Skip to main content

Tölvuorðasafn fyrir þýðingaminni

Hér er veittur aðgangur að efni Tölvuorðasafnsins (5. útgáfa) í skrá í TBX–sniði sem hentar fyrir þýðingaminni og til notkunar í máltækniverkefnum. Veittur er aðgangur að efninu með CC BY-SA leyfi. Þeir sem vilja nýta sér þessa skrá samþykkja leyfið með því að gefa upp tölvupóstfang og samþykkja um leið að fara eftir skilmálum leyfisins. Aðgangur er veittur í gegnum þessa tengla:

Íslenska   /   English

Formáli að 4. útgáfu

Tölvuorðasafn kemur nú út í fjórða sinn. Það kom fyrst út 1983, og birtust þar tæplega 1000 íslensk heiti og rösklega 1000 ensk á liðlega 700 hugtökum. Í annarri útgáfu 1986 var skilgreiningum hugtaka bætt við og safnið stækkað mjög. Hugtökin voru nær 2600 að tölu, íslensk heiti þeirra um 3100 og ensk heiti nær 3400. Þriðja útgáfa var gefin út aukin og endurbætt 1998 með rösklega 5000 hugtökum með um 5800 íslenskum heitum og tæplega 6500 enskum. Í fjórðu útgáfunni sem hér birtist, enn aukin og endurbætt frá þriðju útgáfu, eru rúmlega 6500 hugtök með um 7700 íslenskum heitum og um 8500 enskum heitum. Hugtökum hefur því fjölgað um 30% frá þriðju útgáfu.

Orðanefndin hélt áfram reglulegum fundum eftir að 3. útgáfa Tölvuorðasafns birtist á prenti. Fram til ársins 2002 hafði því safnast nokkurt efni. Þá var sótt um styrk frá Norrænu málráði til þess að vinna frekar úr því, bæta við það og koma efninu fyrir í orðabanka Íslenskrar málstöðvar. Norrænt málráð styrkti á þeim tíma sérstaklega orðabókarverkefni á þeim málsvæðum á Norðurlöndum sem kallast „lítil“, þ.e. þar sem töluð er íslenska, færeyska, grænlenska og samíska. Í október 2002 veitti málráðið nefndinni styrk að upphæð 125 þúsund danskar krónur. Ákveðið var að ráða Stefán Briem til þess að vinna með nefndinni en Stefán var ritstjóri þriðju útgáfu Tölvuorðasafns. Stefán og orðanefndin unnu að þessu verkefni allt árið 2003. Ekki varð þó af því að endurbæturnar yrðu settar í orðabankann þar sem unnið var við endurskoðun á tölvukerfi bankans árið 2004.

Seint á árinu 2003 veitti menntamálaráðherra, Tómas Ingi Olrich, nefndinni rausnarlegan styrk sem skipti sköpum fyrir framhald verkefnisins. Í byrjun árs 2004 fékk nefndin einnig styrki frá Skýrslutæknifélaginu og nokkrum einkafyrirtækjum. Því var ákveðið að halda endurskoðun orðasafnsins áfram. Vorið 2004 þótti viðbótin orðin svo mikil að rétt væri að gefa verkið út sem prentaða bók auk þess að koma því fyrir í orðabankanum. Íslensk málnefnd treysti sér ekki til þess að gefa bókina út og sneri orðanefndin sér þá til forsvarsmanna Hins íslenska bókmenntafélags sem hafði staðið að fyrstu útgáfu Tölvuorðasafns ásamt Íslenskri málnefnd. Forsvarsmenn bókmenntafélagsins tóku málaleitan orðanefndarinnar vel og kemur nú afrakstur samstarfsins fyrir sjónir lesenda. Orðanefndin vann við undirbúning handritsins ásamt ritstjóranum, Stefáni Briem, veturinn 2004–2005. Styrkja hefur verið aflað frá fyrirtækjum og stofnunum til þess að greiða kostnað við útgáfuna. Einnig styrkir Menningarsjóður útgáfuna. Lista yfir styrkveitendur er að finna á blaðsíðu 10. Orðanefndin þakkar styrkveitendum kærlega fyrir veittan stuðning.

