Skip to main content
7. maí 2020

Framtíðin í lófa þínum

mynd tolvumalFólk er gjarnt á að bæði sækjast eftir breytingum og óttast þær. Fyrir nokkrum áratugum hefði það þótt skelfileg tilhugsun að þorri jarðarbúa gengju með tæki á sér sem gerði öðrum kleift að rekja ferðir þeirra en núna víla fáir fyrir sér að ganga með síma á sér sem geta alltaf sagt til um ferðir þeirra. Tæknin sem sækir inn fyrir mörk líkamans hefur verið efniviður í hryllingsbókmenntir og kvikmyndir öldum saman – frá því Mary Shelley skóp skrímsli Frankenstein – en á síðustu árum hefur þessi tækni smám saman farið að færast nær veruleikanum og verða sífellt sjálfsagðari hluti af honum. Heilsuúr sem mæla púls, skref og svefnvenjur eru orðin hversdagsleg, lækningatæki á borð við gagnráði eru sett inn í líkamann til að halda honum gangandi og margs konar læknisfræðilegar rannsóknir og tilraunir eru nú stundaðar með örflögu-ígræðslum. Viðhorfin breytast um leið og mörkin eru smám saman færð. Ótti verður ónæmi.

Enn eru töluvert um efasemdir í garð ígræða. Fólk er í auknum mæli að velja þær af hagkvæmniástæðum fremur en lífsnauðsynlegum sem sumum þykir ekki góð réttlæting á því aðskotahlutum sé komið fyrir í líkamanum. Við það bætist svo aukið eftirlit sem fylgir hinni hröðu fjarskiptaþróun. Fólk er daglega að deila gífurlegu magni af persónulegum upplýsingum, oft án þess að gera sér grein fyrir víðfeðmi þess magns. Miðlun persónuupplýsinga lýtur ekki enn þá nógu góðri stjórn miðað við hversu algeng hún er orðin og möguleikar á misnotkun óteljandi. Tækni einfaldar líf okkar á svo margvíslegan hátt og minnkar alla vinnu. Flestallar upplýsingar eru í seilingarfjarlægð og fólk er gjarnan viljugt til að deila upplýsingum með öðrum. Það eru góðar fréttir fyrir örflöguiðnaðinn því vilji notanda til að nýta þá tækni er að aukast.

Aðgerðin og aðdragandinn

Rekja má þróun ígræða samhliða þróun gangráðsins. Upphaflega voru slík tæki utanáliggjandi og færanlega, með aukinni tækniþróun urðu þau klæðanleg og næsta skrefið er svo að græða tæknina í líkama manneskjunnar. Fyrsti innvortis gangþráðurinn var græddur í manneskju árið 1958 [[1]] þannig að ígræðslu hugmyndin hefur verið til staðar í töluverðan tíma. Það sem hefur breyst er að áherslurnar eru ekki lengur bara á lækningarmátt slíkra ígræðsla. Fólk er í auknum mæli að láta græða í sig ígræðslur til hægðarauka fremur en bættrar heilsu.

Ígræðið er yfirleitt á stærð við hrísgrjón og er sívalningslaga. Það samanstendur af lítilli örflögu, epoxy kvoðu og loftnetvír úr kopar. Saman er þetta hjúpað gleri sem hefur ekki truflandi áhrif á starfsemi líkamans en verður til þess að vefir myndast í kringum það til þess að koma í veg fyrir að það fari á flakk [2]. Enn sem komið er hefur ígræðið ekki innri aflgjafa heldur virkjast þegar það kemst í námunda við segullæsibúnað. Örflögurnar eru ýmist RFID eða NFC (RFID er Radio-frequency identification en NFC stendur fyrir Near-Field Communication) en helsti munur þar á er að RFID má nýta sem lykla eða til að vista lykilorð en NFC er meira eins og sýndarveski sem þú getur notað til að borga með. RFID örflögur gegna einungis hlutverki senda á meðan NFC örflögur geta bæði lesið og sent gögn, til að mynda er það NFC tækni sem gerir okkur kleift að deila gögnum með því að leggja tvo farsíma saman [2].

Aðgerðin sjálf er afar einföld og tiltölulega sársaukalaus. Stór sprautunál er notuð til þess að græða ígræðið í líkamann, yfirleitt í húðsvæðið á milli þumals og vísifingurs. Sagt hefur verið að það sé sársaukafyllra að láta setja göt í eyrun á sér [3]. Sem dæmi um leiðandi fyrirtæki á ígræði-markaðnum má nefna Verichip, Biohax, Dangerous things og Microchips Biotech. Ígræðin hafa ekki áhrif á málmleitartæki eða leitarhlið á flugvöllum og einnig er mjög einfalt að fjarlægja þau.

