Skip to main content

Nýmæli

 Hér verða birtar fréttir frá orðanefndinni og tillögur um þýðingar. Stundum verða settar fram hugmyndir sem eru ekki endanlegar en gott væri að fá viðbrögð tölvunotenda við. Sendið athugasemdir og fyrirsprunir til formanns nefndarinnar, Sigrúnar Helgadóttur, sigrun.h@simnet.is.

 

18.09.2007

handheld – lófatækur

Í 4. úgáfu Tölvuorðasafns eru þrjú heiti þar sem „handheld“ er fyrri liður: handheld calculator (vasareiknir), handheld computer (lófatölva, handtölva) og handheld keyboard (farandhnappaborð). Nýlega barst orðanefndinni fyrirspurn um þýðingu á handheld. Nefndin telur að þörf sé fyrir lýsingarorð sem nota má í staðinn fyrir handheld. Lagt er til að nota lýsingarorðið lófatækur og tala um lófatæk tól. Eftir sem áður má nota forliðinn lófa-.

e-skills netfærni

Nefndin fékk nýlega fyrirspurn frá þýðingardeild utanríkisráðuneytisins um hvernig ætti að þýða e-skills. Þýðandinn lagði sjálfur til að notað yrði íslenska heitið netfærni. Nefndin fann ekki annað betra og leggur það því til. En til þess að vera sjálfum okkur samkvæm ættum við að leggja til heitið fróðfærni sem er myndað úr heitinu fróð sem hefur verið lagt til sem þýðing á information.

30.10.2007

iPod og Podcast

Á fundi orðanefndarinnar föstudaginn 26. október var enn þá einu sinni fjallað um íslenskt heiti fyrir iPod. Mjög erfitt er að gefa slíkum tækjum íslensk heiti þegar heitið er jafnframt vörumerki. Nokkrar tillögur um heiti á iPod hafa þegar verið settar fram, t.d. spilastokkur og tónhlaða.  Nefndin á ótal tillögur í pokahorninu sem ekki hafa þótt nægilega góðar. Eins og oft áður fannst okkur heitið tónhlaða vera best og mælum því með að það verði notað. Árni Johnsen alþingismaður setti hugmyndina um tónhlöðu fram í grein í Morgunblaðinu þri. 30.5.2006. Árni segir í greininni að tónhlaða sé „tæki sem hlaðið er tónum. Nærtækast um samsvarandi orð er rafhlaða“. Árni biður siðan Moggamenn um að taka tónhlöðuna upp á sína arma, „því þá nær orðið festu í íslensku og enska vörumerkið, sem virkar eins og aðskotahlutur í íslensku ritmáli, hverfur á vit feðra sinna“. 

 Á sama fundi var einnig rætt um íslenskt heiti fyrir Podcast sem mér skilst að sé eins konar „útvarp í tónhlöður“. Þá datt upp úr einum nefndarmanna hvort nota mætti orðið „hlaðvarp“ fyrir þetta. Okkur leist nokkuð vel á þá hugmynd.

Nú brá svo við að ég heyrði auglýst „hlaðvarp“  Rásar 1 í útvarpinu í gær. Ég fann það einnig á vefsetri Ríkisútvarpsins og var það greinilega þýðing á heitinu Podcast. Ég skrifaði því nefndarmönnum og spurðist fyrir um hvort einhver þeirra hefði komið orðinu á framfæri um helgina en enginn kannaðist við það. Ég rakst svo á þetta orð líka í dag á www.mbl.is þar sem boðið er upp á svipaða þjónustu og Rás 1 veitir. Mér sýnist þeir „Moggamenn“ líka nota orð Árna Johnsen, tónhlaða. Það er líklegt að orð Árna hafi haft áhrif á báða höfunda orðsins hlaðvarp. En þetta er skrýtin og skemmtileg tilviljun.

05.11.2007

social network

Nefndin fékk fyrir skömmu spurningu um hvað mætti kalla á íslensku það sem á ensku heitir social network. Á vefsetrinu www.wikipedia.org fann ég upplýsingar um þetta fyrirbæri sem virðist vera samskiptavettvangur fyrir fólk sem hefur sameiginleg áhugamál eða stundar líka starfsemi. Notaður er sérstakur hugbúnaður og samskiptin eru á veraldrarvef. Menn geta spjallað, skipst á skilaboðum og tölvuskeytum, skipst á myndum og talað saman, notað sameiginlegar skrár, bloggað og sett upp margs konar vefþing.

Tillaga nefndarinnar var að kalla social network netklúbb og social networking gæti verið netklúbbastarfsemi.

Einn nefndarmanna, Baldur Jónsson, hefur um um nokkurt skeið haldið fram orðinu kólfur fyrir klúbb en orðið klúbbur er tökuorð. Netklúbbur yrði þá netkólfur og netklúbbastarfsemi yrði netkólfastarfsemi. Baldur ritaði um orðin kúbbur og kólfur í greininni „Bréf til Otttós A. Michelsen“ sem birtist fyrst í tímariti Íslenskrar málnefndar Málfregnum, 6.2. Bls. 21-24.

Greinin var síðan endurprentuð í ritinu Málsgreinar sem er afmælisrit Baldurs Jónssonar, gefið út af Íslenskri málnefnd 2002.