Orðanefndin hélt fundi sína í Íslenskri málstöð frá því að málstöðin tók til starfa í byrjun árs 1985 þangað til haustið 2002 og Íslensk málnefnd gaf Tölvuorðasafn út í 2. og 3. útgáfu. Orðanefndin og Skýrslutæknifélagið færa Íslenskri málnefnd og málstöðinni þakkir fyrir aðstoð og góða samvinnu. Frá hausti 2002 hefur orðanefndin haldið fundi sína í húsnæði Nýherja að Borgartúni 37. Orðanefndin þakkar fyrir afnot af þeirri aðstöðu og gott viðmót starfsfólks Nýherja.

Í þremur fyrstu útgáfum Tölvuorðasafns var einkum stuðst við skrá frá Alþjóðlegu staðlasamtökunum og Alþjóðlega raftækniráðinu. Hún heitir nú Information Technology - Vocabulary ISO/IEC 2382. Staðlaráð Íslands, sem er aðili að þessum stofnunum fyrir Íslands hönd og hefur jafnframt einkaumboð fyrir þær á Íslandi, hefur góðfúslega leyft notkun þessa rits.

Orðanefnd hefur starfað á vegum Skýrslutæknifélagsins frá stofnun þess árið 1968. Árið 1974 gaf nefndin út sem handrit tölvuprentaðan orðalista, Skrá yfir orð og hugtök varðandi gagnavinnslu, en hafði áður sent frá sér stutta óformlega orðaskrá um sama efni. Bjarni P. Jónasson var fyrsti formaður nefndarinnar og starfaði með henni í tíu ár frá 1968 til ársloka 1977. Með honum störfuðu Einar Pálsson (1968–1971), Gunnar Ragnars (1968–1971), Oddur Benediktsson (1968–1971), Jóhann Gunnarsson (1971–1978), Jón A. Skúlason (1971–1979), Þórir Sigurðsson (1971–1978) og Baldur Jónsson frá 1976. Jóhann Gunnarsson tók við formennsku í nefndinni af Bjarna og gegndi því starfi til haustsins 1978. Þá komu til liðs við nefndina Grétar Snær Hjartarson (1978–1979), Sigrún Helgadóttir, Þorsteinn Sæmundsson og Örn Kaldalóns. Sigrún Helgadóttir varð formaður nefndarinnar haustið 1978. Frá 1979 hafa því fjórir starfað í nefndinni, þ.e. Baldur Jónsson prófessor, Sigrún Helgadóttir tölfræðingur, Þorsteinn Sæmundsson stjörnufræðingur og Örn Kaldalóns kerfisfræðingur. Nefndin hefur haldið fundi reglulega, að jafnaði um 25 sinnum á ári. Fundir hafa þó orðið tíðari síðustu mánuði fyrir hverja útgáfu.

Stefán Briem eðlisfræðingur hefur sem ritstjóri 3. og 4. útgáfu Tölvuorðasafns unnið að efnisöflun, þýtt og samið skilgreiningar, undirbúið fundi og setið fundi nefndarinnar. Hann hefur einnig séð um tölvuskráningu og alla tölvuvinnu, m.a. umbrot bókarinnar. Nefndin og stjórn Skýrslutæknifélagsins þakka Stefáni sérstaklega vel unnin störf og ánægjulegt samstarf. Án hans framlags hefði orðið erfitt að ljúka þessu verki.

Þegar undirbúningur hófst fyrir þessa útgáfu leitaði nefndin til félagsmanna í Skýrslutæknifélaginu og annarra áhugamanna um tölvutækni um samvinnu við endurskoðun orðasafnsins. Vinnugögn nefndarinnar voru gerð aðgengileg á vefsetri nefndarinnar og áhugamenn um orðaforða tölvutækninnar hvattir til þess að koma athugasemdum á framfæri við nefndina. Ekki bárust margar athugasemdir en ýmsir munu hafa notað vinnugögnin til þess að finna heiti á hugtökum sem ekki höfðu þegar fengið íslenskt heiti. Morgunblaðið veitti aðgang að orða- og hugtakalista á vef sínum mbl.is, SKÝRR veitti aðgang að orðalista sem varð til við þýðingu á Oracle-hugbúnaði og Gísli Hjálmtýsson prófessor við Háskólann í Reykjavík lagði til orðalista um netkerfi og netþjónustu. Allir þessi orðalistar voru notaðir við endurskoðun orðasafnsins og þakkar nefndin þeim sem veittu aðgang að þeim.

