Skip to main content

Smámynd, þumla

Við meðferð mynda á tölvuskjá eru litlar myndir oft hafðar sem nokkurs konar fulltrúar fyrir stærri myndir. Þetta á meðal annars við þegar myndir úr stafrænum myndavélum eru fluttar í tölvu þar sem hægt er að skoða myndirnar á sæmilega stórum fleti á tölvuskjánum.
Til að notendur geti fengið yfirlit yfir heilt myndasafn í tölvunni er hægt að sýna samtímis á skjánum fulltrúa allra mynda í safninu, þ.e. litlar myndir, sem síðan er hægt að smella á með mús til að kalla myndirnar fram á skjáinn í fullri stærð. Um litlu myndirnar nota enskumælandi menn heitið thumbnail sem hefur þá yfirfærða merkingu en merkti upphaflega ‘nögl á þumalfingri’. Á íslensku hafa menn um þetta hugtak notað heitið smámynd, sem er gagnsætt orð. Hér er nú lagt til að um smámynd megi einnig nota heitið þumla, kvenkynsorð. Það heiti ætti hjá einhverjum að vekja upp hugrenningatengsl við ævintýrin um Tuma þumal og Þumalínu.