Skip to main content
14. desember 2023

10 Gig og hvað?

Ásta Gísladóttir

fyrirlesarar 2324HHádegisfundur Ský sem haldinn var 6. desember bar heitið „10 Gig og hvað?“. Fjallað var um þá staðreynd að sá nethraði sem heimili komast í núna er er orðinn 10 Gig og spurningin sem vaknar er hvort slíkur hraði sé virkilega nauðsynlegur. Sessunautar mínir frá Nova upplýstu að þessi hraði gæti t.d. nýst heilum hópi gesta á Þjóðhátíð. Fimm fyrirlesara frá ýmsum sviðum gagnamiðlunar á Íslandi fjölluð um og fóru yfir þróunina sem orðið hefur og hvert stefnir nú. Fundarstjóri var Dolores Rós Valencia frá Ljósleiðaranum.

Fyrstur á svið var Siggeir Örn Steinþórsson frá Vodafone með fyrirlesturinn „Þetta snýst allt um upplifun“. Hann fór yfir hvaða vandamál væri verið að leysa með 10 Gig tengingu og lagði áherslu á að netgæði væru mikilvægasti mælikvarðinn því bara hraði væri ekki lausnin fyrir alla neytendur. Huga þyrfti að ýmsum áskorunum í tengslum við uppsetningu netbúnaðar á heimilum. Þar væru oft gerðar miklar kröfur og væntingar og núorðið væru heimili farin að vera með allt á netinu. Því hafi verið nauðsynlegt að vera með fyrirbyggjandi aðgerðir og bjóða upp á vettvangsþjónustu: Snjallheimsóknir sem ganga út á að besta heimili. Þessu átaki var ýtt úr vör hjá Vodafone í október. Hann sagði mikla ánægju með þessa þjónustu sem snýst um upplifun og að einfalda líf viðskiptavina.

Næsti fyrirlestur bar heitið „Myndavél, upptökuvél, hljóðnemi, skjár og hátalari í vasanum og hvað svo?“ og flutti Atli Stefán Yngvason frá Koala og Tæknivarpinu hann. Hann hóf fyrirlesturinn á að rifja upp að fyrir 30 árum þurfti aragrúa af stórum og dýrum tækjum til að vinna þá vinnu sem snjallsíminn í dag getur gert einn og sér. Snjallsíminn hafi breytt miklu þegar hann kom á sjónarsviðið og geri næstum allt. Atli talaði síðan um það sem við notum netefnið mest í: Myndefni. Hann nefndi t.d. að vinsælasta myndvélin nú er iPhone. Sú spurning vaknar því hvað eigi að gera við allar þessar ljósmyndir og myndbönd sem símar taka upp? Hægt er að notast við stafræna myndaramma eða prenta í ljósmyndbækur, geyma myndir á samfélagsmiðlum á borð við Facebook og Instagram. Skynsamlegt sé þó að nýta skýjalausnir og halda eftir afritum því fyrirtæki gætu alltaf tekið upp á því að minnka hjá þér gæðin. Hann mælti með að setja upp sitt eigið ský með græjum á borð við NAS box. En fyrst og fremst þarf að passa uppá að þessi gögn og halda þeim til haga svo þau glatist ekki.

Í fyrirlestrinum „Þarf ég ekki 10 gig tengingu?“ fjallaði Jón Helgason „Nonni“ um þær áskoranir sem standa frammi í að koma venjulegu heimili í 10 Gig tengingu. Hann fór yfir þróunina frá 28.8 bauda módemunum - sem voru notuð þegar hinn almenni notandi fór að notast við internetið  - þær byltingar sem urðu með ISDN og svo ADSL og loks ljósleiðara. Hann sagðist hafa strax stokkið á að fá 10 Gig tengingu heim til sín og er búinn að snjallvæða allt heimilið – þ.á.m. hundinn – með Unifi umhverfinu. En af hverju þarf að uppfæra í 10 Gig? Hann segir tölvuöryggismál vera helstu ástæðuna. Þegar eitthvað fer úrskeiðis hjá fyrirtækjum þurfa þau oft að sækja afrit af gögnum sínum sem getur tekið meira en viku með hefðbundnum tengingum á móti sólarhring með 10 Gig tengingu. Það getur skipt sköpum fyrir rekstur fyrirtækis. Þótt 10 Gig net geti hökt eftir sem áður sé það fyrst og fremst vegna búnaðar sem ræður ekki við hraðann en sá búnaður sé samt að koma. Framtíðin sé komin fyrr en við áttum von á og nú er réttur tímapunktur til að uppfæra í 10 Gig.

Næstur kom Ingvar Bjarnason frá Mílu með fyrirlesturinn „Réttur tímapunktur að uppfæra í 10Gig“. Hann bendir á gögnum sé núorðið oftast streymt. Heildarhraði til notanda er 80-170 Mb/s og heildarhraði frá notandanum ~7-15 Mb/s. Lykilatriði er að þetta er meðalhraði. Fólk sem vinnur eða leikur með mikið gagnamagn krefst þess að fá mikinn hraða og Ingvar nefnir að óþolinmæði manneskjunnar hafi þar mikið að segja. Skýja upplifun þarf að vera sú sama og ef vinnslan ætti sér stað á heimatölvu. Hann sýnir fram á hversu mikill munur er á hraða gagnaflutnings eftir teningum. Flutningur á 100 GB skrá getur tekið

   10 Mbit:  22:13:20 klst.
100 Mbit:     2:13:20 klst.
       1 Gbit:          13:20 klst.
    10 Gbit:            1:20 klst.

Uppfærslur á leikjum eru stundum 100-200 GB svo mikill hraði getur skipt sköpun fyrir upplifunina. Ingvar nefnir reglu Nielsen sem segir að  50% árlegur vöxtur sé á bandvídd. Samkvæmt þeirri kúrfu verður aðgengileg bandvídd á aðgengisnetum 10 Gig eftir þrjú ár. Því til samanburðar bentir Ingvar á að spá frá 2004 gerði ráð fyrir 10 Mbit hámarki en svo birtist YouTube árið 2005 og skyndilega varð þörfin allt önnur. Tæknin er því alls staðar í veldisvexti og gögn og myndbönd drifkrafturinn á bak við þetta allt. Aðgengi að bandvídd og hraða er það sem helst sé að halda aftur af þróuninni. Helsta ástæðan fyrir þessu átaki Mílu sé sú að hún vilji ekki flöskuhálsa 10x sé ekki áfangastaður heldur vegferð til framtíðar og nauðsynlegt að haldið sé áfram að sjá fyrir þörf – ekki aðeins bregðast við.

Síðasti fyrirlesturinn var „Erum við örugglega að fara hratt?“ sem Guðmundur Arnar Sigmundsson frá CERT-ÍS flutt og fjallaði þær áskoranir sem fylgja betri heimatengingum. Hann sagðist hafa verið fenginn til að koma með mótrök við gagnsemi 10 Gig tenginga en væri í raun ekki með margar. Hann benti á að þótt tækni gæti fleytt fram verði gjarnan svokölluð líffræðileg stöðnun þegar manneskjan hættir að finna fyrir mun á hraða og gæðum. Einnig sagði hann að þróun og fjárfesting í bakenda og þróun og fjárfesting til notanda þyrfti að haldast í hendur. Hann sagðist t.d. ekki sjá mikil áhrif á netöryggi umfram venjulega áhættu en nefndi þó að meiri hraði þýddi að gagnastuldur yrði öflugri og hefði áhrif á viðbragðsteymi. Því yrði óhjákvæmileg færsla yfir í fyrirbyggjandi aðgerðir því erfiðara yrði að vaka með þeim vöktunartólum sem væru til staðar. En þróun á slíkum tólum gerist þó gjarnar jafnóðum þannig að skilaboðin til fundargesta voru: „Go for it!“

Fundi var svo slitið rétt rúmlega 14:00.

Ásta Gísladóttir

-> Sjá nánar - Upplýsingar og glærur

Skoðað: 335 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála