Skip to main content

Skrá

Í upplýsingatækni er skrá skilgreind sem „nafngreint safn af færslum sem farið er með sem eina heild“. Allir íslenskir tölvunotendur þekkja heitið skrá. Þegar þetta nafnorð er beygt verða til ýmsar beygingarmyndir og skal nú vakin athygli á að ekki fara allir eins með beygingu orðsins.
Eins og önnur nafnorð beygist skrá í 4 föllum og 2 tölum og getur haft ákveðinn greini eða ekki, þ.e. 16 beygingarmyndir alls: skrá - skráin - skrár - skrárnar : skrá - skrána - skrár - skrárnar : skrá - skránni - skrám - skránum : skrár - skrárinnar - skráa - skránna. Þannig beygja flestir þetta orð. Mun færri nota í et. ef. orðmyndirnar skráar og skráarinnar. Athugulir áhugamenn um íslenskt mál hafa tekið eftir að þess hefur gætt í sívaxandi mæli á síðustu árum að orðmyndin skrána er borin fram eins og orðið væri skrifað með tveimur n-um, þ.e. skránna. Og reyndar leiðir lausleg athugun á veraldarvefnum í ljós að býsna margir eru farnir að skrifa orðið þannig í et. þf. með greini. Sumir telja þennan rithátt beinlínis rangan og það hlýtur að minnsta kosti að vera íhugunarefni hvort amast eigi við honum, m.a. af því að þá er orðmyndin eins og í ft. ef. með greini. Athyglisvert er að orðið ‘skrá’ hefur sömu merkingu í tungu frænda okkar, Færeyinga og þeir rita ‘skránna’ í et. þf. með greini!