Anna Ólafsdóttir Björnsson
Anna Ólafsdóttir Björnsson
Fædd 4. júní 1952
Anna var gerð að heiðursfélaga á aðalfundi Ský þann 28. febrúar 2018 fyrir framlag hennar til upplýsingatækni á Íslandi.
Anna er sagnfræðingur og tölvunarfræðingur að mennt. Hún lauk BA prófi í sagnfræði og almennri bókmenntasögu frá Háskóla Íslands 1978 og cand. mag. prófi í sagnfræði frá sama skóla 1985. Hún starfaði við blaðamennsku og þáttagerð í útvarpi á árunum 1978-1989 og hefur tekið stök verkefni að sér á því sviði æ síðan. Hún settist á þing fyrir Kvennalistann 1989 og sat þar í sex ár til 1995. Meðal þingmála hennar var þingsályktunartillaga um að þingskjöl og umræður á alþingi yrðu opin almenningi í tölvutæku formi og ókeypis, svo og lög, reglugerðir og alþjóðasamningar. Á þeim tíma er málið var flutt (1994 og 1995) þótti síður en svo sjálfsagt mál að bjóða slíkan aðgang ókeypis og einkaaðilar voru farnir að huga að því að sjá um þessa þjónustu fyrir borgun. Um svipað leyti skrifaði hún sína fyrstu grein í Tölvumál. Hún hefur látið sig varða hlutverk kvenna í tæknisamfélaginu.
Á árunum 1995-2000 helgaði Anna sig sagnfræðirannsóknum og skrifaði meðal annars nokkrar bækur, bókakafla og útvarpsþáttaröð á sviði sagnfræði, en samhliða því fetaði hún sig inn á svið upplýsingatækninnar. Frá árinu 2001 til dagsins í dag (febrúar 2018) hefur hún starfað nær óslitið að hugbúnaðargerð, fyrst í stað samhliða námi. Hún útskrifaðist með M.Sc. gráðu í tölvunarfræði frá Háskóla Íslands 2008 og fjallaði lokaverkefni hennar um allumlykjandi tölvutækni (ubicomp/ubiquitous computing) – það hvernig tölvutækni rennur smátt og smátt saman við allt daglegt umhverfi fólks og verður sífellt ósýnilegri. Önnur hugtök, sem leyst hafa ubicomp af hólmi, eru meðal annarra internet hlutanna, (IoT/Internet of Things).
Áhugasvið Önnu er allt sem lýtur að samskiptum fólks og tölvu (HCI). Starfsvettvangur hennar í hugbúnaðargerð á Íslandi og erlendis hefur einkum verið á sviði tækniskrifa og hugbúnaðarprófana. Sem tæknihöfundur hefur hún fyrst og fremst lagt áherslu á að auka upplýsingaflæði innan fyrirtækja og milli forritara og annarra sérfræðinga og hagsmunaaðila, skilgreina og setja upp ferli og miðla tæknilegum upplýsingum. Hún hefur oftar en ekki fengið það hlutverk að móta starfsvið sitt hjá upprennandi fyrirtækjum (og fyrirtækjum í umbreytingarferli) á borð við Betware, INNN, LS Retail, MainManager, Kreditech í Hamborg og Qlik DataMarket.
Um mitt ár 2015 fékk Anna það verkefni að taka við ritun sögu tölvuvæðingar á Íslandi á vegum Ský, verkefni þar sem hún gat sameinað sagnfræðirannsóknir og -skrif og brennandi áhuga á tölvuvæðingu í fortíð, nútíð og framtíð. Sagan fjallar ekki síst um þau gífurlegu áhrif sem tölvutæknin hefur haft á allt daglegt líf fólks og hvert einasta svið samfélagsins. Þótt fimmtíu ár séu ekki langur tími í augum sagnfræðinga þá hafa þau umskipti sem orðið hafa á þeim áratugum, sem liðnir eru frá komu fyrstu tölvunnar til Íslands, gjörbreytt svip samfélagsins. Það eru ómetanleg forréttindi fyrir sagnfræðing að fá að fjalla um þetta efni og tala við fólkið sem mótaði þetta tímabil og fyrir tölvunarfræðing að skilja betur grunninn sem nútímatækni hvílir á.