Skip to main content
12. desember 2019

Tæknin í heilbrigðiskerfinu

5g surgery china remote operationÞróun tækni- og tölvubúnaðar hefur tekið hröðum framförum undanfarin ár og hefur sú þróun átt þátt í miklum framförum innan heilbrigðiskerfisins. Með stórstígum skrefum fram á við er hægt að tryggja ávinning fyrir bæði starfsfólk og sjúklinga í heilbrigðisgeiranum: tryggja sjúklingum hnitmiðaðri greiningu vandamála/sjúkdóma sem og lausn eða lækningu sem er sniðin að hverjum og einum.

Tæknin hleypur undir bagga með starfsfólki, með ýmis konar greiningar, vöktunar og sérútbúnaði sem er ætlað að létta á álagi og fækka handtökum hjá starfsstétt sem þegar er undirmönnuð og býr við mikið starfsálag. Rétt tæki og tækni geta fækkað mistökum, sparað tíma, peninga og aukið öryggi sjúklinga og starfsfólks.

Vöktun sjúklinga

Með nýrri tækni er hægt að fækka eða jafnvel eyða alveg þörf innlögnum til eftirlits, sem og endurkomum í eftirlit. Í þeim tilfellum þar sem einstaklingur þarf að vera undir eftirliti er hægt að nýta sér tækni til fjareftirlits. Þá, í þeim tilfellum sem sjúklingur þyrfti annars að vera inná stofnun eða koma reglulega til eftirlits, væri hægt að hleypa honum heim með rafrænan búnað sem vaktar þann hluta sjúklingsins sem þess þarf hverju sinni.

Dæmi um búnað sem veitir fjareftirlit:

Innvær hjartsláttarnemi

Þessi búnaður er sá fyrsti sinnar tegundar sem býður uppá tengingu við snjallsíma. Þar geta sjúklingar fylgst með stöðu sinni og líðan. Einnig fylgist tækið með og lætur vita ef notandi er með óreglulegan hjartslátt eða aðrar hjartsláttartruflanir, á hættu á hjartayfirliði, hjartablóðþurrðarslögum o.fl. (Abbot, 2019).

Sjálfvirk insúlíndæla

Þessi búnaður aðstoðar sykursjúka við að fylgjast með sykurgildum og stýra lyfjagjöf í samræmi. Þetta getur ýmist verið sjálfvirkt eða sjúklingur getur sjálfur stjórnað insúlíngjöf  (AZMedica, 2019).

Betri þjónusta

Með tilkomu háhraða tenginga, ljósleiðara og nú væntanlegri komu 5G er læknum gert kleift að þjónusta og aðstoða sjúklinga sína án þess að hitt þá augliti til auglitis. Gott dæmi um þetta er heilsuvera.is , þar er hægt að eiga samskipti við starfsfólk í heilbrigðisgeiranum, endurnýja lyfseðla, bóka tíma hjá lækni, skoða og skrá ýmis gildi tengt eigin heilsu og fleira. Kannski frekar takmarkað en getur samt sem áður dregið úr komum til lækna vegna smávægilegra vanda og erinda, því gæti biðtími eftir læknaviðtali mögulega minnkað.

Einnig er mjög spennandi að sjá tilkomu róbóta og fjar - skurðlækninga (Tele – Surgery ), þetta er reyndar ekki alveg nýtt af nálinni (Sjá Lindbergh skurðaðgerðin). En sökum biðtíma (latency ) milli þess sem stjórnar og þess tækis sem tekur við skipuninni þá hefur þetta ekki verið fýsilegur kostur þar sem áhætta skapast vegna biðtímans milli skipunar og framkvæmd hennar. Ef marka má fréttir frá Kína, þá hefur tekist hjá vísindamönnum þar í landi að þróa tæki sem nýtir sér 5G tækni og tengingu til að framkvæma fjar - skurðaðgerðir á öruggan hátt. Með tilkomu 5G er nánast enginn biðtími og skipanir stjórnanda eru framkvæmdar í rauntíma.

Í janúar á þessu ári( 2019 ) á sjúkrahúsi í Suð-Austur Kína, fór fram prófun á þessari tækni. Þar var framkvæmd aðgerð á lifandi tilraunadýri, læknir sem var staðsettur um 50 km frá, fjarlægði lifur úr téðu tilraunadýri. Að sögn þeirra sem stóðu að þessari prófun, þá tókst aðgerðin fullkomlega (Cuthbertson, 2019).

Allir jafnir?

Getum við vonast eftir betri þjónustu með tilkomu slíkrar tækni? Ef öll sjúkrahús eru búinn slíkum skurðlækna-róbótum, er þá hægt að óska eftir því að færasti skurðlæknirinn í hverju fagi framkvæmi aðgerðina? Hvernig verður þessu háttað, eiga allir rétt á þessari þjónustu, munu skurðlæknar hætta að starfa innan sjúkrahúsa? Stofna eigin fyrirtæki og selja þjónustu sína og færni til hæstbjóðanda, sama hvar í heiminum hann kann að vera. Verður til heilbrigðis-elíta, þar sem aðeins efnamikið fólk getur keypt sér aðgang.

Það vakna sannarlega ýmsar áleitnar spurningar við tilkomu tækni sem tekur stórt skref fram á við. Við verðum að gæta að grunnstoðum innviða okkar og tryggja öllum jafnan hlut þegar það kemur að heilbrigðisþjónustu.

Höfundur: Einar Sveinbjörnsson

Heimildir

Abbot. (22. 09 2019). CONFIRM Rx™ ICM WITH. Sótt 22. 09 2019 frá Abbot Cardiovascular: https://www.cardiovascular.abbott AZMedica. (22. 09 2019).

Paradigm Veo insúlíndæla. Sótt frá AZMedica: https://medica.is/sykursyki/veo-insulindaela/ Cuthbertson, A. (17. 01 2019).

SURGEON PERFORMS WORLD'S FIRST REMOTE OPERATION USING '5G SURGERY' ON ANIMAL IN CHINA. (Independent) Sótt 22. 09 2019 frá Indy/Life: https://www.independent.co.uk/life-style/gadgets-and-tech/news/5g-surgery-china-roboticoperation-a8732861.html

Mynd fengin af https://www.independent.co.uk/life-style/gadgets-and-tech/news/5g-surgery-china-robotic-operation-a8732861.html

Skoðað: 941 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála