Skip to main content

Gangþjáll, skiptaþjáll

Fyrir sjö vikum var í orði vikunnar stungið upp á lýsingarorðinu gangþolinn sem þýðingu á enska orðið hot í tilteknum orðasamböndum þar sem um er að ræða að einhverjar breytingar fari greiðlega fram án þess að trufla til dæmis gang tölvunnar. En allt er í heiminum hverfult. Orðanefnd er jafnan fús til að hafa heldur það sem betur reynist og skipta um skoðun ef það þarf til. Nú líst nefndinni betur á orðið gangþjáll og leggur til að hot swap og hot swapping verði á íslensku gangþjál skipti.
Náskylt þessu er enska lýsingarorðið hot‑swapable, sem er haft til dæmis um harðdiska sem skipta má um án þess að trufla með því gang tölvunnar. Lagt er til að slíkur diskur verði á íslensku kallaður skiptaþjáll diskur.

IP-númeraskilja, netskilja

Orð síðustu viku var IP-númer/IP-tala sem skiptist í netnúmer og innannetsnúmer. Þessi skipting er ekki alltaf á sama stað í IP-númerinu. Til þess að lýsa því hvar skilin eru án þess að tilgreina númerin sjálf er notuð tala eða númer sem á ensku kallast netmask. Hér er lagt til að þessi tala verði kölluð IP-númeraskilja. Ef það þykir óþægilega langt heiti má nota samheitið netskilja. IP-númer hefur 32 bita (tölustafi í tvíundakerfinu). IP-númeraskilja hefur einnig 32 bita. Fremstu bitarnir eru allir 1 og samsvara þeir netnúmerinu en þeir öftustu eru allir 0 og samsvara innannetsnúmerinu. Algengt dæmi er IP-númeraskiljan 11111111111111111111111100000000, sem í tugakerfinu er skrifuð 255.255.255.0. Hún segir til um að IP-númer skiptist í 24 bita netnúmer og 8 bita innannetsnúmer. 

IP-númer, IP-tala

Til þess að tilgreina staðsetningu tölvu sem tengd er lýðnetinu er stundum notað svokallað IP-númer eða IP-tala. Á ensku hefur þetta hugtak nokkur heiti, m.a. IP address og IP number. Á íslensku hefur heitið IP-tala verið notað mun meira en IP-númer. Kannski er það óheppilegt, því að þessum tölum eða númerum svipar til húsnúmera og símanúmera, sem engum dettur í hug að kalla hústölur og símatölur.

IP-númer er sett saman úr tveimur hlutum. Fremri hlutinn er svokallað netnúmer, á ensku network address eða network number, og segir það til um staðsetningu tölvunetsins sem tölvan er í. Aftari hlutann, sem á ensku heitir host address eða host number, má kalla innannetsnúmer því að það er í tölvuneti hliðstætt við innanhússnúmer í símkerfi.
Þess ber að geta að enska heitið network address hefur einnig aðrar merkingar, þ.e. netfang og tölvupóstfang, og má ekki rugla þeim saman við netnúmer.

Sprettigluggi

Í síðustu viku var flennusíða orð vikunnar en það er vefsíða sem birtist óboðin. Annað fyrirbæri, sem birtist stundum snögglega á skjánum og minnir að því leyti á flennusíðu, er sprettigluggi, sem á ensku heitir pop-up window. Sprettigluggi lýtur þó ekki að veraldarvefnum né vefsíðum og á því í rauninni lítið skylt við flennusíðu. Hann birtist ekki sem boðflenna heldur sem velkominn smágluggi fyrir samskipti milli forrits og notanda, veitir notandanum upplýsingar og getur flutt boð frá notandanum til forritsins. Stundum er sprettiglugginn í formi valmyndar sem býður notandanum að velja á milli nokkurra kosta. Slík valmynd er kölluð sprettivalmynd, á ensku pop-up menu. 

Flennusíða, flenna

Þeir sem nota lýðnetið að jafnaði verða stundum fyrir því að skyndilega sprettur vefsíða fram á skjáinn, eða gluggann sem unnið er í, eins og óboðinn gestur, boðflenna, og er henni ætlað að ná athygli notandans. Enskumælandi menn kalla slíka vefsíðu jump page. Á íslensku getur hún heitið flennusíða eða einfaldlega flenna.