Skip to main content
3. júní 2005

Netforrit Bændasamtaka Íslands

Jón Baldur Lorange og Þorbergur Þ. Þorbergsson

Bændasamtök Íslands hafa yfir að ráða mjög umfangsmiklum gagnagrunnum fyrir flest búfjárkyn og afurðir þeirra. Gögnum vegna sauðfjárskýrsluhalds var farið að safna í miðlægan gagnagrunn í kringum 1970 svo dæmi sé tekið. Bændasamtökin mótuðu þá stefnu fyrir um sex árum síðan að koma öllum skýrsluhaldsgagnagrunnum yfir á netið til að auka aðgengi að upplýsingum. Forsendur þess að þetta væri unnt voru annars vegar uppfylling á alþjónustukvöðinnni í fjarskiptalögum sem m.a. átti að tryggja “viðunandi” gagnaflutningstengingu fyrir alla landsmenn og annars vegar að unnt væri að finna rétta þróunarverkfærið. Í þessari grein verður fjallað um ávinning og kröfur til netforrita, hvaða tæknihögun varð fyrir valinu, netforrit Bændasamtakanna sem hafa verið þróuð og að síðustu komið inn á samstarf við Símann um uppbyggingu á ISDN um landið.

Í þessari grein verður fjallað um ávinning og kröfur til netforrita, hvaða tæknihögun varð fyrir valinu, netforrit Bændasamtakanna sem hafa verið þróuð og að síðustu komið inn á samstarf við Símann um uppbyggingu á ISDN um landið.  

Kröfur og ávinningur af netforritum

Kröfur til netforrita eru að þau séu hraðvirk, notendavæn og bjóði upp á umfangsmikla og stranga aðgangsstýringu eftir notendaflokkum og/eða svæðum. Þannig eru notendaflokkar í einstaklingsmerkingarkerfinu MARK samtals 7 og einnig skiptast notendur eftir landssvæðum. Eftir skoðun á helstu þróunarverkfærum fyrir um sex árum þá var veðjað á Oracle lausnir þ.e. JDeveloper og Oracle gagnagrunn. Þegar vinna hófst við fyrsta verkefnið, www.worldfengur.com, var komin útgáfa 1,0 af JDeveloper.

Ávinningurinn við að þróa tölvukerfi á netinu er umtalsverður. Fyrst er að nefna betri aðgengi að gögnum að stórum gagnagrunnum. Í öðru lagi opnast möguleikar á rafrænni skráningu á upplýsingum sem bætir þjónustu við notendur og jafnframt upplýsingaflæði. Í þriðja lagi hefur þetta í för með sér sparnað í tíma og fjármunum fyrir þróunaraðila, rekstraraðila og notendur. Í fjórða lagi næst meiri hraði og gagnaöryggi[5]. Í fimmta og síðasta lagi eru netforrit heppileg út frá byggðarlegu sjónarmiði.       

Ein af megin forsendum fyrir netforritum var að nettenging bænda væri viðunandi. Samkvæmt fjarskiptalögum sem sett voru undir lok síðustu aldar þá var sett alþjónustukvöð á Símann sem m.a. kveður á um að allir landsmenn skyldu fá 128.000 b/s gagnaflutningssamband. Þarna er tekið mið af reglum hjá Evrópusambandinu. 

Tæknihögun

Netforrit Bændasamtakanna er byggð á veflausn.  Það eina sem notendur þurfa að hafa til að nálgast kerfið er vefrápari.  Viðmótið er útfært með HTML og Java lausnum.   Myndin hér að neðan sýnir samband á milli vefrápara og JSP, Servlet og Bauna.  JSP, Servlet og Baunir eru keyrð á miðlara.

Vélbúnaður

 


 

PC biðlari er vefrápari (Internet Explorer) sem hefur samskipti við vefmiðlarann.  Vefmiðlarinn sér síðan um að birta og taka við gögnum með Servlets og JSP (Java Server Pages). Vefmiðlarinn hefur síðan samband við miðlarann (Oracle Application server). Samskipti milli vefbiðlara og vefmiðlara eru um netið.