Ígræði hafa verið notaðar til í gæludýr í fjölda ára til merkingar og er jafnvel lögbundið í sumum löndum, t.d. Bretlandi [4]. Fyrsta manneskjan til þess að láta græða í sig örflögu til gamans var Kevin Warwick, verkfræðingur og prófessor við Háskólann í Coventry en hann lét græða RDFI flögu í aðra hönd sína árið 1998. Hann hefur rannsakað sérstaklega tengsl hins mennska og tækni og segist alltaf hafa spurt sjálfan sig hvort hann sé fyllilega sáttur við að vera bara mennskur [5]. Hann seilist langt í rannsóknum sínum og er nú að reyna að rækta heilasellur úr rottum á á vélbúnaði með það að leiðarljósi að finna leiðir til að geta ræktað lífrænan heila í vélmennum [6].

Möguleikar

Líkt og áður hefur komið fram geta örflöguígræðslur komið í stað hversdagslegra hluta á borð við greiðslukort, auðkenniskort og varðveislu upplýsinga. Fleiri möguleikar eru þó fyrir hendi og með tækninýjungum bætist frekar í safnið heldur en hitt. Til að mynda hefur sænska fyrirtækið Biohax samið við þarlend lestarfyrirtæki að handhafar geta notað flöguna í stað venjulegra lestarmiða [7]. Strandbarinn Baia í Barcelona hefur sett upp lesara þar sem drykkir eru settir á reikninginn þinn þegar manneskja ber ígræðsluna að lesaranum og þar er einnig hægt að fá ígræðsluna grædda í sig [8]. Önnur nytsemi ígræðslunnar, á aðeins alvarlegri nótum, er að með henni væri hægt að bera kennsl á óþekkjanleg lík og manneskjur sem geta ekki gert grein fyrir sér.

Möguleikar til að nýta örflöguígræðslur innan læknisfræði eru fjölmargar og hafa vaxið undanfarin ár, allt frá hjarta og heilagangráðum og í örflögur sem búa yfir þeirri tækni að geta losað frá sér vissum skammti af efnum á ákveðnum tímapunktum. Síðastnefnda örflagan var þróuð af vísindafólki við MIT árið 1990 en hefur styrktarsjóður Melindu og Bill Gates styrkt nýlegar tilraunir til þess að þróa ígrædda langtíma getnaðarvörn fyrir konur byggða á þeirri tækni. Ígræðslan væri sett undir húð á maga eða rassi og væri fjarstýranleg. Með öðrum orðum þá gæti konan kveikt og slökkt á henni eftir óskum[9]. Þessa tækni mætti nýta í flest allar lyfjagjafir fyrir fólk og eru kostir þess verulegir.

Lífhakkarinn - hálfur maður, hálfur vél

Það getur verið gagnlegt að bera tækniþróun saman við líffræðilega þróun þar sem í báðum tilfellum um er um breytingu á milli kynslóða að ræða. Líffræðilegir eiginleikar breytast fyrir tilstilli náttúruvals á meðan þau sem beita tækninni búa til æ flóknar útgáfur á einfaldari frumgerðum. Lífverur þurfa að fjölga sér til að lifa af og á svipaðan hátt þurfa tækninýjungar að ná að þróast til að lifa af samkeppni og auknar kröfur. Nú þegar er fólk að nota ýmsar leiðir til að endurbæta eða breyta líkömum sínum með ígræðslum og ísetningum (e. insertables). Þetta er sérstaklega áberandi þegar litið er á hina hversdagslegu notkun á lykkjum og hormónaprikum, rörum í eyru ungbarna og heyrnatækjaígræðslum. Ígræðslu tækin er enn á byrjunarstigi og þeir einstaklingar sem ríða fyrst á vaðið og tileinka sér tæknina eru gjarnan kallaði lífhakkarar – eða Biohackers [10].

Margir listamenn hafa brugðið sér í hlutverk lífhakkara með því að umbreyta útliti sínu á nafni listarinnar þannig að skilin á milli mennskunnar og tækninnar þurrkast út. Einn slíkur er Stelarc, ástralskur listamaður ættaður frá Kýpur, sem er þekktastur fyrir verk sitt „Eyra á armi“. Verk fólst í því að hann lét græða vinstra eyra (ekki sitt eigið) á vinstri handlegg sinn með virkum míkrófón inni í. Míkrófóninn þurfti því miður að fjarlægja sökum sýkingar en listamaður er með áform um að koma honum aftur fyrir og tengja þráðlaust við netið [11]. 

