Skip to main content

Hvar verður bókin mín?

Ég vil hafa bækur á pappír! Ég er bara þannig gæi. Ég verð þó að viðurkenna að ég nota stundum rafbækur og þá helst pdf-útgáfur af bókum og þá sérstaklega kennslubókum þegar það á við. Ég verð líka að viðurkenna að ég gef út kennslubækur á netinu á pdf-form (sem flestir lesendur þeirra prenta út held ég) og er ekki alveg sjálfum mér samkvæmur í rafbókamálum.

Ég er enginn spámaður, það hefur reynslan sýnt. Mér er í minni þegar Ingvar félagi minn árið 1993 eða 94 kynnti fyrir mér og dásamaði vefráparann Mosaic. Ég hristi hausinn og hugsaði með mér hvað hann væri nú óþreytandi í mismikilvægum pælingum. Aðrar merkar tækninýjungar hafa líka farið framhjá mér í upphafi og ég er eiginlega svo miður mín yfir  skammsýni minni að ég ætla ekki að tíunda það hér.

Nú velti ég því fyrir mér hvort ég eigi að fara að skoða sérstök tæki til að birta mér rafbækur. Helstu slík verkfæri sem hafa verið kynnt undanfarin ár tengjast stóru bókasölunum á vefnum, Amazon og Barnes & Noble, tækin eru Kindle og Nook. Nú er kominn iPad og við getum velt því fyrir okkur hvort hann muni breyta landslaginu í rafbókum.


Ég þekki engan sem á Kindle eða slíkan búnað en ég hef grun um að einhverjir kunningjar muni falla fyrir iPad þó ekki væri nema fyrir græjudellu.Ég hef hins vegar ekki trú á því að það verði sérstaklega til að lesa rafbækur.  Þú ættir að skoða kynningu Steve Jobs á iPad ef þú hefur ekki þegar gert það. Aðrar lausnir en iPad hafa verið kynntar undafarið, sjá má stutta ágætisumfjöllun á CNN frá 8. janúar 2010: Bold new e-readers grab attention at CES.

Stephen Fry fjallar mikið um nýja tækni og sumir segja að hann hafi mikil áhrif á markað með nýjar tæknivörur þar sem margir lesi skrif hans sem eru skemmtileg og fróðleg (sjá stephenfry.com). Hann er auðvitað með græjudellu og hann viðurkennir fúslega að hann hafi alveg fallið fyrir iPad. Aðrir eru ekki eins jákvæðir eins og sjá má m.s. í Pressunni 8. feb 2010 ().  Það er vert að hafa í huga að margir höfðu litla trú á iPod og iPhone, Apple virðist oftast geta orðið „trendsetter“, sjáum hvað setur í þetta sinn. 

Stephen Fry er með það á hreinu að dagblöð, tímarit, bækur og kynningarefni verði unnið fyrir iPad og „Jack Bauer will want to return for another season of 24 just so he can download schematics and track vehicles on it. Bond will have one. Jason Bourne will have one.“  (Af vef Stephen Fry um iPad)

Nýlega kom einn fulltrúi bókaútgefanda fram í fjölmiðlum og taldi að bækur færu sömu leið og músík og kvikmyndir, sala snarminnki og þjófnaður geri út af við iðnaðinn. Útgáfa rafrænna bóka hér á landi er ekki komin í gang en erlendis hefur orðið mikil aukning í sölu rafbóka (sjá m.a. á CNN Tech Trend).
Það er mikill mundur á „neysluformi“ bóka annars vegar og tónlistar og kvikmynda hins vegar. Tónlist hvort sem hún er keypt eða stolin er spiluð á sama hátt og í sömu tækjum og það sama á við um kvikmyndir (ef við undanskiljum það að sjá myndir í kvikmyndahúsum). Bækur á rafrænu formi og hefðbundnu pappírsformi eru ólíkar í útliti og upplifun. Það er því ekki jafnaugljóst að þjófnaður geri sama usla í bókaútgáfu og tónlistar- og kvikmyndaiðnaði. Hér á landi eru bækur mikið notaðar til gjafa og ég sé ekki fyrir mér að ólöglega niðurhalaðar bækur verði mikið notaðar til slíks.

Ég hef prófað að lesa bækur á PalmPilot (reyndi að lesa slíkt í strætó fyrir 10 árum síðan) og hef reynt það sama með fartölvu. Hef meira að segja prófað að liggja á hliðinni í rúminu og snúið fartölvu á hliðina við lestur rafbókar. Hvort tveggja var leiðindaupplifun og þrjóska mín gaf þessu ekki marga daga í tilrauninni minni.

Undanfarin ár hafa komið fram nokkur tæki og tækni til að nota rafbækur og hér er listi yfir nokkrar af þeim lausnum sem eru í boði og vísanir á vefsíður (smellir á nafnið) 

  • Kindle frá Amazon, til í fleiri en einni stærð
  • iPad frá Appl, verður um nokkrar útfærslur að ræða
  • Liad
  • IREX Digital Reader
  • Nook frá Barnes & Noble
  • Cybook
  • Hanlin eReader
  • Plastic Logic Que, ekki byrjað að selja en áhugaverður kostur
  • Skiff Reader, stór og flottur

Flestar lausnir eru á stærð við vasabrotsbók og tæplega það. Ipad frá Apple er stærri og nýjast og stærsta útgáfa af Kindle er svipuð stærðar og iPad. Einstaka lausnir eru á stærð á við A4 (sjá t.d. Plastic Pro Que, sem er á listanum hér fyrir ofan), en þar er um að ræða mun þynnri útgáfur en aðrar lausnir bjóða.
Verð tækja er frá um 250$ (minnstu útgáfur) og um eða upp fyrir 500$.
iPad er með litaskjá en flestar aðrar lausnir hafa bara gráskala mynd. Ef ég væri að hugleiða rafbókalesara vegna kennsluefnis þá mundi ég velja litaútgáfu.

Geymslurýmd er mismunandi, flest tæki hingað til hafa boðið 1-2 GB en iPad mun fást með 16-64 GB geymslurýmd.

Af öðrum„ undarlegum lausnum“ má nefna þann möguleika að sýna hreyfimynd (videó) á pappírsformi t.d. í tímariti . Skemmtileg hugmynd!

Atriði sem munu hafa áhrif á notkun rafbóka:

  • Staðlar um framsetningu (pdf, epub, BBeB (Broad Band eBook frá Sony) o.fl.
  • Framboð efnis
  • Verð tækja
  • Verð bóka – Amazon og Barnes & Noble  halda verði við 10 dollara, bjóða jafnvel metsölubækur á 5 dollara, bókaútgefendur hafa áhyggjur af því að þetta haldi verði niðri, niður fyrir það vera sem er talið þurfa til að hafa nauðsynlegan ávinning af útgáfunni (sjá iPad Rattles the e-Bookshelves)
  • Stærð og áferð (eða „upplifun“) – á mínu náttborði er einn sænskur krimmi, 201 bls og 109 grömm annar bandarískur krimmi upp á 580 síður og 291 gramm, en það er þyngdin á litlu útgáfunni af Kindle, iPad er mun þyngri eða 680 grömm minnsta úgáfan (það skal tekið fram að sænski krimminn er mun betri en sá bandaríski)
  • Upplausn og litir – iPad er eina raunhæfa litalausnin
  • Geymslurýmd
  • Útbreiðsla tækja til lesturs rafbóka

En það er þetta með bókina ...

Ég hef haldið því fram af íhaldssemi að ekkert komi í stað pappírshlunks sem bundinn er í handhægt form - hefur hnussað í mér út af tilraunum manna til að rafvæða fyrirbærið, tilraunir mínar til að nota slíka tækni verið í alla staði ógeðfeld lífsreynsla. Mín röksemd hefur sífellt verið að „tilfinningin“ fyrir bókinni, áferð og sveigjanleiki væri öðru mikilvægara
En ég er lélegur spámaður, þegar upp verður staðið þá getur vel verið að ég endi á því að nota einhvern tölvubúnað til að birta mér lesefnið – sjáum til.

Jón Freyr Jóhannsson - jonfreyr@bifrost.is