 

Netforritin eru unnin  í JDeveloper þróunartólinu frá Oracle. WorldFengur er nú í JDeveloper útgáfu 3.1.1.2, MARK, HUPPPA og FJÁRBÓK eru unnin í útgáfu 9.0. WorldFengur verður uppfærður í nýjustu útgáfu JDeveloper á næstu mánuðum.

 


 

Eins og sýnt er á myndinni hér að ofan er notuð þriggja laga högun í samskiptum (3-tier).

Viðmótslagið samanstendur af vefsíðum.  Samskipti við gagnagrunninn fara aldrei fram á þessu lagi.  Viðmótslag hefur einungis samskipti við vinnslulag.  Þau samskipti eru samkvæmt TCP/IP staðlinum.

Á vinnslulagi liggur Oracle Application Server (OAS).  Þar er vefmiðlarinn, sem inniheldur Java Server Pages(JSP), og miðlarinn sem sér um alla vinnsluna með java og Oracle gagnagrunnurinn situr á gagnagrunnslaginu.  Vinnsla í gagnagrunni fer að mestu leyti fram í pökkum með aðstoð sýna (views) og gikka (triggers).  Samskipti við gagnagrunninn eru yfir TCP/IP.
 

Netforrit Bændasamtakanna í dag

Í dag hafa Bændasamtökin þróað 4 tölvukerfi sem netlausnir. WorldFengur “reið á vaðið” og útkoman staðfesti að leiðin var fær með því þróunartóli sem veðjað var á. Hraðinn á netforritunum er ásættanlegur með ISDN tengingu og jafnvel í sumum tilfellum þó aðeins lághraðatenging á D-rás er notuð. Verður nú gert grein netforritum samtakanna.


WorldFengur

WorldFengur[6] (www.worldfengur.com) er upprunaættbók íslenska hestsins samkvæmt reglugerð um uppruna og ræktun íslenska hestsins nr. 948/2002 með síðari breytingum. Samið var við Skýrr hf. um forritun á kerfinu í samvinnu við tölvudeild Bændasamtakanna. Átaksverkefnið í hrossarækt styrkti smíði kerfisins. Fyrsta útgáfa var unnin í útgáfu 1,0 af JDeveloper, eins og komið hefur fram. WorldFengur er samstarfsverkefni Bændasamtakanna og FEIF, alþjóðlegra samtaka eigenda íslenska hestsins, en 18 þjóðir eru nú í samtökunum. WorldFengur var opnaður formlega á Heimsmeistaramóti íslenska hestsins í Austurríki árið 2001. Í dag eru notendur um 1.700 talsins í 16 löndum. Árleg fjölgun notenda hefur verið um 70-100% frá opnun kerfisins. Ströng aðgangsstýring er að kerfinu sem grundvallast á hvar hross eru fædd og staðsett og ennfremur á landi skrásetjara. Notendur eru skrásetjarar (registrars) í hverju landi, sem hafa skráningaraðgang, og hins vegar almennir skoðendur (read-only users). Hvert land á sinn hluta gagnasafnsins sem telur á þriðja hundrað þúsund hross sem staðsett eru í 22 löndum. Skráning á ættbókum í flestum aðildarlöndum FEIF fer í dag beint fram í upprunaættbókinni á netinu þar með taldar kynbótasýningar. Þannig geta áhugasamir fylgt með kynbótasýningum beint á netinu um leið og hún fer fram hver sem er í heiminum. Eitt af helstu markmiðum með WorldFeng var að byggja samræmdan gagnagrunn til að unnt væri að reikna alþjóðlegt kynbótamat (B.L.U.P.) fyrir öll hross. Í dag eru reiknað út kynbótamat fyrir öll hross á Norðurlöndum og fleiri lönd bætast við á þessu ári.
 

Tungumál í kerfinu eru íslenska, enska, þýska, hollenska, finnska, norska, danska og sænska. Eftirfarandi aðildarfélög FEIF eru aðilar að samstarfinu um WorldFeng og hafa skráningaraðgang að kerfinu; Österreicher Islandpferde Verband, Austurríki, The United States Icelandic Horse Congress, Bandaríkjunum, Belgisch Stamboek voor de Ijslandse pony, Belgíu, The Icelandic Horse Society of Great Britain (IHSGB), Bretlandi, Dansk Islandshesteforening, Danmörku, Suomen Islanninhevosyhdistys (SIHY), Finnlandi, Fédération Française du Cheval Islandais, Frakklandi, Nederlands Stamboek voor Ijslandse Paarden, Hollandi, Associazione Allevatori Cavalli Islandesi di Italia, Ítalíi, D’Frénn vun den Island Pfärd, Lúxemborg, Norsk Islandshestforening, Noregi, Die Islandpferdevereininung Schweiz, Sviss, Svenska Islandshästbundet, Svíþjóð, Islandpferde-Reiter- und Züchterverband Deutschland (IPZV), Þýskalandi.

MARK

MARK (www.bufe.is) er tölvukerfi fyrir einstaklingsmerkingar búfjár samkvæmt reglugerð nr. 463/2003 með síðari breytingum. Kerfið er unnið að beiðni landbúnaðarráðuneytisins og Embættis yfirdýralæknis. Markmið reglugerðarinnar er að tryggja rekjanleika búfjárafurða frá upprunahjörð og/eða fæðingu viðkomandi dýrs til sölu afurða og skapa með því grundvöll að markvissu matvæla- og búfjáreftirliti, skráningu búfjársjúkdóma og meðhöndlun þeirra (1. gr.). MARK var opnað á síðasta ári og hefur verið unnið í tölvudeild Bændasamtakanna. Notendur eru landsráðunautar, héraðsráðunautar, starfsfólk Embættis yfirdýralæknis, héraðsdýralæknar, bændur og starfsfólk sláturhúsa ásamt umsjónarmanni og hafa allir séraðgang m.a. eftir svæðum. Í dag geta bændur pantað plötumerki í kerfinu beint frá merkjaframleiðenda í Noregi, skráð kaup og sölu gripa, skoðað grunnupplýsingar um alla gripi í hjörð, skráð afdrif o.fl. Um 300 notendur eru að MARK í dag en gera má ráð fyrir að þeir verði orðnir yfir eitt þúsund á næsta ári. Við smíði kerfisins voru skoðuð hliðstæð kerfi í Danmörku og Noregi. MARK býður upp að neytendur geti rakið framleiðsluvörur til bænda eftir einstaklingsnúmerum eins og tíðkast í Danmörku í dag. Skýrsluhaldsgagnagrunnar Bændasamtakanna er aðgengilegir frá MARK, sem er nokkurs konar “regnhlíf” yfir safni gagnagrunna. Á þessu ári hefst vinna við að bæta við kerfið upplýsingum um heilsukort gripa í samvinnu við dýralækna.

HUPPA

Huppa (www.huppa.is) er skýrsluhaldsgagnagrunnur í nautgriparækt. Huppa opnaði að nýju eftir endurbætur á síðasta ári. Kúabændur hafa aðgang að skýrsluhaldsupplýsingum svo sem ætterni gripa sinna, kynbótamati, afkvæmalistum, nautaskrá, búsmeðaltölum og lykiltölum afurðaskýrsluhaldsins o.fl. Skráning á sæðingum kúa frá frjótæknum og val á nautum verður bætt við á þessu ári en vinna við forritun þessa þátta er á lokastigi. Upplýsingar um á þriðja hundrað þúsund gripa eru í gagnagrunninum. Gagnagrunnur Huppu er ein af meginstoðunum í tölvukerfinu MARK. Allir kúabændur geta fengið aðgang að Huppu og hafa um 200 bændur fengið aðgang.

FJÁRBÓK

Fjárbók er nýjasta tölvukerfi Bændasamtakanna en þar er um að ræða skýrsluhaldskerfi í sauðfjárrækt. Gagnagrunnur kerfisins er geysistór og hefur að geyma í upphafi upplýsingar um á aðra millljón gripi og á hverju ári bætast við upplýsingar um 500.000 lömb. Fjárbókin var upphaflega unnin af tölvufyrirtækinu Tölvusmiðjunni á Austurlandi en tölvudeild Bændasamtakanna tók síðan við verkinu. Kerfið verður prófað af hópi valinna bænda og ráðunauta vegna framleiðsluársins 2005 en á að opna fyrir alla sauðfjárbændur vegna skráningu skýrsluhalds fyrir framleiðsluárið 2006. Smíði tölvukerfisins var styrkt af RANNÍS og Framkvæmdanefnd búvörusamninga.