Orðanefndin hefur eins og áður leitað til ýmissa sérfræðinga sem hafa veitt góð ráð og lesið yfir einstaka kafla af orðasafninu. Sérstaklega ber að geta Jóhanns Gunnarssonar og Arnalds Axfjörð sem lásu yfir kafla um tölvu- og gagnaöryggi og veittu aðgang að vinnugögnum sínum. Maríus Ólafsson las yfir kafla um orðaforða sem tengist lýðneti og veraldarvef og veitti ráð bæði um orðanotkun og skilgreiningar. Magnús Gíslason svaraði spurningum um ýmis svið tölvutækninnar eins og hann hefur gert við allar fyrri útgáfur Tölvuorðasafns. Orðanefndin þakkar þessum mönnum fyrir góða aðstoð. Einnig vill nefndin þakka þeim fjölmörgu sem hafa hringt eða skrifað og lagt fram fyrirspurnir um orðanotkun en þær hafa oft orðið til þess að nefndin hefur endurskoðað heiti sem þegar voru til eða fundið heiti fyrir ný hugtök.

Tölvuorðasafn hefur verið aðgengilegt í orðabanka Íslenskrar málstöðvar frá því hann var opnaður hinn 15. nóvember 1997 á veraldarvef lýðnetsins. Í fyrstu var sett inn bráðabirgðaútgáfa þriðju útgáfu Tölvuorðasafns en í febrúar 1998 endanleg gerð þriðju útgáfunnar. Eins og þegar hefur komið fram er nú unnið við að endurnýja hugbúnað orðabankans. Ráðgert er að fjórða útgáfa Tölvuorðasafns verði sett í orðabankann þegar þeirri endurskoðun er lokið.

Reykjavík í júní 2005

Sigrún Helgadóttir
formaður orðanefndar
Skýrslutæknifélags Íslands

Styrkveitendur 4. útgáfu

  • ANZA hf.
  • Fjármálaráðuneytið
  • Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið
  • Internet á Íslandi hf.
  • Íslandsbanki og Sjóvá
  • Kauphöll Íslands hf.
  • Kreditkort hf.
  • Landsteinar Strengur hf.
  • Landsvirkjun
  • Menningarsjóður
  • Menntamálaráðuneytið
  • Microsoft Íslandi ehf.
  • Norrænt málráð
  • Nýherji hf.
  • Olíufélagið ehf.
  • Póst- og fjarskiptastofnun
  • Reiknistofa bankanna
  • Seðlabanki Íslands
  • Skýrslutæknifélag Íslands
  • Smith & Norland hf.
  • VKS hf.
  • TM Software
  • Tölvumiðstöð sparisjóðanna

Inngangur að 4. útgáfu

Val á hugtökum

Við gerð Tölvuorðasafns var í þremur fyrstu útgáfunum einkum stuðst við skrá um hugtök í upplýsingatækni (ISO/IEC 2382) frá Alþjóðlegu staðlasamtökunum (ISO) og Alþjóðlega raftækniráðinu (IEC) eins og getið er um í formála. Þessi skrá er í rúmlega 30 köflum og höfðu margir kaflanna verið gefnir út sem staðall þegar efnissöfnun fyrir 3. útgáfu Tölvuorðasafns lauk árið 1997. Flest hugtök í þessari skrá hafa verið tekin með í Tölvuorðasafn, en auk þeirra fjölmörg hugtök úr tölvuorðabókum og öðrum ritum um tölvumálefni og upplýsingatækni. Við endurskoðun fyrir 3. útgáfu Tölvuorðasafns var einnig aflað nýrra hugtaka á lýðnetinu, einkum úr FOLDOC (Free On-Line Dictionary Of Computing) sem frjáls aðgangur er að á veraldarvefnum. Við endurskoðun fyrir 4. útgáfu Tölvuorðasafns voru heimildir á lýðnetinu um ný hugtök í upplýsingatækni orðnar mun fjölskrúðugri og var þar víða leitað fanga en þó allra mest í tölvuorðasafni TechTarget sem öllum er frjáls aðgangur að á vefsetrinu whatis.com. Við val á hugtökum hefur enn fremur verið stuðst við ábendingar frá sérfræðingum og fyrirspurnir sem orðanefndinni hafa borist.

Þeirri meginreglu hefur verið fylgt við endurskoðun Tölvuorðasafns að halda í sem flest eldri hugtök af sögulegum ástæðum. Þess vegna eru t.d. enn í bókinni hugtök sem lúta að notkun gataspjalda þó að þau séu ekki lengur notuð. Nokkrum hugtökum sem voru í fyrri útgáfum hefur þó verið sleppt, af því að þau hafa sennilega aldrei verið mikið notuð. Einnig kemur fyrir að heiti séu endurreist. Dæmi um það er sögnin að þysja sem birtist í 2. útgáfu Tölvuorðasafns en var felld út við 3. útgáfu af því að talið var að tölvunotendur hefðu hafnað henni. Annað kom í ljós síðar og er þetta heiti því aftur inni nú.

Flest hugtök sem tengjast upplýsingatækni og notkun tölva eiga upptök sín í Bandaríkjum Norður-Ameríku og hafa mótast í hugum manna sem mæla á enska tungu og lifa í öðru menningarsamfélagi en Íslendingar. Sum þessara hugtaka falla illa að íslensku, m.a. af því að sagnorð eru mun meira notuð í íslensku en ensku. Orðanefnd hefur þó lagt sig fram um að tína til íslensk heiti á sem flest þessara framandi hugtaka. Tölvuorðasafni er einnig ætlað að nýtast þeim til skilnings sem vilja nota það til að fletta upp orðum sem verða á vegi þeirra í enskum texta um tölvur og upplýsingatækni. Stundum gegnir íslenskt heiti því varla öðru hlutverki en að vera skýring á ensku heiti sama hugtaks. Það fellur svo í hlut þýðenda að umsemja textann á íslensku.

Heiti hugtaka

Íslensk heiti á hugtökum í orðasafni þessu, þ.e. íðorðin sjálf, eru víða að komin. Mörg þeirra eru almennt notuð og hafa fest sig í sessi í íslensku máli. Sum heiti eru fengin úr íðorðasöfnum annarra fræðigreina sem skarast við upplýsingatækni. Önnur heiti hefur orðanefndin valið sem henni hafa borist til eyrna og litist vel á og enn önnur hefur nefndin tínt til úr nýju máli og fornu og léð nýja merkingu, t.d. skrun og skruna. Að lokum eru ýmis heiti sem hafa orðið til á fundum orðanefndar og hún hefur sett saman úr öðrum orðum eða frumsamið. Þrautalendingin er sú að nota tökuorð en þá er reynt að laga orðin að íslensku beygingakerfi og öðrum íslenskum málkröfum, t.d. bæti. Stundum hefur það þó ekki tekist og sitjum við þá uppi með erlend sérnöfn, t.d. Archie, og erlendar skammstafanir, t.d. ASCII.

Helstu íðorðasöfn annarra fræðigreina, sem stuðst hefur verið við, eru Orðaskrá Íslenska stærðfræðafélagsins, Orðasafn úr tölfræði, Orðaskrá um eðlisfræði og skyldar greinar, Flugorðasafn og Orðaskrá úr uppeldis- og sálarfræði. Einnig hefur verið stuðst við Orðaskrá yfir tölvuorð frá 1991. Magnús Már Halldórsson lagði öflugt lið við gerð 3. útgáfu Tölvuorðasafns, m.a. með vélrænum samanburði við stærðfræðiorðasafnið. Sá samanburður leiddi af sér einkar gagnlega samræmingu á heitum margra hugtaka.

Alloft kemur fyrir að sama heiti er notað í fleiri en einni merkingu eða að tvö eða fleiri heiti hafa sömu nefnimynd þó að þau geti verið sitt úr hverjum orðflokki. Þetta á við bæði um íslensk heiti og ensk. Til þess að greina á milli merkinganna eru þessi heiti tölusett og auðkennd með brjóstletruðum tölustaf þar sem ástæða þykir til.

Skilgreiningar, skýringar og dæmi

Langflestum hugtökum í bókinni fylgir skilgreining. Við samningu skilgreininga var farið eftir ISO/IEC-staðlinum þar sem þess var kostur, en annars staðar oft stuðst við skilgreiningar í FOLDOC og whatis.com. Skilgreiningum fylgja stundum nánari skýringar eða dæmi eða hvort tveggja. Skáletruð orð í skilgreiningum, skýringum og dæmum er að finna sem flettiorð í bókinni. Hvert heiti er aðeins skáletrað einu sinni í hverri orðsgrein. Oftast eru það aðalheiti sem eru skáletruð en frá því eru þó örfáar undantekningar þar sem notuð eru samheiti af einhverjum ástæðum, t.d. ílag fyrir ílagsgögn.

Við samningu skilgreiningar takast einkum á tvö sjónarmið. Annars vegar er stefnt að því að skilgreina hugtökin af þeirri nákvæmni að sérfræðingar og aðrir sem lesa og skrifa um upplýsingatækni geti skilið hver annan og fjallað um þessi málefni á vandaðan hátt. Hins vegar er æskilegt fyrir almenna tölvunotendur að geta gengið að hverju hugtaki í bókinni og fengið á því auðskilda og sjálfstæða skilgreiningu.

Fyrra sjónarmiðið er allsráðandi hjá ISO/IEC sem lagði til efniviðinn í flestar skilgreininganna. Frá ISO/IEC bárust skilgreiningarnar bæði á ensku og frönsku. Byrjað var á að þýða þær á íslensku en síðan hugað að því hvort útkoman væri nógu góð. Venjulega eru í hverri skilgreiningu tilvísanir til eins eða fleiri annarra hugtaka, sýndar með skáletruðum íðorðum. Vilji lesandinn fá fullkominn skilning á hugtakinu getur hann þurft að rekja sig gegnum skilgreiningar margra hugtaka með stuðningi skáletruðu heitanna.

Til þess að koma til móts við almenna tölvunotendur hafa sumar skilgreiningar verið samdar að nýju og gerðar sjálfstæðari með því að fækka tilvísunum í aðrar skilgreiningar, þó þannig að það komi ekki um of niður á nákvæmni skilgreininganna.

Íslensk-ensk orðaskrá

Í fyrri hluta bókarinnar er íslensk-ensk orðaskrá og er þar að finna alla þá vitneskju sem bókin veitir um hvert hugtak. Sumum hugtökum eru gefin fleiri en eitt samheiti og er þeim raðað í virðingarröð orðanefndar innan orðsgreinar. Í nokkrum tilvikum hefur verið sett spurningarmerki við íslenskt heiti. Það er gert til þess að sýna að heitið þyki af einhverjum ástæðum ekki heppilegt, enda þótt það sé tilgreint. Samheiti sem fylgja aðalheiti geta verið misgóð. Sum þeirra eru næstum því jafngóð og aðalheitið að mati orðanefndar. Önnur teljast óæskileg, en eru þó nefnd, t.d. af því að þau hafa verið mikið notuð. Fáeinum heitum eða ritunarafbrigðum hefur verið sleppt þótt vitað sé að einhverjir nota þau. Tökuorðið kóti, sem samsvarar enska orðinu code, kemur fyrir í nokkrum merkingum í þessari bók og er eingöngu ritað þannig þó að orðanefnd sé kunnugt um að sumir kjósa frekar ritháttinn kóði eða jafnvel kódi.

Ensk-íslensk orðaskrá

Í seinni hluta bókarinnar er ensk-íslensk orðaskrá. Hverju ensku heiti þar fylgir aðeins eitt íslenskt heiti. Það ber að taka sem tilvísun til íslensk-enska hlutans þar sem íslensk samheiti geta verið við aðalheitið. Í nokkrum tilvikum hefur verið sett spurningarmerki við enskt samheiti. Það er gert til þess að sýna að heitið þyki annaðhvort úrelt eða óheppilegt til notkunar í þeirri merkingu sem um er að ræða.

Við ritun enskra heita er í bókinni fylgt þeirri stafsetningu sem tíðkast í Norður-Ameríku. Þetta þarf að hafa í huga, bæði þegar flett er upp í ensk-íslensku orðaskránni og þegar bókin er notuð til að finna enskar þýðingar á íslenskum heitum hugtaka. Smámunur er á enskri stafsetningu í Norður-Ameríku og í Stóra-Bretlandi og kemur hann einkum fram í þrennu. Orð sem hafa viðliðinn „-or“ í ensku Norður-Ameríku hafa stundum viðliðinn „-our“ í ensku Stóra-Bretlands, t.d. color : colour. Sagnir, sem enda á „-ize“ í Norður-Ameríku, enda oft á „-ise“ í Stóra-Bretlandi, t.d. initialize : initialise. Þessi munur getur haldist í afleiddum myndum orðanna, t.d. initialization : initialisation. Í þriðja lagi er tvöföldun samhljóða algengari í Stóra-Bretlandi en í Norður-Ameríku. Til dæmis er orðið „modeling“, sem kemur fyrir í mörgum enskum heitum í Tölvuorðasafni, ritað „modelling“ í Stóra-Bretlandi.

Annað tilbrigði í enskri stafsetningu, sem fer sjaldan eftir löndum eða landsvæðum heldur frekar eftir aldri heitanna, er það hvort heiti er ritað í tveimur orðum með stafbili á milli, í tveimur orðum með tengistriki á milli eða í einu orði. Gott dæmi um þetta er enska heitið fyrir gagnasafn. Það er í nýjum bókum ávallt ritað í einu orði, database. En upphaflega var það ritað í tveimur orðum, data base, og á tímabili með tengistriki, data-base. Ensk-íslensku orðaskránni er raðað óháð stafbilum og tengistrikum, eins og venja er í enskum orðabókum, en þá verður enskt heiti á sama stað í röðinni hvort sem það er ritað með eða án stafbils eða tengistriks.

Heiti úr öðrum fræðigreinum

Í skilgreiningum og skýringum koma fyrir nokkur heiti úr öðrum fræðigreinum sem e.t.v. þarfnast skýringa. Þeirra er þá að leita í viðkomandi fræðigrein. Sum þeirra er að finna í orðabanka Íslenskrar málstöðvar. Meðal þessara heita eru eftirfarandi, ásamt enskri þýðingu og heiti fræðigreinar:
boðnám hk. programmed learning (uppeldis- og sálarfræði)
eðlisstærð kv. physical quantity (eðlisfræði)
greinarmerki kv. punctuation mark (málfræði)
líkindi hk. ft. probability (stærðfræði)
milligilda so. interpolate (stærðfræði)
millihnitakerfi hk. intermediate coordinate system (stærðfræði)
sekúnda kv. second (eðlisfræði)
slétta kv. plane (stærðfræði)
stak hk. element (stærðfræði)

Vefföng

Lesendum, sem hafa aðgang að veraldarvefnum, er bent á þessi vefföng:
Orðabanki Íslenskrar málstöðvar: http://www.ismal.hi.is/
Enska tölvuorðasafnið FOLDOC: http://wombat.doc.ic.ac.uk/
Tölvuorðasafn TechTarget: http://whatis.com/

Stefán Briem

Formáli að vefútgáfu 2006

Hér er vefaðgangur að 4. útgáfu Tölvuorðasafns sem kom út á prenti í ágúst 2005. Orðanefnd Skýrslutæknifélagsins tók saman efni í bókina eins og fyrri útgáfur og ritstjóri var Stefán Briem. Í þessari fjórðu útgáfu eru um 7700 íslensk heiti og um 8500 ensk heiti á rúmlega 6500 hugtökum sem lúta að upplýsingatækni og tölvunotkun. Útgáfan er í tveimur hlutum. Annar hlutinn er íslensk-ensk orðaskrá og er þar að finna skilgreiningar og útskýringar á flestum hugtökunum. Hinn hlutinn er ensk-íslensk orðaskrá. Þar er íslensk þýðing við hvert orð og er hún hugsuð sem tilvísun til íslensk-enska hlutans.

Í vefútgáfunni má leita að enskum og íslenskum heitum. Sé leitað að íslensku heiti sem er aðalheiti á hugtaki birtast allar upplýsingar um hugtakið sem það á við. Sé leitað að íslensku heiti sem er samheiti birtist aðalheitið og má þá smella á það til þess að fá allar upplýsingar um hugtakið. Sé leitað að ensku heiti birtist íslenskt aðalheiti hugtaksins sem það á við og má smella á það til þess að fá allar upplýsingar um hugtakið.

Útgefandi þessarar útgáfu Tölvuorðasafns er Hið íslenska bókmenntafélag í samvinnu við orðanefnd Skýrslutæknifélags Íslands. Bókina er unnt að nálgast hjá helstu bókaverslunum og hjá útgefanda, en þar má panta hana með forlagsafslætti í hib@islandia.is.

Nefndin vill þakka Hjálmari Gíslasyni hjá Já-Spurl fyrir rausnarlegt framlag við gerð vefviðmótsins og þakkar honum og Viðari Mássyni fyrir einstaklega ánægjulegt samstarf við gerð þess.