Skip to main content

Stelpur og tækni

Stelpur og tækni (Girls in ICT Day)
30. apríl 2014
                        

80 stelpum úr 8. bekk fimm grunnskóla verður boðið í Háskólann í Reykjavík og í fjögur tæknifyrirtæki miðvikudaginn 30. apríl

Skólarnir sem taka þátt eru Austurbæjarskóli, Laugalækjaskóli, Hlíðaskóli, Hörðuvallaskóli og Garðaskóli. Að verkefninu standa Háskólinn í Reykjavík, Ský, Samtök iðnaðarins, GreenQloud, Skema og /sys/tur en verkefnið hefur hlotið styrk úr Framkvæmdasjóði jafnréttismála.

Markmið

Markmiðið með deginum er að kynna stelpurnar fyrir ýmsum möguleikum í upplýsingatækni og opna augu þeirra með áhugaverðri dagskrá þar sem þær hitta kvenfyrirmyndir í faginu, fá að spreyta sig á skemmtilegum verkefnum og heimsækja helstu tæknifyrirtæki landsins.Vinnusmiðjur, sem haldnar eru í Háskólanum í Reykjavík, verða í umsjá Skema, /sys/tra og tölvunarfræðideildar og eru viðfangsefnin á borð við vefsíðugerð, forritun og gervigreind. Tæknifyrirtækin sem verða heimsótt eru Advania, GreenQloud, Hugsmiðjan og Marorka og munu þau gefa stelpunum góða innsýn í fyrirtækin og þau tækifæri sem stelpum bjóðast að loknu tækninámi.   

Evrópskur viðburður

„Girls in ICT Day“ er haldinn víða um Evrópu þann 24. apríl hvert ár og er styrktur af ITU (International Telecommunication Union) og Evrópusambandinu í tengslum við Digital Agenda-áætlunina. Þetta er í fyrsta skiptið sem Ísland tekur þátt en mun dagurinn fara fram þann 30. apríl hér á landi þar sem 24. apríl var frídagur.

Í ár munu 30.000 stelpur taka þátt í 1300 viðburðum sem haldnir eru í 100 löndum. Skortur á starfsfólki í tæknistörf er alþjóðlegt vandamál og eru konur þar vannýtt afl þar sem mikill minnihluti kvenna fer í tæknitengt nám. Konur telja um 20 % af nemendum í tæknitengdu námi meðan strákar eru 80 % nemenda hér á landi þrátt fyrir að konur séu í meirihluta hákskólanemenda. Tækniiðnaðurinn er orðinn einn af stærstu atvinnugreinum heims og því mikil eftirspurn er eftir tæknimenntuðu fólki en tæknistörf eru komin á topp tuttugu lista yfir hæst launuðustu störfin. Markmiðið með deginum er því að hvetja stelpur til að sækja sér starfsferil í tækni með því að sýna þeim hvað tækniiðnaðurinn býður upp á og brjóta upp staðalímyndir af tæknistörfum. Verkefnið er hér á landi að hluta til styrkt af mennta- og menningarmálaráðuneytinu sem hluti af jafnréttisáætlun stjórnvalda.  Dagurinn mun auk þess marka upphaf að samstarfi við ECWT– The European Centre for Women and Technology en HR mun stýra starfsemi samtakanna á Íslandi.

Í tilefni dagsins er efnt til samkeppni sem allar stelpurnar, sem verða með í dagskránni, geta tekið þátt í.

Ský efnir til samkeppni um bestu samantekt á upplifuninni á deginum t.d. framtíðarsýn á stelpur í tækni, reynslu af deginum s.s. hvað var áhugavert og hvað kom á óvart. Skilyrði er að upplifuninni sé skilað á tölvutæku formi; myndband, myndasería, skrifaður texti, vefsíða eða annað sem nýtir tölvutækni á einhvern hátt. Skila skal tillögum til Ský í gegnum netfangið sky@sky.is í síðasta lagi 15. maí. Verðlaunin eru Makey Makey og verða veitt þeim skóla sem sendir inn bestu upplifunina. Makey Makey er skemmtilegur pakki sem gaman er að nota í skólum við kennslu á möguleikum upplýsingatækninnar og til að prófa ýmsa skapandi hluti sem nemendur ættu annars ekki kost á í kennslustund.

Samtök iðnaðarins standa fyrir instagramkeppninni #stelpurogtækni. Þema keppninnar er Fókus á fyrirmyndir og er myndefninu ætlað að lýsa á einhvern hátt hverjar fyrirmyndir stelpnanna eru þegar kemur að tækni. Um er að ræða einstaklingskeppni og eiga þátttakendur að skila myndunum inná #stelpurogtækni og merkja myndina með fullu nafni, skóla og einni setningu sem lýsir myndefninu. Veitt verða verðlaun fyrir 1. sætiog verða þau afhent í HR á degi “Stelpna og tækni” kl. 14 þann 30. apríl. Skilafrestur er til kl. 12, þriðjudaginn 29. apríl.

 

Fjölmiðlaumfjöllun:                              

Tengill i viðtal á X-inu í tilefni dagsins: http://www.visir.is/section/MEDIA98&fileid=CLP26580

Frétt á vb.is: http://www.vb.is/frettir/104771/

 


20140430 125818
20140430 125821
20140430 125828
20140430 125835
20140430 125836
20140430 130414
20140430 130420
20140430 131431
20140430 131435
20140430 144955
20140430 145011
20140430 145017

  • 30. apríl 2014