Skip to main content

Verkforrit og verkbúnaður

Enska orðið application er margrætt orð sem kemur oft fyrir í textum er lúta að upplýsingatækni. Upphafleg merking þessa enska orðs er ‘notkun’ eða ‘beiting’. Og önnur almenn merking þess er ‘umsókn’.
Í upplýsingatækni kemur application hins vegar oft fyrir sem hluti af heitunum application program og application software, eða jafnvel sem stytting á þessum heitum og stendur þá application eitt sér. Tölvuorðanefnd hefur í tímans rás viðrað ýmsar tillögur um íslensk heiti á þessum tveimur hugtökum, svo sem ‘viðfangsforrit’ og ‘viðfangshugbúnaður’, ‘notkunarforrit’ og ‘notkunarhugbúnaður’ og ‘vinnsluforrit’ og ‘vinnsluhugbúnaður’. Nú er tillaga tölvuorðanefndar sú að application program skuli heita verkforrit og application software skuli heita verkbúnaður á íslensku.
 

Read more …Verkforrit og verkbúnaður

Uppnýja

Sögnin að uppnýja er þekkt í íslensku máli allt frá 16. öld að minnsta kosti en hefur ekki verið mikið notuð. Þess vegna sást mönnum lengi vel yfir þetta ágæta orð þegar finna þurfti íslenskt heiti sem jafngilti ensku sögninni update í upplýsingatækni og víðar. Samsvarandi nafnorð, uppnýjun, jafngildir þá ensku nafnorðunum update, updating.
Tölvuorðanefnd mælir nú með því að menn noti héðan í frá heitin uppnýja og uppnýjun þegar þau eiga við. Nefndin hefur áður mælt með sögninni að dagrétta fyrir update og hefur hún verið dálítið notuð og ekkert því til fyrirstöðu að þeir sem það kjósa noti hana áfram sem samheiti og sömuleiðis nafnorðið dagrétting. Miklu fleiri hafa þó notað sögnina að uppfæra fyrir update og er hún þá enn annað samheiti. Sá galli er á sögninni að uppfæra að hún er líka notuð í upplýsingatækni sem jafngildi ensku sagnarinnar upgrade, sem hefur svolítið aðra merkingu en update. Þeir sem ekki þurfa á þeirri nákvæmni að halda að gera greinarmun á þessum tveimur merkingum ættu að geta haldið áfram að uppfæra. Þess má geta að í 3. útgáfu Tölvuorðasafns frá 1998 var stungið upp á sögninni að stigbæta fyrir upgrade en sú tillaga hefur ekki hlotið hljómgrunn á þeim tíma sem síðan er liðinn.

Gangþjált tengi, gangtengi

Fyrir nokkrum mánuðum voru kynnt hér til sögunnar hugtökin gangþjál skipti og skiptaþjáll diskur.  Náskylt þeim er hugtakið gangþjált tengi en í slíkt tengi er unnt að tengja fylgitæki við tölvu á meðan tölvan er í gangi og getur stýrikerfi tölvunnar þá tekið fylgitækið í notkun þegar í stað. Á ensku heitir þetta hugtak hot-plug eða hotplug. Ef gangþjált tengi þykir of langt heiti má stytta það í gangtengi.

Hljóðsjóna

Sumir heyrnarskertir hafa náð mikilli leikni í að lesa af vörum fólks (og svipbrigðum) hvað það er að segja þó að þeir heyri engin hljóð. Í upplýsingatækni er nú farið að líkja eftir þessum boðskiptum með því að sýna örstuttar hreyfimyndir af andliti sem eru notaðar til að tákna hver sitt hljóð og eiga heyrnarskertir þá að geta lesið hljóðin af vörum andlitsmyndanna. Slík andlitsmynd er á ensku kölluð viseme en hér er lagt til að hún sé kölluð hljóðsjóna á íslensku. Hljóðsjóna er nokkurs konar sjónrænt jafngildi hljóðans (e. phoneme) og minnir á orðið ásjóna.

Fortíðarsetur

Frá árinu 1996 hafa vefsíður veraldarvefsins, þær sem almennur aðgangur hefur verið að, verið afritaðar með reglubundnum hætti. Afritin eru geymd á vefsetri sem á ensku kallast Wayback Machine. Lagt er til að það sé kallað fortíðarsetur á íslensku. Þeir sem vilja fræðast meira um þetta fyrirbæri og líta á vefsíður nokkur ár aftur í tímann geta reynt að svala forvitni sinni á veffanginu http://www.archive.org/web/web.php