Skip to main content

Um Ský

Skýrslutæknifélag Íslands, Ský, er félag einstaklinga og starfsmanna fyrirtækja/stofnana á sviði upplýsingatækni

Félagið er óháður félagsskapur, opið öllum og rekið sem „non-profit“ félag án hagnaðarmarkmiða. Tilgangur Ský er að miðla þekkingu milli þeirra sem starfa við eða hafa áhuga á upplýsingatækni. Félagið býr yfir gífurlegu tengslaneti og stendur reglulega fyrir fjölbreyttum viðburðum um upplýsingatækni. Ský var stofnað árið 1968 og hefur starf þess sjaldan verið jafnt öflugt og nú.

Félagsmenn Ský eru um 1.000 og til viðbótar eru á póstlistanum yfir 4.000 aðilar:

  • forstjórar og framkvæmdastjórar, fjármála- og innkaupastjórar, gæðastjórar
  • kerfisfræðingar, tölvunarfræðingar, tæknimenn og tölvurekstrarmenn
  • stjórnendur tölvudeilda
  • stjórnendur fyrirtækja
  • nemendur í tæknigreinum

Félagið rekur skrifstofu með tveimur starfsmönnum. Starfsemin felst aðallega í því að halda fræðslufundi um það sem heitast er í heimi UT mála hverju sinni. Leitast er við að hafa erindin fræðandi s.s. reynslusögur eða það nýjasta í viðkomandi umhverfi og því ekki um sölufyrirlestra eða auglýsingar að ræða. Leitað er til félaga Ský, UT fyrirtækja, háskólanna og fleiri um efni og fyrirlesara.

Árlega eru haldnir 25-30 viðburðir í formi hádegis- eða morgunverðarfunda, örnámskeiða og ráðstefna.
Stærsti viðburður Ský er UTmessan, stór ráðstefna og sýning fyrir almenning sem var fyrst haldin árið 2011.

Upplýsingar um viðburði eru sendar með tölvupósti á póstlista Ský. Þátttökugjaldi á viðburði er stillt í hóf með það að leiðarljósi að sem flestir geti tekið þátt.

Upplýsingatækniverðlaun Ský eru veitt árlega frá árinu 2010 fyrir framlag til upplýsingatækni á Íslandi.

Félagið hóf útgáfu tímaritsins Tölvumál árið 1976 og er það eina óháða fagtímaritið á sviði tölvu- og upplýsingatækni hér á landi. Vikulega eru birtar greinar í vefútgáfu Tölvumála á www.sky.is og árlega er gefið út prentað eintak sem dreift er endurgjaldslaust til félagsmanna og á viðburðum Ský.

Einn af hornsteinum félagsins er starf (tölvu)orðanefndar sem hefur starfað nær óslitið frá árinu 1968. Nefndin hefur staðið fyrir útgáfu fjölda rita og einnig Tölvuorðasafns og kom fimmta útgáfa út á rafrænu formi árið 2013. Líklega eru Íslendingar einna lengst á veg komnir með íslenskun tölvumáls ef litið er til hinna Norðurlandanna. Tölvuorðasafn er afrakstur af áratuga starfi orðanefndar Skýrslutæknifélags Íslands.

Heimasíðan sky.is er andlit félagsins út á við og þar er að finna allar upplýsingar um faghópa og dagskrá viðburða ásamt yfirliti yfir liðna atburði og glærukynningar frá þeim. Þar fara einnig fram skráningar á viðburði svo og á póstlistann eða skráningar í Ský. Auk þess er félagið virkt á Twitter og Facebook ásamt LinkedIn og á Youtube.

Ávinningur af félagsaðild:

  • Lægri þátttökugjöld á viðburði félagsins fyrir félagsmenn
  • Greið leið að faghópastarfi innan félagsins og undirbúningsnefndum viðburða
  • Þátttaka í ritnefnd fyrir áhugasama og innsendu efni í fagtímarit félagsins
  • Áskrift að Tölvumálum


Faghópar Ský eru opnir öllum félagsmönnum:

  • Fókus, faghópur um upplýsingatækni í heilbrigðisþjónustu
  • Söguhópur (áður Öldungadeild), faghópur um varðveislu sögulegra gagna um upplýsingatækni á Íslandi
  • Fjarskiptahópur, sem hefur fjarskiptamál að leiðarljósi
  • Öryggishópur, með öryggismál að leiðarljósi
  • Faghópur um rafræna opinbera þjónustu, um bætta upplýsingatækni í opinberri þjónustu
  • Faghópur um vefstjórnun, vettvangur faglegrar umræðu um hin ólíku svið vefstjórnunar
  • Hugbúnaðarhópur, með faglega umræðu um hin ólíku svið hugbúnaðargerðar að leiðarljósi
  • Faghópur um rekstur tölvukerfa, áhersla á að auka þekkingu og skilning á mikilvægi rekstrar tölvukerfa
  • Faghópur um menntun, fræðslu og fræðistörf í UT, með áherslu á faglega umræðu um menntun og fræðistörf í UT geiranum
  • Faghópur um hagnýtingu gagna, með áherslu á gögn og hagnýtingu þeirra
  • Faghópur um stafræna vörustýringu


Auk þessara faghópa eru starfandi ritnefnd og orðanefnd innan félagsins ásamt siðanefnd. Nánari upplýsingar um félagið er að fá á skrifstofu eða með tölvupósti á netfangið sky@sky.is

hringida