Skip to main content

Biðlaraþjónustu- og verkaskiptingar-

Langflest ný hugtök í upplýsingatækni fá fyrst ensk heiti. Þegar hugtökin berast til Íslands er reynt að finna þeim íslensk heiti sem falla að íslenskri tungu. Stundum er hægt að þýða heitin nánast orðrétt. En í öðrum tilvikum getur þeirri aðferð fylgt hið versta klúður.  Meðal slíkra tilvika eru enskir samsetningar með skástriki inni í miðju samsettu orði. Hér eru tvö dæmi um um hvernig tölvuorðanefnd hefur þýtt slík heiti: Enska heitið client/server (einnig ritað client-server) hefur setningarlega stöðu lýsingarorðs og er þýtt á íslensku sem forliðurinn biðlaraþjónustu-. Þannig verður til dæmis client/server technology að biðlaraþjónustutækni á íslensku. Hitt dæmið er enska heitið master/slave sem er þýtt með forliðnum verkaskiptingar-. Íslenskt jafngildi enska heitisins master/slave software er þá verkaskiptingarhugbúnaður.

Endurhögun og bakhögun

Varast ber að rugla saman ensku heitunum reengineering og reverse engineering. Þau standa fyrir tvö mismunandi hugtök. Reengineering hefur verið kallað endurhögun á íslensku. Um er að ræða að skoða kerfi og breyta því til þess að setja það saman á nýjan hátt og ganga frá því þannig breyttu til notkunar.
Reverse engineering er hins vegar heiti á hugtaki sem mætti kalla bakhögun á íslensku. Um er að ræða þá aðferð að rannsaka starfandi kerfi , t.d. taka hlut í sundur, í því skyni að endurbæta kerfið eða smíða annað eins. Til samanburðar er hin venjulega aðferð við að búa til ný kerfi með því að hanna þau á röklegan hátt frá grunni á grundvelli sérhæfðra hugmynda. Um þessa venjulegu aðferð mætti hafa heitið framhögun, sbr. enska heitið forward engineering sem er sjaldan notað, en kannski er ekki þörf á slíku heiti.

Umgangshögun

Þegar gera skal svipaða aðgerð á mörgum atriðum er oft höfð sú aðferð að gengið er að atriðunum í tiltekinni skynsamlegri röð, aðgerðin framkvæmd og stundum farinn annar umgangur ef það á við.  Þetta gæti til dæmis átt við atriði á lista þar sem venjulega er byrjað efst á listanum og haldið niður eftir honum. Þegar komið er á botninn er hægt að byrja aftur efst ef ekki þykir nóg að gert. Þessi tilhögun er ekki takmörkuð við upplýsingatækni en getur átt við fjarri öllum tölvubúnaði við hinar ólíkustu aðstæður. Enskumælandi menn nota um þessa aðferð heitið round robin. Á íslensku er hægt að kalla hana umgangshögun.

Alnet

Er tími heitisins alnet að renna upp? Það hefur ekki farið framhjá mörgum að skilin á milli tölvu, síma og myndvarps eru sífellt að verða óskýrari. Ýmsir framtíðarspámenn sjá fyrir að því fylgi í framtíðinni sameiginlegt allsherjarnet fyrir þessar ólíku tegundir tækni og hafa á ensku gefið því heitið universal network.
Hér er nú lagt til að heitið alnet verði notað á íslensku um þess konar net. Rifja má upp að heitið alnet var á sínum tíma haft um tiltekið net hjá Skýrr og síðar reyndi Morgunblaðið árum saman af mikilli þrautseigju að fá fólk til að nota þetta heiti fyrir lýðnetið (Internetið) en það hlaut ekki náð fyrir augum íslensku þjóðarinnar. Einkum voru tölvuspekingar andvígir heitinu alnet í þeirri merkingu og töldu það vera rangnefni. Hins vegar virðist herferð Morgunblaðsins hafa borið árangur í Færeyjum, því að Færeyingar hafa tekið alnet upp á arma sína og nota það um lýðnetið. Sé leitað á veraldarvefnum með leitarvél að orðinu ‘alnet’ kemur í ljós að það er til í ýmsum fleiri löndum og gæti verið fróðlegt fyrir áhugamenn að kynna sér það.

Sínet

Miklar framfarir ganga nú yfir í þráðlausri tækni við að tengja saman tæki og net. Talið er að í sjónmáli sé samruni hennar við breiðbandstækni og símtækni á lýðnetinu og að það muni leiða til þess að notendur og tæki geti verið sítengd við veraldarvefinn hvar sem er. Á ensku hafa menni gefið þessu sítengingarneti framtíðarinnar heitið Evernet. Hér er lagt til að það verði kallað sínet á íslensku. Ætla má að sínetið muni meðal annars einnig ná til venjulegra heimilistækja með búnaði til að stýra umhverfinu.