Annar listamaður sem hefur gert tilraunir með mörk tækni og mannslíkama er Lans King. Hann notast við hugmyndina „Hinn nýi heimur“ (The New Real) og segir að nútíma tækniframfarir séu að skapa „yfirheim“ þar sem fólk eigi erfitt með að greina á milli hins raunverulega heims og sýndarveruleika. Nýjasta verk hans, „This is my body(of work)“ fólst í því að hann ferðaðist til Svíþjóðar og lét græða NFC örflögu í sig af Jowan Österlund hjá Biohax International. Örflagan hafði verið kóðuð með ákveðnu vistfangi grunnkeðju (blockchain address) og skráð hjá Codex Registry. Þessi örflaga veitir aðgang að öllum hans verkum, bæði þeim sem hann hefur gert og þeim sem hann mun gera. Örflagan er einnig til sölu ásamt öllum þeim verkum sem listamaðurinn hefur skapað og mun skapa á ævi sinni [12].

Hin hliðin

Eins og staðan er í dag þætti eflaust flestum að skyldaðar örflöguígræðslur væru ofbeldisfull afskipti af lífi einstaklingsins. Þar vegur eftirlitsþátturinn þungt. Við erum alla jafnan undir stanslausu eftirliti, bæði úti á götu og á netinu. Tilhugsunin um enn meiri eftirgrennslan gengur nærri manneskjunni og hugmyndum hennar um einkalíf. Þetta á sérstaklega við þegar örflögur eru annars vegar. Tæknin til að fylgjast með fólk í gegnum örflögur er ekki enn til (sú tækni sem er t.d. notuð við að fylgjast með ferðum gæludýra er takmörkuð og orkufrek) en óttinn er engu að síður til staðar enda slík tækni vinsæl í hasar – og vísindaskáldskaparmyndum. Staðreyndin er að nú er aðeins hægt að lesa af örflögunum af stuttu færi en hver veit hverju tæknin mun skila í framtíðinni.

Það er mun raunverulegri hætta að einhvers konar vírussýking berist í örflöguna eða að hún sé hreinlega hökkuð. Fyrst hægt er að forrita ígræðslur fyrir ákveðin verkefni er ekki jafn góður möguleiki að aðrir geti komist í tæri við hana og gert slíkt hið sama? Árið 2010 tókst vísindamanninum Mark Gasson að sýkja sína eigin ígræðslu með vírus og láta hana smita annað tæki [2]

Andstæðingar

Andstaðan við örflögu ígræðslur kemur úr ýmsum áttum. Þar ber mest á trúarofstækisfólki og þeim sem aðhyllast samsæriskenningar. Þessir hópar mótmæla á mjög ólíkum forsendum en hafa þó báðir leitað til Biblíunnar eftir staðfestingu á vantrú sinni. Þar stendur:

Og dýrið lætur alla, smáa og stóra, auðuga og fátæka og frjálsa og ófrjálsa, setja merki á hægri hönd sér eða á enni sín og kemur því til leiðar að enginn geti keypt eða selt nema hann hafi merkið, nafn dýrsins, eða tölu nafns þess. Opinberun Jóhannesar 13:16-17 [13].

Líkindi „merki dýrsins“ við örflöguna eru reyndar furðu mikil þar sem fólk er nú þegar farið að geta stundað fjármálaviðskipti með ígræðslunum sínum og sumir eru með lítil ör á ígræðslusvæðinu. The Universal Life Church Monestary er kirkja sem rekin er á netinu og aðhyllist allar trúarkenningar. Fulltrúar hennar viðurkenna að nýrri tækni mæti gjarnan ótti og efasemdir en velta jafnframt fyrir sér hvort að með því að fela hluta af manneskjunni tölvu á vald sé hún að leggja líkama hennar í hættu, sem og friðhelgi einkalífsins, og jafnvel sálina [14]. Nokkrar kristnar bloggsíður hafa haldið því fram að kolanámumaður að nafni Beverly Butcher hafi kært vinnuveitendur sína fyrir að skylda starfmenn sína til að fá ígræðslur. Samkvæmt themonestary.org fékk Butcher yfir hálfa milljón dali í skaðabætur en erfitt er að staðfesta þessa frásögn því Google-leit skilar aðeins kristnum bloggsíðum. Eins virðist engar staðfestar fregnir vera um skyldaðar ígræðslur þótt fyrirtæki séu byrjuð að notast við valkvæðar ígræðslur í starfsmenn [15]. Kayla Heffernan hefur rannsakað ígræðslur og segir hún að ástæður sem liggja að baki valkvæðum ígræðslum séu margvíslegar. Meðal annars nefnir hún nýjar aðferðir við hversdagslegar athafnir, líkt og að opna hurðir eða borga fyrir kaffi með lófanum einum saman, spenningurinn sem fylgir því að gera hluti á nýjan máta, þægindaaukanum sem fylgir því að finna alltaf lyklana sína og fleira í þeim dúr [3]. Því þótt vissulega séu ýmis hættusvæði á ígræðslubrautinni eru vegurinn fram undan það spennandi að líklegt er að fólki muni halda áfram að feta sig eftir honum og óvíst hvort hann taki nokkurn tíma enda.

Höfundar: Ásta Gísladóttir og Katrín Guðmundsdóttir nemendur við Háskólann í Reykjavík

Heimildaskrá

[1] K. J. Heffernan, F. Vetere, og S. Chang, „You Put What, Where?: Hobbyist Use of Insertable Devices“, í Proceedings of the 2016 CHI Conference on Human Factors in Computing Systems - CHI ’16, Santa Clara, California, USA, 2016, bls. 1798–1809.

[2] A. Staff, „A practical guide to microchip implants“, Ars Technica, 01-03-2018. [Rafrænt]. Aðgengilegt á: https://arstechnica.com/features/2018/01/a-practical-guideto-microchip-implants/. [Sótt: 17-sep-2019].

[3] K. J. Heffernan, „Wearables are so 2015. Will insertable devices get under your skin?“, Medium, 29-jún-2017.

[4] „Compulsory dog microchipping comes into effect“, 06-04-2016. [Rafrænt]. Agengilegt á: https://www.gov.uk/government/news/compulsory-dog-microchippingcomes-into-effect . [Sótt 22-09-2019].

[5] K. Warwick, I, Cyborg. London: Century, 1991.

[6] „Kevin Warwick | ‘I feel that we are all philosophers, and that those who describe themselves as a „philosopher“ simply do not have a day job to go to.’“ [Rafrænt]. Aðgengilegt á: http://www.kevinwarwick.com/. [Sótt: 15-sep-2019].

[7] „Thousands Of Swedes Are Inserting Microchips Under Their Skin“, NPR.org. [Rafrænt]. Aðgengilegt á: https://www.npr.org/2018/10/22/658808705/thousands-ofswedes-are-inserting-microchips-under-their-skin. [Sótt: 18-sep-2019].

[8] „Barcelona clubbers get chipped“, 29-sep-2004. Aðgengilegt á: http://news.bbc.co.uk/2/hi/technology/3697940.stm?fbclid=IwAR2SPaidmsyhTgPIZduP_Ns5lB7l0uoYMsRlBKfKip4Ub7DKSvIrbvFs5U. [Sótt 20-sep- [9] „Contraceptive microchip: could it revolutionize global birth control?“ [Rafrænt]. Aðgengilegt á: https://www.medicalnewstoday.com/articles/279323.php. [Sótt: 12- sep-2019].

[10] „The 8 Coolest Biohacking Implants and Body Modifications“, Digital Trends, 20- maí-2017. [Rafrænt]. Aðgengilegt á: https://www.digitaltrends.com/cool-tech/coolestbiohacking-implants/. [Sótt: 12-sep-2019].

[11] C. R. F.-10/11/2018 4 mins-BioArt, „Stelarc -- Making Art out of the Human Body“, Labiotech.eu, 10-nóv-2018. [Rafrænt]. Aðgengilegt á: https://labiotech.eu/bioart/stelarc-ear-art-human-body/. [Sótt: 12-apr-2019]. 8

[12] „THIS IS MY BODY (OF WORK)“, Lans King. [Rafrænt]. Aðgengilegt á: http://lansking.com/this-is-my-body-of-work. [Sótt: 12-sep-2019].

[13] Vefumsjón, „Opinberunarbók Jóhannesar 13. kafli“, Biblía 21. aldar

[14] U. L. C. Monastery, „Mark of the Beast: Are Microchips a Sign of the End Times?“, Universal Life Church Monastery Blog, 07-sep-2017. . [15] J. Kollewe, „Alarm over talks to implant UK employees with microchips“, The Guardian, 11-nóv-2018. Aðgengilegt á: https://www.theguardian.com/technology/2018/nov/11/alarm-over-talks-to-implantuk-employees-with-microchips. [Sótt: 12-sep-2019]

Skoðað: 1453 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála