Skip to main content

Biðhamur og dvalhamur

Heitið biðhamur er jafngildi enska heitisins standby mode og dvalhamur er jafngildi enska heitisins hibernate mode. Bæði þessi heiti eru í upplýsingatækni einkum notuð til að lýsa ástandi sem tölva er sett í til að gera hlé á notkun hennar og spara orku á meðan án þess að sú staða sem tölvan er í glatist.
Þegar tölva er sett í biðham er eins og hún sofni og það slokknar á ýmsum tækjabúnaði hennar, þó þannig að ef rjálað er við hnappaborð eða mús þá vaknar tölvan til starfa í sömu stöðu og hún var í þegar hún sofnaði. Ef rafstraumur er alveg rofinn til tölvu sem er í biðham glatast staða hennar þó. Sé tölva hins vegar sett í dvalham skráist afrit af stöðu tölvunnar á harðdisk hennar og síðan slokknar á henni. Þegar kveikt er aftur á tölvunni lifnar afritið við og tölvan fer í nákvæmlega þá stöðu sem hún var í áður en hún var sett í dvalham.