Skip to main content
14. júní 2018

Notkun samfélagsmiðla

SigurbjNotendum samfélagsmiðla hefur fjölgað undanfarin ár og spár gera ráð fyrir áframhaldandi fjölgun. Þróunin helst vel í hendur við fjölgun snjallsíma um heim allan. Mikill áhugi er á samfélagsmiðlum meðal íslenskra fyrirtækja og hvergi í Evrópu nota fleiri fyrirtæki samfélagsmiðla en á Íslandi. Mikilvægt er að leggja meiri vigt í samfélagsmiðla með góðri undirbúningsvinnu.

Samfélagsmiðlar verða æ mikilvægari hluti af lífi fólks og er notkun samfélagsmiðla orðin ein vinsælasta iðjan á internetinu. Á árinu 2017 voru 71% allra netverja virkir notendur á samfélagsmiðlum (Statista, 2018).

Þróun síðustu ára gefur vísbendingar um áframhaldandi aukningu á notkun samfélagsmiðla. Á mynd 1 má sjá fjölda notenda samfélagsmiðla um heim allan frá árunum 2010–2016 og jafnframt spá um þróunina til ársins 2021. Því er spáð að árið 2020 verði notendur samfélagsmiðla orðnir tæpir þrír milljarðar. Gangi spáin eftir er um að ræða 52% aukningu frá og með árinu 2014.

g1
Mynd 1. Notendur samfélagsmiðla í heiminum. Tölur í milljörðum. (Statista, 2018).

Það er því ljóst að samfélagsmiðlar eru mjög vinsælir meðal þeirra sem nota netið og munu vinsældir þeirra halda áfram að aukast ekki síst í ljósi þess að æ fleiri eignast snjallsíma um heim allan. Snjallsímatækni hefur fleygt fram og margar nýjungar hafa verið kynntar. Þróun smáforrita og annarrar stafrænnar miðlunar fyrir snjallsíma hefur verið ör. Viðmót samfélagsmiðla er notendavænna en áður og stöðugt er unnið að framþróun á virkni og nýjungum til að létta notendum lífið og gera það ögn skemmtilegra. Á mynd 2 má sjá hvernig snjallsímaeigendum hefur fjölgað og einnig hvernig Statista spáir fyrir um áframhaldandi aukningu.

g2
Mynd 2. Fjöldi snjallsímaeigenda í heiminum. Tölur í milljörðum. (Statista, 2018).

Statista gerir ráð fyrir í sínum spám að allt að 36% heimsbyggðarinnar muni nota snjallsíma árið 2018 samanborið við 10% árið 2011. Það er gífurleg aukning sem ber að bregðast við.

Ísland fer ekki varhluta af þessari þróun. Snjallsímum á Íslandi hefur fjölgað mikið undanfarin ár eins og sjá má á mynd 3. Á árinu 2017 sögðust 86% Íslendinga, 18 ára og eldri, eiga snjallsíma. Þetta hlutfall hefur því hækkað um 65% á sex árum (Sigríður Margrét Oddsdóttir, 2018). Einnig hefur orðið gífurleg aukning á gagnamagni á farsímaneti á Íslandi (sjá mynd 4).

g3
Mynd 3. Hlutfall snjallsíma á Íslandi. (Gallup, 2018).

 

 g4

Mynd 4. Gagnamagn á farsímaneti í gígabætum. (Gallup, 2018) .

Íslensk fyrirtæki hafa aðlagast þessum tækniframförum með því að sækja meira í samfélagsmiðla til að vera sýnileg, koma skilaboðum til neytenda og eiga í gagnvirkum samskiptum við þá. Samkvæmt úttekt Hagstofunnar er ljóst að íslensk fyrirtæki eru vel meðvituð um mikilvægi samfélagsmiðla. Hvergi í Evrópu nota fleiri fyrirtæki /(fyrirtæki með að lágmarki tíu starfsmenn) samfélagsmiðla en á Íslandi (sjá mynd 5). Árið 2017 notuðu 79% íslenskra fyrirtækja samfélagsmiðla samanborið við 47% í allri Evrópu (Hagstofa Íslands, 2018).

g5

Mynd 5. Samfélagsmiðlanotkun fyrirtækja í Evrópu 2017. (Hagstofa Íslands, 2018).

  • Árið 2017 nýttu tveir þriðju hlutar íslenskra fyrirtækja samfélagsmiðla til að þróa ímynd sína og markaðssetja vörur.
  • Þriðjungur fyrirtækja notaði samfélagsmiðla til að ráða fólk til starfa árið 2017 en það hlutfall var 19% árið 2013.
  • Árið 2017 svararaði rúmlega helmingur fyrirtækja fyrirspurnum og ábendingum á samfélagsmiðlum sem var aukning um rúmlega 20% á fjórum árum
    (Hagstofa Íslands, 2017).

Það er því ljóst að vægi samfélagsmiðla hjá íslenskum fyrirtækjum hefur aukist og sífellt fleiri eru að átta sig á mikilvægi samfélagsmiðla á ýmsum sviðum. Nú er lag að íslensk fyrirtæki haldi áfram á sömu braut og leggi enn meiri vigt í samfélagsmiðla með góðri undirbúningsvinnu. Það er hægt að gera með notendarannsóknum, ýmiss konar greiningarvinnu og skriflegri stefnumótun. Þannig getum við náð betur til notenda okkar og þjónað þörfum þeirra betur.

Höfundur: Dagbjört Tryggvadóttir er upplýsingafræðingur með MA próf í hagnýtri menningarmiðlun og diplómagráðu í vefmiðlun frá Háskóla Íslands. Hún er annar eiganda vefjarins www.huxa.is - vefs um stafræn mál.

Heimildir
Hagstofa Íslands. (2017, 15. nóvember). Þriðjungur fyrirtækja notar samfélagsmiðla til að ráða fólk til starfa. Sótt af https://hagstofa.is/utgafur/frettasafn/visindi-og-taekni/upplysingataekninotkun-fyrirtaekja-2017/ 

Hagstofa Íslands. (2018, 15. janúar). Notkun fyrirtækja á samfélagsmiðlum algengust á Íslandi af Evrópulöndum. Sótt af https://hagstofa.is/utgafur/frettasafn/visindi-og-taekni/notkun-fyrirtaekja-a-samfelagsmidlum-i-evropu-2017/ 

Sigríður Margrét Oddsdóttir. (2018, 14. mars). Áratugur breytinga: Stafræna byltingin. Sótt af https://www.gallup.is/frettir/aratugur-breytinga-stafraena-byltingin/ 

Statista. (2018). Number of smartphone users worldwide from 2014 to 2020 (in billions). Sótt af https://www.statista.com/statistics/330695/number-of-smartphone-users-worldwide/ 

Statista. (2018). Number of social network users worldwide from 2010 to 2021 (in billions). Sótt af https://www.statista.com/statistics/278414/number-of-worldwide-social-network-users/ 

 

Skoðað: 2229 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála