Skip to main content

Íauki, áauki, íbót

Á ensku eru ýmis orð höfð um viðbætur við tölvubúnað, t.d. add‑in, add‑on og plug‑in.Hið fyrsta, add-in, er nær eingöngu notað um viðbót við hugbúnað en add‑on oftast um vélbúnað, þó stundum um hugbúnað. Ef til vill er ekki ástæða til að hafa í íslensku samsvarandi aðgreind heiti heldur mætti nota heitið búnaðarauki um bæði. En ef menn vilja elta aðgreininguna í ensku mætti þýða add‑in sem íauki og add‑on sem áauki.
Hins vegar er plug‑in nokkuð annars eðlis. Þar er um að ræða forrit sem fellur inn sem hluti af vefsjá, t.d. Adobe Acrobat, og mætti kalla það íbót.

Frjáls hugbúnaður og fleira

Linux-stýrikerfið hefur notið vaxandi vinsælda að undanförnu sem valkostur í staðinn fyrir Windows-stýrikerfið. Linux er eitt þekktasta dæmið um svokallaðan frjálsan hugbúnað sem á ensku kallast free software. Um er að ræða hugbúnað án hugverkaréttar og réttur til að nota hugbúnaðinn, breyta honum og dreifa er ekki takmarkaður. Hins vegar má því aðeins dreifa hugbúnaðinum, breyttum eða óbreyttum, að með fylgi ákvæðin um frjálsa notkun, frjálsa breytingu og frjálsa dreifingu. Gjaldtaka er heimil.

Náskylt hugtak er opinn hugbúnaður, á ensku open software. Þá er um að ræða að opinn aðgangur er að frumforritum, eða forritstexta, en það er forsenda þess að unnt sé að breyta forritum.

 Varast ber að rugla free software saman við enska heitið freeware, sem merkir hugbúnað með verndaðan höfundarrétt en til frjálsra afnota og dreifingar án þess að greiðsla komi fyrir.

Freeware kallast gjafbúnaður á íslensku.

Lyndistákn

Í samskiptum á lýðnetinu, t.d. í netspjalli, eru stundum kölluð fram sérstök tákn sem eiga að sýna tilfinningar eða hugarástand manna. Slíkt tákn kallast emoticon á ensku (myndað úr emotion icon). Sé notaður viðeigandi hugbúnaður eru þessi tákn kölluð fram með runu fáeinna stafa á hnappaborði tölvunnar. Þessi tákn voru kölluð tilfinningatákn í 3. útgáfu Tölvuorðasafns 1998 en nú er lagt til að þau verði frekar kölluð lyndistákn. Mest notaða lyndistáknið stendur fyrir brosandi andlit sem kallað er á með rununni :-)  Líkindin með brosandi andliti sjást ef höfði er hallað fjórðung úr hring til vinstri og horft á rununa. Sorgmætt andlit fæst hins vegar með rununni :-(  Ítarlegt yfirlit yfir lyndistákn er að finna á http://www.windweaver.com/emoticon.htm 

Ræsikjarni

Þegar PC-tölva er ræst tekur fyrst til starfa hugbúnaður sem á ensku er skammstafaður BIOS, en það stendur fyrir basic input-output system. Þessi grunnhugbúnaður annast samskipti við nokkur jaðartæki auk þess sem hann sér um ræsingu á stýrikerfi í tölvunni, svo sem Windows, MS-DOS eða Linux. Í 3. útgáfu Tölvuorðasafns 1998 var þessi hugbúnaður kallaður grunnstýringarkerfi. Síðar barst inn á borð tölvuorðanefndar það ágæta heiti ræsikjarni. Hér er nú mælt með því að BIOS heiti framvegis ræsikjarni á íslensku. 

Fjölspilari

Á síðustu árum hafa orðið miklar tækniframfarir í flutningi myndefnis og tónlistar af lýðnetinu til tafarlausrar spilunar í tölvum notenda. Eitt þekktasta forrit sem gegnir þessu hlutverki er Media Player fyrir Windows-stýrikerfið. Reyndar er media player enskt samheiti yfir hugbúnað sem er notaður til að spila margmiðlunarefni, einkum mynd- og hljóðefni, beint af lýðnetinu. Slíkur hugbúnaður virðist smám saman vera að leysa plötuspilara og skyld tæki af hólmi og er hér lagt til að media player verði kallaður fjölspilari á íslensku.