Samstarf við Símann

Bændasamtökin hafa átt gott samstarf við Símann og verkefnið Upplýsingatækni í dreifbýli á undanförnum árum varðandi vinnu Símans við uppbyggingu á ISDN á landsbyggðinni. Sameiginlegir fundir þessara aðila hafa verið haldnir um allt land með bændum. Síminn hefur lagt í umtalsverðan kostnað við þessa uppbyggingu til að uppfylla alþjónustukvöð sem lögð var á fyrirtækið af stjórnvöldum. Vissulega hefur undirrituðum fundist að Síminn hefði mátt ganga hraðar fram í þessari vinnu en aðalmálið er að þegar Síminn lýkur framkvæmdum á þessu ári þá hafa nær allir bændur kost á a.m.k. ISDN tengingu. Síminn kynnti einnig til sögunnar ISDNplús sem opnaði fyrir lághraða sítengingu á D-rás. Þetta er þó aðeins áfangi á langri leið og tryggja þarf þeim sem ekki eiga kost á ADSL sítengingu gegn föstu gjaldi að þeir fái sambærileg kjör. Þá er ég sannfærður um að tækniframfarir á næstu misserum eiga  eftir að tryggja öflugra gagnaflutningssamband í hinum dreifðu byggðum t.d. með Wi-Max sem Síminn hefur kynnt. Ég vil sérstaklega þakka Einari H. Reynis og Gunnari Magnússyni starfsmönnum Símans fyrir frábær störf í þessu sambandi.

Lokaorð

Þegar litið er yfir farin veg í þróun á netforritum Bændasamtakanna er ekki hægt að vera annað en nokkuð sáttur við árangurinn. Þróunarverkfærin sem voru valin í upphafi eftir skoðun á hvað bauðst á þeim tíma hafa staðið undir væntingum. Fjögur stór tölvukerfi hafa verið smíðuð sem byggjast á viðamiklum gagnagrunnum í Oracle. Rekstur og hýsing þeirra hjá Skýrr hf. hefur gengið mjög vel og samstarfið við fyrirtækið verið árangursríkt og ánægjulegt. Tölvudeild Bændasamtakanna hefur verið lánsöm að hafa í vinnu afbragðs forritara en einnig notið liðveislu sérfræðinga frá Skýrr og frá Miracle tölvufyrirtækinu. Einnig ber að þakka uppbyggingu Símans á öflugra gagnaflutningsneti á landsbyggðinni sem var forsenda fyrir netvæðingunni.   



[1] Jón Baldur Lorange er kerfisfræðingur og forstöðumaður tölvudeildar Bændasamtaka Íslands

[2] Þorberg Þ Þorbergsson er tölvunarfræðingur og forritari í tölvudeild Bændasamtaka Íslands

[3] Skilgreining á alþjónustu samkvæmt lögum um fjarskipti er “Afmarkaðir þættir fjarskipta af tilteknum lágmarksgæðum sem boðnir eru öllum notendum á viðráðanlegu verði, óháð landfræðilegri staðsetningu þeirra.”

[4] Lög um fjarskipti nr. 81/2003.

[5] Öll netforrit Bændasamtakanna eru hýst hjá Skýrr hf., sem hefur yfir að ráða öflugum miðlurum og tryggir vöktun allan sólarhringinn.

[6] Forveri kerfisins er Fengur sem smíðaður var fyrst sem lokaverkefni frá Tölvuháskóla Verslunarskóla Íslands (nú Háskólans í Reykjavík) árið 1991. Einnig var gefinn út margmiðlunardiskurinn Íslandsfengur 1998-2000 og Veraldarfengur var opnaður á netinu 1997. WorldFengur tók yfir öll þessi kerfi.


Skoðað: 7922 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála