið 1968 kom fyrsta tölvan í deildina sem nú var kölluð „Data Center Services“ eða DCS í daglegu tali.  Fyrst kom IBM 1401 og síðan IBM 360/370 vélar, stærri og öflugri eftir því sem árin liðu.

Meðal viðskiptavina voru m.a. Almennar tryggingar, Eimskip, Útvegsbankinn, Olíuverslun Íslands, SÍF, SH, Erfðafræðinefnd, Borgarspítalinn, Ríkisspítalar, Tryggingastofnun ríkisins, ÍSAL, Morgunblaðið, Bílaumboðin, IBM á Íslandi og ýmis rannsóknarverkefni.

Eftir að IBM tók til starfa vann Hjálmtýr sem kerfisfræðingur og forritari og hannaði m.a. launakerfi, bókhaldskerfi, lagerkerfi fyrir bílaumboðin, greiðslukerfi fyrir Tryggingastofnun ríkisins o.fl.  Þessi verkefni voru unnin hjá skýrsluvinnslunni en hún lagðist svo af þegar IBM S/34, IBM S/36 og IBM/9300 komu á markaðinn og vinnslurnar færðust til fyrirtækjanna sjálfra og til nýrra þjónustufyrirtækja.

Upp úr 1980 varð Hjálmtýr tæknilegur sérfræðingur fyrir stórtölvur, bæði fyrir vélbúnað, stýrikerfi og annan hugbúnað frá IBM og söluráðgjafi fyrir sama búnað allt þar til hann lauk störfum 2010.

Hjá IBM sótti Hjálmtýr kerfisfræði- og tölvumenntun m.a. til Englands, Danmerkur, Svíþjóðar og til La Hulpe í Belgíu þar sem IBM rak menntastofnun fyrir evrópska starfsmenn en þegar á leið færðist þetta meira til Bandaríkjanna. Þetta voru námskeið sem stóðu oft mánuð í senn og ráðstefnur þar sem nýjungar voru kynntar.  Í þessum námskeiðs- ráðstefnu- og vinnuferðum fór Hjálmtýr til 19 landa á vegum IBM.

Til gamans má skjóta því inn að eitt sinn fór hann til IBM í North Carolina að kenna þeim að búa til bókstafina ð og þ fyrir nýjan prentara frá IBM.

Hjálmtýr hefur tekið þátt í að safna og varðveita gamlar tölvur og tölvubúnað, einnig skrifstofuvélar eins og ritvélar og reiknivélar og hefur hann ljósmyndað þetta safn og eru myndirnar á vef Ský.