Skip to main content

Uppnýja

Sögnin að uppnýja er þekkt í íslensku máli allt frá 16. öld að minnsta kosti en hefur ekki verið mikið notuð. Þess vegna sást mönnum lengi vel yfir þetta ágæta orð þegar finna þurfti íslenskt heiti sem jafngilti ensku sögninni update í upplýsingatækni og víðar. Samsvarandi nafnorð, uppnýjun, jafngildir þá ensku nafnorðunum update, updating.
Tölvuorðanefnd mælir nú með því að menn noti héðan í frá heitin uppnýja og uppnýjun þegar þau eiga við. Nefndin hefur áður mælt með sögninni að dagrétta fyrir update og hefur hún verið dálítið notuð og ekkert því til fyrirstöðu að þeir sem það kjósa noti hana áfram sem samheiti og sömuleiðis nafnorðið dagrétting. Miklu fleiri hafa þó notað sögnina að uppfæra fyrir update og er hún þá enn annað samheiti. Sá galli er á sögninni að uppfæra að hún er líka notuð í upplýsingatækni sem jafngildi ensku sagnarinnar upgrade, sem hefur svolítið aðra merkingu en update. Þeir sem ekki þurfa á þeirri nákvæmni að halda að gera greinarmun á þessum tveimur merkingum ættu að geta haldið áfram að uppfæra. Þess má geta að í 3. útgáfu Tölvuorðasafns frá 1998 var stungið upp á sögninni að stigbæta fyrir upgrade en sú tillaga hefur ekki hlotið hljómgrunn á þeim tíma sem síðan er liðinn.