Skip to main content

Ásrún Matthíasdóttir

Þorsteinn HallgrímssonÁsrún Matthíasdóttir
Fædd á Akureyri 7. nóvember 1956

Ásrún var gerð að heiðursfélaga á aðalfundi Ský þann 20. febrúar 2024 fyrir framlag hennar til upplýsingatækni á Íslandi.

Ásrún hefur lokið fimm háskólagráðum sem eru BS í tölvunarfræði, diplóma í  kennslufræði, diplóma í námsráðgjöf, MA próf í „open and distance education” og doktorsprófi í menntunarfræðum frá Háskóla Íslands. Heiti á doktorsritgeð hennar er After they turn on the screen: Use of information and communication technology in an upper secondary school in Iceland. Hún brennur fyrir notkun tækninnar í námi og kennslu og hafa bæði kennslustörf hennar og rannsóknir tengst því frá upphafi.

Hún hefur verið lektor við Háskólann í Reykjavík (HR) frá 2001 og kennir dag kennslufræði við íþróttafræðadeild ásamt því að vera forstöðumaður meistaranáms í kennslufræði en einnig hefur hún kennt námskeið í tölvunarfræði-, verkfræði- og kennslu- og lýðheilsufræði deild HR ásamt því að taka þátt í þróun fjarnáms við skólann og stefnumótun. Fyrir 2001 var hún framhaldsskólakennari til margra ára, kerfisstjóri og stýrði Tölvuskóla Einars J. Skúlasonar ásamt því að bjóða upp á mörg námskeið fyrir kennara og taka þannig þátt í endurmenntun þeirra á notkun tækninnar í kennslu. Í störfum sínum í HR hefur hún sinnt kennslu, fyrst á BSc stigi en síðasta áratuginn nær eingöngu á meistarastigi og hefur hún lagt mikla áherslu á að styðja nemendur til náms og þroska og opna hug þeirra fyrir nýjungum og fjölbreytni, ekki bara í tækninni heldur í lífinu sjálfu.

Rannsóknir hennar við HR hafa beinst að kennslu í raungreinum og en einnig jafnrétti með áherslu á tölvunarfræði og verkfræði og hefur hún birt margar greinar á því sviði en einnig hafa gæði náms og kennslu verið henni hugleikið rannsóknarefni. Ein af hennar þekktustu greinum er Online data collection in academic research: advantages and limitations sem birtist í British Journal of Education Technology en meðhöfundar eru Michael Dal og Samuel Lefever. Af nýlegri greinum má nefna Gender differences in engineering students´ choice of studies sem bitist í ráðstefnuriti 14th International CDIO Conference og Engineering education in change. A case study on the impact of digital transformation on content and teaching methods in different engineering disciplines sem birtist í European Journal of Engineering Education en meðhöfundar eru Gumaelius, L., Skogh, I-B og Pantzos, P.

Í gegnum árin hefur Ásrún tekið þátt í yfir 20 erlendum verkefnum sem styrkt hafa verið af Evrópusambandinu og norrænum sjóðum. Hér má nefna verkefni eins og OWLS - Outcomes that Work for Learners and their Stakeholders og QAEMP - Quality Assurance and Enhancement Marketplace for Higher Education Institutions sem hún stýrði og EuroScitizen, og genderSTE - Gender, Science, Technology and Environment sem hún tók þátt í fyrir hönd HR.

Ásrún var ritstjóri Tölvumála í 10 ár og situr í dag í ritnefnd blaðsins og sér um útgáfu á vikulegum pistlum á vef Ský. Þar hefur hún lagt áherslu á að taka fyrir fjölbreytt efni tengt tölvu- og tækniþróun og hefur sjálf ritað greinar í blaðið og fyrir netið s.s. um stöðu kvenna í tæknigreinum, kennslu raungreina og áhrif tækninnar á líf almennings. Af greinum í Tölvumálum á netinu má nefna Er framtíðin okkar? og Færni og hæfni fyrir nýja kynslóð verkfræðinga.

Ásrún hefur einnig tekið þátt í störfum ýmissa nefnda, félaga og samtaka s.s. verið í stjórn UT-kvenna og í stjórn SKVÍS, Samtaka kvenna í vísindum og unnið við úttekt á skólum og stofnunum fyrir hönd ráðuneyta.

Fram undan eru mörg spennandi verkefni við kennslu og rannsóknir hjá Ásrúnu sem og í ritnefnd Tölvumála, en einnig í lífinu sjálfu. Tækniþróun er hröð í dag og mörg spennandi tækifæri innan seilingar sem hún mun fylgast með, taka þátt í og nýta.